Hawle Austuríki – Saga framleiðandans

Grein/Linkur: Hlustað á skurðbotninn

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Nóvember 1996

Hlustað á skurðbotninn

Margir íslenzkir lagnamenn þekkja ventla, brunahana og tengi frá austurríska fyrirtækinu Hawle.

Á lagnasýningunni „Aqua-Therm“ í Vínarborg í apríl 1996 var margt að sjá. Á einum básnum sáust kunnuglegir gripir, bláir brunahanar sem sjá má í nánast hverju þéttbýli á Íslandi. Þar voru einnig stórir ventlar og tengi fyrir kaldavatnsveitur. Þvílíkur munur að eiga aðgang að öllum þessum snjöllu hlutum miðað við hið fátæklega úrval sem á boðstólum var fyrir þremur áratugum, hugsaði gamall vatnsveitukall.

Framleiðandinn var Hawle, austurrískt fyrirtæki sem flestir íslenskir lagnamenn þekkja. Það var óvænt ánægja að fá að heimsækja fyrirtækið Hawle, sem er í vesturhluta Austurríkis í bæ sem heitir Vöcklabruk, ekki fjarri fæðingarborg Mozarts, Salzburg. Þangað hefur margur landinn lagt leið sína á liðnum árum og notið einstakrar náttúrufegurðar, svo mikillar að steigurlátur Íslendingur verður að viðurkenna að þarna er eitthvað sem jafnvel kemst í samjöfnuð við heimalandið.

Sölustjóri Hawle, Peter Majovsky, ók pistlahöfundi á eigin eik frá Vínarborg, lagði verulega lykkju á leið sína þó laugardagur væri til að gestir tveir frá Íslandi mættu sjá fegurð Dónárdalsins og voldugar kirkjur og klaustur, sem hafa á einhvern undraverðan hátt verið byggð upp á efstu brúnum fjalla. Aðeins vantaði örlítinn tíma til viðbótar svo tré og blóm væru í fullum skrúða, ef liðið hefði verið á sumar hefði vínviðurinn verið skrýddur fullþroska þrúgum.

Hvað er sérstakt við Hawle?

Mörg eru fyrirtækin sem framleiða ýmiskonar iðnvarning og þau eru mörg sem framleiða lagnaefni.

Hawle hefur alfarið haslað sér völl í framleiðslu á hverskonar vörum fyrir vatnsveitur. Öll fyrirtæki setja sér markmið og fylgja efalaust ákveðnum reglum hvernig þeim markmiðum sé náð. Það voru einmitt markmiðin og leiðirnar sem vöktu óskipta athygli þegar komið var í heimsókn til Hawle og innviðir fyrirtækisisns kannaðir.

Í fyrsta lagi hefur Hawle fylgt strangri gæðastefnu allt frá stofnun 1948, lágt verð er ekki aðalkeppikeflið, gæðin sitja fyrir.

Í öðru lagi vakti óskipta athygli hve sterkt samband er á milli æðstu stjórnenda og þeirra sem vinna við vöruþróun við lagnamanninn í skurðinum, markvisst er starfandi vatnsveitumönnum víðsvegar að boðið til Hawle þar sem þeir koma óskum ínum og hugmyndum á framfæri. Afrakstur þessa samstarfs kemur fram í mörgum smáatriðum í framleiðslunni, atriðum sem þó engan veginn eru smá fyrir þann sem stendur í leðjunni við sprungið rör og vatnslaus heimili allt í kring. Ein lítil nýjung var einmitt að sjá dagsins ljós þessa daga sem dvalið var hjá Hawle, skinna sem sett er undir róna þegar flansar eru boltaðir saman. Þessi litla nýjung er að skinnan hefur þrjú eyru sem festa hana í boltagatið. Hvaða vatnsveitumaður hefur ekki misst skinnu ofan í leðjuna þegar verst stóð á? Eftir ábendingum vatnsveitumanna hefur Hwle þróað mjög fjölhæf tengi sem gott er að grípa til þegar gera þarf við gamlar vatnslagnir í jörðu úr margskonar efnum. Þá getur það skipt sköpum að hafa slík tengi við höndina, tíminn er dýrmætur þegar framleiðslustöðvun er t.d. í stórri fiskiðju vegna vatnsskorts.

Það fór ekki á milli mála að íslenskir vatnsveitumenn fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þessa apríldaga voru sjö úr þeirra hópi víðsvegar af Íslandi í heimsókn með fararstjóra frá umboðsfyrirtæki Hawle á Íslandi, Tækja-tækni hf. í Kópavogi. Þeir fengu tækifæri til að kynnast hvernig brunahanar, ventlar, tengi og aðrir nytjahlutir, sem þeir nota í daglegu amstri, urðu til.

Upphafið

Austuríski pípulagningamaðurinn Engelbert Hawle starfaði við það eftir seinni heimsstyrjöld að leggja vatns- og gaslagnir í jörðu. Ofan á efniskort eftirstríðsáranna fannst honum vanta mikið uppá að hönnun og fjölbreytni ventla og tengja væri fullnægjandi. Á þeim tíma tíðkaðist ekki að óbreyttur starfsmaður gengi inn í verksmiðju sem framleiddi slíka hluti, inn á skrifstofu forstjórans og segði honum hvernig framleiðslan ætti að vera, hvernig væri hægt að breyta henni til hins betra. Það hefði þótt saga til næsta bæjar.

Engelbert Hawle gafst samt ekki upp. Hann fór að hanna og framleiða sjálfur það sem honum fannst vanta og formlega var fyrirtækið Hawle stofnað 1948. Fyrirtækið sem í upphafi var tómstundastarf eins pípulagningamanns er nú leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í Evrópu.

Enn þann dag í dag, nær hálfri öld síðar, er flans, sem Engelbert hannaði, í fullu gildi og framleiðslu þrátt fyrir alla þróun sem orðið hefur á þessu tímabili.

Fræðst við eldstóna

Það er enginn stórborgarbragur á Vöcklabruk þar sem höfuðstöðvar Hawle eru. Vinalegur lítill bær þar sem sveitin er á næsta leiti, vötnin Attersee og Traunsee skammt undan og fögur fjallasýn, þar ber Traunstein af.

Það er harla óvenjulegt að forstjóri stórfyrirtækis eyði sunnudegi í gesti þótt komnir séu um langan veg, en Erwin Hawle, sonur stofnandans Engelbert Hawle, og kona hans Ulrike óku með tvo Íslendinga til sveitaseturs og kveiktu upp í mikilli eldstó til að fá hlýju í húsið, því sannast sagna var kalt í Austurríki þótt langt væri liðið á apríl, vorið þrjár vikur á eftir áætlun.

Á þessum eftirminnilega sunnudegi fræddu þau hjónin íslensku gestina um Hawle-fyrirtækið, sýndu glæsileg húsakynni og forna muni.

Í raun er búið að skipta fyrirtækinu í tvennt, rekstur í Þýskalandi, Ítalíu og Sviss er undir stjórn annars sonar stofnandans. Auk höfuðstöðvanna í Vöklabruk er verksmiðja í nágrannabænum Frankenmarkt, útibú eru í Ungverjalandi og Tékklandi og verið var að ýta úr vör í Póllandi. Aðspurður um hvort komið yrði á fót fyrirtæki í Rússlandi neitaði Erwin Hawle því, ástandið þar væri of ótryggt, hinsvegar er nokkur samvinna við rússnesk fyrirtæki sem framleiða tengi hönnuð af Hawle.

Það kann að hljóma einkennilega að fyrirtæki, sem framleiðir ventla, brunahana og fjölbreytt úrval tengja úr steypujárni, á enga járnsteypu. Hawle á öll mótin, sem steypt er í, en kaupir þjónustu af vel völdum járnsteypum.

Nú er ekki aðeins framleitt úr steypujárni, plastið er komið til sögunnar og ýmsir minni ventlar og tengi eru framleidd úr acetal.

Ársvelta Hawle er um 200 milljónir þýskra marka eða 9 milljarðar ísl. kr., en starfsmenn eru þó ekki nema um 700. Þá ber að taka tillit til þess sem áður var sagt að hlutir eru steyptir hjá öðrum fyrirtækjum, en fullunnir og settir saman hjá Hawle.

Fleira áhugavert: