Lífdísil framleiðsla Þorvaldseyri – Kaldpressuð repjuolíu
Grein/Linkur: Framleiða lífdísil af eigin repjuakri
Höfundur: Helgi Bjarnason, Mbl
.
.
September 2022
Framleiða lífdísil af eigin repjuakri
Framleiðsla á lífdísil er hafin hér á landi. Það eru bændurnir á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum sem keypt hafa til landsins vél til þess, þá fyrstu sem hingað kemur. Lífdísilinn framleiða þeir úr kaldpressaðri repjuolíu af eigin ökrum og nota olíuna til íblöndunar á olíu á dráttarvélar og fyrir kornþurrkara.
Með þessu framtaki minnka bændur kolefnisfótspor búrekstursins og auka sjálfbærni búsins. Þeir framleiða nú lífdísilinn úr repjuolíu frá síðasta ári en eiga von á nýrri uppskeru í lok mánaðarins.
Eins og best gerist
Kornþresking er hafin á Þorvaldseyri og bendir hún til góðrar kornuppskeru á Suðurlandi. „Uppskeran hjá okkur er eins og best gerist,“ segir Ólafur Eggertsson bóndi. Hann talar af reynslu því kornrækt hefur verið stunduð á Þorvaldseyri í áratugi, yfirleitt með góðum árangri. Ólafur leggur áherslu á að hefja uppskerustörf snemma til þess að eiga minna undir þegar haustveðrin skella á, jafnvel þótt það kosti meiri þurrkun. Bændurnir reka eigin þurrkstöð og ræðst hraðinn í uppskerustörfum af afköstum hennar.
„Kornræktin hefur gengið afskaplega vel í sumar, þrátt fyrir að rætt sé um að sumarið hafi verið kalt. Við náðum að sá snemma, síðustu vikuna í apríl. Maí var hlýr og góður og það skiptir miklu máli hvernig veðrið er í upphafi ræktunartímans. Svo hafa þessir sólríku og hlýju dagar í haust hjálpað til og kornið tekið kipp,“ segir Ólafur. Hann segir að akrarnir líti vel út og ekki sé eftir neinu að bíða með að hefja uppskerustörfin.