Kalda vatnið – Ekki ókeypis gæði

Grein/Linkur: Það er munur að hafa ókeypis tært drykkjarvatn, eða er ekki svo?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

sturta

.

Október 2007

Það er munur að hafa ókeypis tært drykkjarvatn, eða er ekki svo?

Við erum vön því hérlendis að borga heita vatnið eftir mæli, greiðum ákveðið gjald fyrir hvern rúmmetra af heitu vatni. Engan veginn er hægt að segja að íslenska hitaveituvatnið sé dýrt og svo er það mengunarlaust að mestu, sem er ekki lítill kostur. Hins vegar er enginn mælir á inntaki kalda vatnsins, það getum við notað að vild og enginn telur það eftir. Að vísu þurfa stórnotendur í fyrirtækjum að borga kalda vatnið eftir mæli, en það þurfa þau Jón og Gunna ekki að gera, kalda vatnið rennur ómælt inn á hvert heimili.

Þetta er eitt af því sem vekur mikla furðu útlendinga sem koma í heimsókn. Hvarvetna austan hafs og vestan er hver dropi mældur og mörgum erlendum gestum finnst það hreinasta bruðl og sóun að nota samskonar vatn til að sjóða mat, slökkva þorsta og skola úr klósetti.

Á síðustu árum hafa framleiðendur hreinlætis- og blöndunartækja gengið æ lengra í því að framleiða tæki sem nota sem minnst vatn, þetta á ekki síst við um salerni. Vatnsmagnið í salerniskössum hefur stöðugt verið að minnka. Þetta hefur kallað á það að breyta gerð salernisskálanna þannig að betur renni úr þeim með litlu vatnsmagni. Sjálfvirkir rofar sjá til þess að vatn renni ekki nema rétt meðan þörf er á því.

Já, það er munur að vera Íslendingur og fá kalda vatnið ókeypis og ótakmarkað, eða er það ekki svo?

Vissulega er það útbreidd skoðun að kalt vatn á Íslandi sé ókeypis en það er nú öðru nær. Skattheimtuarmur sveitarfélaganna, sem er að verða sá gráðugasti hérlendis, hefur ætíð séð til þess að þegnarnir greiði fyrir flest þau gæði sem íbúar sveitarfélaganna fá. Flestir húseigendur stynja þungan undan fasteignasköttum en þar tekur sveitarfélagið dágóðar upphæðir eins og allir húseigendur vita. En það er ekki víst að menn lesi reikninginn fyrir fasteignaskattinn í þaula, hafa kannski aldrei litið á hann en borgað með stunum og ólund.

Sú var víst tíðin að þessi seðill var eingöngu fyrir fasteignagjald sem var reiknað út eftir fasteignamati. En svo fóru að bætast við fleiri skattar og nú er svo komið að hver einasti húseigandi greiðir umtalsvert gjald fyrir kalda vatnið sem hann og hans fólk notar. Vissulega er ekki verið að mæla þetta til hvers og eins enda vitað hvað meðalfjölskyldan notar af köldu vatni.

Við ættum því að vera orðvör næst þegar við státum okkur af því við erlenda gesti að hér sé hið silfurtæra og góða íslenska vatn ókeypis.

En hvað kostar þá íslenska góða kalda vatnið?

Það getur verið misjafnt eftir sveitarfélögum, hvert sveitarfélag hefur leyfi til að ákveða það í sinni heimabyggð. Upphaflega var skattur kalda vatnsins með þeim takmörkunum að ekki skyldi tekið meira gjald af íbúunum en til að standa undir öflun þess. Þetta sjónarmið er löngu týnt og tröllum gefið hjá gráðugum sveitarstjórnarmönnum. Lítum á dæmi frá sveitarfélagi austan fjalls eins og sagt er í daglegu tali. Þar er einbýlishús 160m², fasteignamatið rétt rúmar 20 milljónir kr. Vatnsskattur af því húsi er á þeim stað 31.000 kr. og svo dúkkar upp sakleysislegur skattur þar við hliðina sem er holræsagjald sem er 35.000 kr. Svo má heldur ekki gleyma fasteignagjaldinu sjálfu, 87.000 kr., allt eru þetta árleg gjöld.

Allir gera sér grein fyrir að aðaltekjulind sveitarfélaga er útsvarið sem tekur mið af tekjum hvers og eins. Allir viðurkenna að sveitarfélög verða að hafa tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem af þjónustu við íbúana hlýst. Ekki er óeðlilegt þótt greitt sé fyrir kalt vatn, það kostar peninga að afla þess. En einstaklingar eiga ekki að lifa við þær ranghugmyndir að íslenska kalda gæðavatnið sé ókeypis, það er borgað fyrir hvern dropa.

Hins vegar má vel spyrja þeirrar spurningar hvort sífellt hækkandi fasteignagjald komi ekki niður á viðhaldi húsa. Þetta er gjald sem tekið er af fasteigninni án nokkurs tillits til tekna eigendanna. Nú rekur einhver upp ramakvein og segir að ellilífeyrisþegar fái afslátt af fasteignagjöldum. En þá koma til hin alræmdu skerðingarákvæði, hinn aldraði þarf helst að vera orðinn sveitarlimur til að fá nokkurn afslátt af fasteignaskatti.

En hættum að líta á kalda vatnið sem ókeypis gæði, svo sannarlega þarf að borga fyrir það.

Fleira áhugavert: