Hvalárvirkjun – Ofurvirkjanadraumar, Kórvilla
Grein/Linkur: Hvalá: Næststærsti draumurinn?
Höfundur: Snæbjörn Guðmundsson
.
.
September 2019
Hvalá: Næststærsti draumurinn?
Hverjar ætli séu brjálæðislegustu virkjanahugmyndir Íslandssögunnar? Margir munu líklegast nefna Kárahnjúkavirkjun, langstærstu virkjun landsins, en með henni var Jöklu, sem einnig er þekkt undir heitinu Jökulsá á Dal eða Jökulsá á Brú, vippað hátt í 40 km leið um jarðgöng yfir í Lagarfljót. Umhverfisáhrifin af þessari framkvæmd voru sem vænta mátti í samræmi við umfangið. Lífríkinu í Lagarfljóti lá við eyðileggingu, umfangsmiklu samfelldu hálendisgróðurlendi á Vesturöræfum var sökkt og friðlandið í Kringilsárrana skilið eftir opið fyrir vatnsrofi og leirfoki úr lónstæði Hálslóns, svo fátt eitt sé nefnt.
Blessunarlega hafa engar aðrar hugmyndir í líkingu við Kárahnjúkavirkjun komist til framkvæmda en hvað með aðrar virkjanahugmyndir sem ekki hafa enn og verða vonandi aldrei að veruleika? Af ýmsu áhugaverðu (lesist: brjálæðislegu) er þar að taka. Hvað með uppistöðulón í Þjórsárverum, þar sem fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að sökkva verunum í heild sinni upp undir jökul? Eða Austurlandsvirkjun þar sem stærsta útfærslan gerði ráð fyrir að öllum jökulám frá norðaustanverðum Vatnajökli yrði veitt í eina risavirkjun, sem var af sumum nefnd „Langstærsti draumurinn“ („LSD“)? Þá var um tíma rætt um flutning Skjálfandafljóts úr farvegi sínum ofan við Aldeyjarfoss yfir í Svartárvatn og þaðan áfram norður í Laxá, og vatnaflutningar Skaftár yfir í Tungnaá í gegnum Langasjó voru á teikniborðinu nánast alveg fram að innlimun Langasjávar í Vatnajökulsþjóðgarð árið 2011.
Þessar hugmyndir eiga það líklegast sameiginlegt að vera í hugum almennings leifar „gamla tímans“, þegar viðhorf til náttúrunnar voru önnur og ekki þótti merkilegt að láta náttúru standa í vegi fyrir „framförum og uppbyggingu“. Það eru þó ekki meira en um 20 ár síðan ákveðið var að fara í Kárahnjúkavirkjun, og áratug síðar voru enn til umræðu hugmyndir um miðlunarlón í Þjórsárverum og flutning Skaftár yfir á vatnasvið Þjórsár og Jökulsár á Fjöllum yfir í Hálslón. Ofurvirkjanahugmyndirnar eru nefnilega hreint ekki svo fornar eftir allt saman!
Blautir ofurvirkjanadraumar
Eitt besta yfirlit yfir þetta tímabil stórkarlalegustu risavirkjanahugmyndanna má finna í skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og Orkustofnunar frá 1994, sem nefnist „Innlendar orkulindir til vinnslu raforku“. Í skýrslunni er reyndar búið að vinsa brjálæðislegustu hugmyndir 8. áratugarins út en eftir standa samt býsna stalínískar stórvirkjanahugmyndir, útfærslur þar sem mörgum vatnasviðum ofan hálendisbrúnarinnar er steypt saman í eina risavirkjun með tómum vatnsfarvegum og þurrkuðum heiðalöndum án nokkurs tillits til náttúrunnar. Þessar hugmyndir gengu furðumargar út á að safna vatni af eins stórum hálendisflæmum og mögulegt er og troða því í gegnum örfáar risastórar túrbínur.
Reyndar má telja skýrsluhöfundum til tekna að tekið er sérstaklega fram að hugmyndirnar eru lagðar fram án þess að horfa til náttúruverndarsjónarmiða, þetta eigi aðeins að vera yfirlit yfir tæknilega nýtilega orku, en um leið er sagt að náttúruverndar- og hagkvæmnisjónarmið muni ef til vill takmarka nýtingu um helming, svo að í hugum höfunda hefur líklegast verið mögulegt (og án vafa góð hugmynd) að hrinda stórum hluta þessara hugmynda í framkvæmd. Þetta eru með öðrum orðum ekki verkfræðilegar æfingar eða hugmyndir út í loftið heldur beinlínis áætlanir fyrir virkjanaframkvæmdir næstu áratuga á eftir. Þarna er verið að setja tóninn, og þótt Íslendingar væru þá þegar orðnir með allrastærstu raforkuframleiðendum í heimi miðað við höfðatölu átti svo sannarlega ekki að slaka á heldur keyra áfram allt í botn.
Kárahnjúkavirkjun er besta dæmið um virkjunarútfærslu í skýrslunni, sem komist hefur í framkvæmd eftir 1994, en aðrar hugmyndir lifa jafnvel enn í dag góðu lífi eins og virkjanahugmyndir í neðri hluta Þjórsár, Stóru-Laxá, ýmsar jarðvarmavirkjanir og svo ein alræmdasta virkjanahugdetta okkar tíma.
„Kórvilla á Vestfjörðum“
Af þeim aragrúa slæmra virkjanahugmynda sem settar eru á blað í skýrslunni er nefnilega ein sem vekur sérstaka athygli í ljósi umræðu dagsins. Hún er útlistuð á blaðsíðum 48–49 og er nokkurs konar ofurútgáfa af Hvalárvirkjun. Þar er útfærð virkjun sem höfundur hefur dregið upp á meðgylgjandi kort (mynd 1).
Virkjunin myndi ná til allrar Ófeigsfjarðarheiðar ofan Ófeigs- og Eyvindafjarða með Hvalá og Rjúkanda sem kjarna virkjunarsvæðisins (i á korti). Til þeirra yrði vatni veitt úr vestri frá vötnunum sunnan við Drangajökul (ii), frá árdrögum og vötnum ofan Langadalsstrandar þar sem heita Skúfnavötn (iii) og sunnan að allt frá Steingrímsfjarðarheiði þar sem Staðardalsá í Steingrímsfirði á meðal annars upptök sín (iv). Að suðaustan yrði vatni veitt frá afrennslissvæði Selár í Steingrímsfirði (v) og að norðan myndi veitan teygja sig norður að Bjarnarfirði á jarðamörkum Dranga og Skjaldabjarnarvíkur (vi).
Sjálft miðlunarsvæði þessarar ofurútgáfu Hvalárvirkjunar eins og hún birtist árið 1994 hefði náð yfir um 600 km² svæði uppi á heiðarlöndum, fjölda farvega stórvatnsfalla hefði verið raskað eða þeir tæmdir auk aragrúa minni áa á svæðinu. Áhrifasvæði virkjunarinnar (mislituð svæði umhverfis lón og raskaða farvegi á mynd 1) hefðu náð yfir meira en 1400 km². Orkuframleiðsla þessarar risavirkjunar var áætluð um 1.300 GWst (uppsett afl í MW hafði ekki verið ákvarðað á þessum tíma), sem er um fjórðungur af framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar (5.000 GWst) og hefði skilað Hvalá með Hrauneyjafossvirkjun í 3.-4. sætið yfir stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins á eftir Kárahnjúkum og Búrfelli.
Þessi ofurútgáfa af Hvalárvirkjun, sem hefði lagt undir sig Ófeigsfjarðarheiðina, teygt sig norður eftir Ströndum, út á heiðabrúnir ofan Djúps og suður um Steingrímsfjarðarheiði, lítur út eins og illa hugsuð útópísk ofuræfing í vatnsaflsverkfræði, og eflaust þykir lesendum nóg um að sjá hana bara á kortinu hér að ofan. Sem betur fer varð þessi útgáfa þó ekki ofan á í þeim virkjanaundirbúningi að Hvalárvirkjun sem Vesturverk og HS Orka hafa staðið í undanfarin ár. Eða hvað? Hvað ef það kæmi í ljós að virkjanabrjálæði 20. aldarinnar lifir ennþá góðu lífi uppi á Ófeigsfjarðarheiði árið 2019?
Kórvillan gengur aftur
Höfundur hefur áður rakið hugmyndir um framtíðariðnaðarsvæði uppi á Ófeigsfjarðarheiði. Virkjanahugmyndir á svæðinu snúast nefnilega ekki einungis um Hvalárvirkjun, þótt hún sé komin lengst í undirbúningi og framkvæmdir við hana séu í raun hafnar með vegagerð í Ingólfs- og Ófeigsfjörðum. Tvær aðrar virkjanir hafa verið í pípunum um langa hríð, Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun. Yfirlitskort af orkuiðnaðarsvæðinu uppi á Ófeigsfjarðarheiði fylgir hér með (mynd 2) svo lesendur geti áttað sig á umfangi þeirra hugmynda sem stefnt hefur verið að í nokkur ár.
Um leið er ágætt að bera núverandi hugmynd um þrjár virkjanir á svæðinu við ofurútgáfu Hvalárvirkjunar eins og hún birtist í fyrrnefndri skýrslu iðnaðarráðuneytisins 1994. Með samanburði (sjá myndir 1 og 2) sést nefnilega að núverandi hugmyndir eru samanlagt ekki svo frábrugðnar hinni 25 ára gömlu ofurútgáfu að Hvalárvirkjun. Þær þrjár virkjanir sem nú er stefnt að ná yfir nánast öll sömu svæði og fyrirhugað var árið 1994, og áhrifasvæðið (litað á mynd 2) er um 800 km², eða vel yfir helmingur af áhrifasvæði ofurútfærslunnar frá 1994. Syðstu vötn Steingrímsfjarðarheiðar, árdrög Selár og nyrstu árnar í landi Dranga og Drangavíkur á Ströndum eru ekki með, en að öðru leyti er núverandi þriggja-virkjana útfærsla nokkurn veginn sú sama og ofur-Hvalárvirkjunin frá 1994. Það er kannski afhjúpandi að í skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og Orkustofnunar frá 1994 stendur raunar eftirfarandi: „Helsti kostur þessarar virkjunarleiðar er að auðvelt er að áfangaskipta virkjun.“
Að öllu ofansögðu verður því einfaldlega ekki annað séð en að núverandi virkjanahugmyndir um þrjár virkjanir á svæðinu, Hvalár-, Skúfnavatna- og Austurgilsvirkjanir, sé einfaldlega risavirkjunarhugmyndin frá 1994 afturgengin, og núna einmitt áfangaskipt eins og lagt var til í skýrslunni. Umhverfisáhrifin eru enda nokkurn veginn þau sömu, í báðum tilfellum gríðarlega mikil. Svæðið er í heild sinni gjörsamlega lagt undir virkjunarmannvirki með fjölda skurða, stíflum, lónum og tilfærslu vatnsfalla. Með áfangaskiptingu ofur-Hvalár myndi líka nást annar veigamikill „kostur“, þ.e. í augum virkjanaaðila: Vegna getuleysis kerfisins væri mögulegt að smeygja sér undan því að meta heildarumhverfisáhrif af öllum virkjununum í einu, eins og lög kveða þó á um. Með þeirri áfangaskiptingu sem nú er lagt upp með í þremur „sjálfstæðum“ virkjanahugmyndum er í raun verið að blekkja stofnanir og almenning með því að klippa heildaráhrifin niður í minni áhrifasvæði.
Til að kóróna kórvilluna má benda á að um áramótin 2014 til 2015 sendi Vesturverk, sem þá hafði verið yfirtekið af HS Orku, eigendum Drangajarðarinnar ósk um viðræður um leigu á vatnsréttindum nyrstu ánna (þeirra sem merktar eru númer vi. á korti 1). Sem betur fer hunsaði Drangafólk algjörlega ósk um viðræður enda ljóst að það tekur framtíðarhagsmuni náttúrunnar fram yfir skammtímagróða. Afrit af bréfi virkjunaraðila fylgir hér (mynd 3).
Ef eigendur Dranga hefðu hins vegar gengið að boði Vesturverks og HS Orku um að leigja út vatnsréttindi sín norðan Eyvindarfjarðar hefðu þær þrjár virkjanir sem nú eru á teikniborðinu komist enn nær ofurvirkjunarhugmyndinni frá 1994 hvað varðar umfang. Aðeins hefði vantað upp á að veita efstu drögum Staðardals- og Seláa í Steingrímsfirði norður til Hvalár og Skúfnavatna og ef það hefði gengið eftir síðar meir þá hefði ofurvirkjunin frá 1994 verið fullkomlega endurborin (mynd 4).
Ný sýn á náttúruna?
Baráttan snýst nefnilega um meira en bara Hvalárvirkjun, þó hún sé augljóslega næg ástæða ein og sér til að taka slaginn. Inni á Drangajökulsvíðernum þarf einnig að hrinda öðrum áformum þar sem allsherjaryfirtaka orkufyrirtækja á Ófeigsfjarðarheiði og nálægum svæðum blasir við, og svo þarf að ganga í að kveða niður allar hinar virkjanabábiljur orkufyrirtækjanna út um allt land, þar sem hamast er utan í og inni á víðernum Íslands.
Að lokum má svo spyrja sig: Höfum við líkt og kerla í sögu Halldórs Laxness öðlast nýja sýn á lífið eftir þá kórvillu sem við höfum gengið í gegnum á hálendi Vestfjarða? Það má kannski láta sig dreyma um að villa HS Orku og Vesturverks hafi þó orðið til þess að virði og gildi hinna miklu Drangajökulsvíðerna hafi loks runnið upp fyrir okkur.
Best væri ef þær aðfarir sem við höfum orðið vitni að í kringum Hvalárvirkjun myndu að lokum leiða til þess að við öðluðumst enn nýja sýn á náttúruna í kringum okkur, hina einstæðu og sérstöku íslensku náttúru sem við höfum aðeins tímabundið í vörslu okkar og þurfum að vernda og hlúa að í þágu umheimsins, komandi kynslóða og svo ekki síst fyrir náttúruna sjálfrar sín vegna. Því þótt okkur þyki ef til vill mörgum eða jafnvel flestum virkjanahugmyndir síðustu aldar vera löngu úr sér gengnar þá lifir lengi í gömlum glæðum. Þá reynslu sem safnast hefur í baráttunni fyrir víðernum og náttúru Stranda og Drangajökulsvíðerna verður að nýta áfram til að verja öll hin svæðin sem enn eru í hættu vegna úreltra áforma og fornaldarviðhorfa þeirra sem sjá náttúruna einungis í hæðarlínum, rennslismælingum og jarðhitaforða.
Þá hefði kórvillan á Vestfjörðum þó verið til einhvers.