Vindorka – Framtíðin
Grein/Linkur: Vindorka framtíðarinnar
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
April 2009
Vindorka framtíðarinnar
Áður en við skiljum við vindorkuna og víkjum að sjávarorkunni er rétt að fara nokkrum orðum um hugmyndir manna um það hvernig vindorka kann að verða nýtt í ennþá meira mæli í framtíðinni. Í þessu sambandi verður sérstaklega horft til Noregs, en þar eru nú uppi miklar áætlanir um slíka orkuframleiðslu.
Hér að framan sagði frá stærstu vindorkuverum heims sem einmitt hafa verið byggð úti í sjó, þar sem vindur er mun stöðugri og virkjanirnar skila oft meiri afköstum en á landi. Nú verður stuttlega vikið að þeim framtíðarmöguleikum sem taldir eru geta gert vindorkuver ennþá hagkvæmari og stóraukið hlutfall vindorku í rafmagnsframleiðslu.
Þau fyrirtæki sem nú eru líklega lengst komin í að þróa þessa nýju tækni eru norsku fyrirtækin Sway og orkurisinn StatoilHydro. Ástæðan fyrir því að Norðmenn eru svona áhugasamir um þessa úthafsvindrafstöðvatækni er að þarna geta þeir nýtt þekkingu sína úr olíuiðnaðinum.
Norðmenn standa framarlega í smíði á fljótandi olíuborpöllum og hyggjast nýta þá reynslu til að smíða stórar fljótandi vindrafstöðvar, sem staðsettar verða í Norðursjó djúpt út af vesturströnd Noregs. Þessum hugmyndum Norðmanna um stóraukna orkuframleiðslu og raforkuútflutning til Evrópu er stundum lýst með þeim orðum að Noregur stefni að því að verða rafhlaða Evrópu.
Til marks um þá fjármuni sem nú er varið í þróun á þessari tækni, skal þess getið að árið 2007 tryggði Sway sér hlutafé upp á 150 milljónir NKK. Hitt verkefnið, sem StatoilHydro kemur einnig að, er unnið í samstarfi við vindorkuarm þýska fyrirtækisins Siemens. Myndin hér að ofan er teikning sem sýnir hvernig svona vindrafstöð mun líta út – til að átta sig á stærðinni hefur þyrlu verið bætt inn á myndina.
Það sem hvetur Norðmenn til að leggja fjármagn í að auka framleiðslu sína á vindorku er fyrst og fremst stefna Evrópusambandsins um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun innan sambandsins. Þó svo að bæði vindorka og sólarorka vaxi hratt innan ESB, er ekki víst að sambandið nái markmiðum sínum um „hreinni“ orku og minnkun gróðurhúsalofttegunda nema með miklum innflutningi á rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Þessi kostur – að framleiða rafmagn með risastórum vindrafstöðvum og flytja til Evrópusambandsins – kæmi líklega seint til skoðunar á Íslandi. Þó er aldrei að vita nema í framtíðinni verði unnt að selja raforkuna um sæstreng. Það yrði þá væntanlega helst til Skotlands, vegna nálægðarinnar. Óvíst er hvort slíkar úthafsvindrafstöðvar við strendur Íslands gætu keppt við sambærilega raforkuframleiðslu í t.d. Norðursjó. Það er þó ekki útilokað; vegna þess hversu sterkur vindur er hér gæti hagkvæmni stórra og öflugra vindrafstöðva hugsanlega orðið mun meiri við strendur Íslands en út af Bretlandseyjum eða Noregi og verðið samkeppnishæft. Þetta eru auðvitað einungis vangaveltur sem hafa litla praktíska þýðingu í dag.
Í lok þessarar umfjöllunar um vindorku, er viðeigandi að nefna hugmyndir um miklu stærri og öflugri vindrafstöðvar en tíðkast hafa fram til þessa. Þar er um að ræða hugmyndir kanadíska fyrirtækisins Magenn Power um eins konar loftskip, sem eru útbúin með gríðarstóra spaða og er haldið föstum við jörðu með löngum köplum.
Annað fyrirtæki sem er að þróa sambærilega tækni er Kite Gen á Ítalíu. Þessi tækni er kynnt sem mun ódýrari kostur en að byggja turna, auk þess sem tiltölulega einfalt á að verða að færa stöðvarnar til.
Framtíðin ein mun leiða í ljós hvort þetta sé raunhæfur möguleiki. En hæpið er að slíkar loftskips-vindrafstöðvar verði nokkru sinni settar upp hér á Íslandi; til þess eru stórviðri of tíð. Það veðravíti sem stundum ríkir á Íslandi hlýtur sem sagt að útiloka vindorkuver af þessu tagi hér á landi – þótt þau verði hugsanlega að veruleika einhvers staðar annars staðar í heiminum.