Raforkuþörf, framleiðsla – Ísland/Noregur yfir 100%, endurnýjanleg orka
Grein/Linkur: Ísland og Noregur eru einu Evrópuríkin sem geta framleitt yfir 100% af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku
Höfundur: Hörður Kristjánsson
.
.
April 2022
Ísland og Noregur eru einu Evrópuríkin sem geta framleitt yfir 100% af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku
Hlutfall raforku í heiminum sem framleitt er með kolum hefur aldrei verið hærra en um þessar mundir. Það þýðir að þau loftslagsmarkmið sem sett hafa verið virðast eiga enn lengra í land með að nást en ætla mætti af umræðunni. Kolakynt raforkuframleiðsla stendur fyrir um 30% af losun koltvísýrings í heiminum.
Gert var ráð fyrir að raforkuframleiðsla á heimsvísu úr kolum hækkaði um 9% á árinu 2021, samkvæmt skýrslu fjölríkjastofnunarinnar Coal 2021 og staðsett er í París. Raforka er ein helsta uppspretta orku í iðnaði ríkja um allan heim fyrir utan beinnar nýtingar á kolum og olíu.
Tímaritið TIME fjallaði um málið í lok desember síðastliðinn, en þá var búist við að magn raforku sem framleitt er úr kolum næði sögulegu hámarki á síðasta ári. Eftirspurn eftir raforku var einfaldlega meiri en hægt var að sinna með öðrum hætti en að nýta kol, olíu og gas í meira mæli til raforkuframleiðslu samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Til að bæta gráu ofan á svart lokuðu Þjóðverjar þrem kjarnorkuverum í byrjun þessa árs án þess að geta uppfyllt þá raforkuframleiðslu með endurnýjanlegri orku. Það mun enn auka á þennan vanda. Þjóðverjar eru þegar komnir upp að vegg með fjölgun vindrafstöðva vegna vaxandi andstöðu við sjón- og hljóðmengun sem hlýst af risastórum vindmyllum nærri byggð.
Ísland og Noregur í algjörum sérflokki
Fróðlegt er að skoða þetta í samanburði við tölur Eurostat um framleiðslu Evrópuríkja á raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Þar kemur í ljós að Ísland og Noregur eru einu Evrópuríkin sem framleiða meira en sem nemur heildarraforkunotkun landanna af hreinni raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, eða yfir 100%. Það þýðir að kolefnislosun þessara landa vegna raforkuframleiðslu gerist ekki lægri. ESB ríkin eru með að meðaltali 37,5%. Að vísu hafa á undanförnum misserum komið í ljós hnökrar á þessari raforkuframleiðslu á Íslandi vegna andvaraleysis í áframhaldandi uppbyggingu orkuframleiðslu og dreifikerfis.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir um raforkuframleiðslu ríkja er til fólk sem fullyrðir að Íslendingar séu mestu umhverfissóðar heims í losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda. Þar hefur verið reynt að blekkja losunartölur ríkja til að þóknast umræðunni með því að beita hausatöluútreikningi. Eins er iðulega talað um losun frá landnotkun, sem er utan sviga í loftslagsmarkmiðum, rétt eins og orku- og iðnaðarmengunin í Evrópu ásamt flugrekstri og fleiru sem keyrt er áfram á kolum, olíu og gasi. Skekkjan í þessari umræðu eins og hún hefur oft verið matreidd hér á landi er því í hrópandi ósamræmi við veruleikann sem birtist í tölum Eurostat og WindEurope.
ESB-ríkin eru langt frá því að ná sínum markmiðum
Heildar uppsett afl í vindorku í Evrópu er nú 236 GW samkvæmt tölum WindEurope í Brussel. Uppsett afl vindrafstöðva í Evrópu jókst um 17,4 gígawött á árinu 2021, þar af 3,4 GW í sjó. Það er um 18% aukning á milli ára. Af þessu uppsetta afli vindorkuvera voru 11 GW innan landa Evrópusambandsins (ESB-27). Þetta var samt ekki talið nóg aukning til að geta mætt loftslagsmarkmiðum. Reyndar segir á heimasíðu WindEurope að uppsett afl í vindorku sé ekki einu sinni helmingurinn af því sem til þurfi að uppfylla loftslagsmarkmið fyrir 2030 um að komast með endurnýjanlega raforku upp í 40% af heildarraforkuþörfinni. Þar eru Noregur og Ísland þegar með yfir 100%.
Um 81% af nýjum vindorkuvirkjunum sem reistar voru í Evrópu á síðasta ári voru á landi. Svíþjóð, Þýskaland og Tyrkland byggðu flestar slíkar vindmyllur. Bretland var hins vegar með mesta heildarfjölda nýrra vindorkuvirkjana, en flestar þeirra nýju vindorkuvera eru á hafi úti.
Vindurinn óstöðug orkulind
Gallinn við þessa uppbyggingu vindorkuvera í Evrópu er hversu ótrygg orkan er. Þetta kom berlega í ljós í fyrrasumar þegar ríkjandi var mjög lítill vindur í Evrópu þannig að raforkuframleiðsla vindorkuveranna hrundi. Það ásamt ónógu innflæði af gasi til raforkuframleiðslu í Evrópu leiddi til orkuskorts og ört hækkandi orkuverðs.
Vantar mikið á að nóg sé gert í uppsetningu vindorkuvera í Evrópu
WindEurope gerir ráð fyrir að Evrópuríkin í heild muni setja upp 116 GW af nýjum vindorkuverum á tímabilinu 2022-2026, eða um 23 GW á ári. Þrír fjórðu þessara auknu raforku munu koma frá vindmyllum á landi. Gert er ráð fyrir að ESB-27 muni byggja að meðaltali 18 GW af nýjum vindorkuverum á árunum 2022-26. Þessi ríki þurfa hins vegar að setja upp 32 GW í vindorku á ári til að ná nýju markmiði ESB um 40% endurnýjanlega orku.
Þýskaland getur í dag framleitt allt að 45,3% af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku, þ.e. ef veður eru hagstæð. Önnur raforka í landinu er að mestu framleidd með kolum, olíu og gasi. Þýskaland verður öflugasta vindorkuríki Evrópu ef áætlanir ganga eftir næstu fimm árin, um að auka uppsett afl þar í vindorkuverum á landi um 19,7 GW og í hafinu um 5,4 GW. Önnur öflug ríki með uppsetningu á nýjum vindorkuverum á árunum 2022-2026 eru Bretland með 15 GW samtals, Frakkland með 12 GW, Spánn með 10 GW og Svíþjóð með 7 GW.
Evrópa er ekki nálægt því að ná sínum markmiðum
Þrátt fyrir árlega fjölgun í uppsetningu á vindmyllum mun Evrópu ekki takast að setja upp nærri eins margar vindmyllur á landi og álfan þarf til að ná orku- og loftslagsmarkmiðum sínum. Evrópa þyrfti að setja upp 25 GW af nýjum vindorkuverum á landi að meðaltali á ári á tímabilinu 2022-2026 að mati WindEurope. Svipuð mynd er fyrir vindorku á sjó. Þrátt fyrir vaxandi árlega uppsetningu mun Evrópa ekki komast neitt nærri því að koma upp eins miklu uppsettu afli í vindorku á sjó og hún þarf til að ná orku- og loftslagsmarkmiðum sínum. Til þess þyrfti Evrópa að setja meira en 8 GW í uppsettu afli í vindmyllum úti í sjó að meðaltali á ári á tímabilinu 2022-2026, segir á heimasíðu WindEurope.
Um 80% af orkuþörf heimila í ESB er ekki endurnýjanleg
Þegar rætt er um kolefnislosun er líka vert að hafa í huga hitunar- og kælikostnað heimila. Heildarorka til heimila í Evrópusambandinu nemur um 26,3% af heildarorkunotkun. Inni í því er húshitun og kæling, ásamt orku til eldunar, lýsingar og annarrar tækjanotkunar Þar af stendur endurnýjanleg orka og orka frá sorporkustöðvum fyrir 20,1% af orkuþörf heimila. Kol og timbur standa fyrir 2,8% af orkuþörf heimila, olía fyrir 11,8%, gas fyrir 32,1%, fjarvarmi fyrir 8,5% og raforka fyrir 24,7%. Ef horft er til raforkunnar einnar og sér er um 70% af henni framleidd með jarðefnaeldsneyti.
Ísland sker sig líka úr varðandi hitun húsnæðis
Þegar þessar tölur frá Evrópu eru bornar saman við tölur Orkustofnunar um íslenskan veruleika þá sést að 89,6% íbúðarhúsnæðis á Íslandi var hitað með jarðvarmaorku. Þá var 6,8% húsnæðis hitað með rafmagni og 3,4% með vatnshitara sem ýmist var kyntur með raforku eða olíu. Einungis 0,1% húsnæðis var kynnt á annan hátt. Þetta er þveröfugt við það sem þekkist í löndum ESB þar sem um 80% húshitunar er fengin með jarðefnaeldsneyti eða öðrum óendurnýjanlegum orkugjöfum.
Nærri milljarður tonna CO2 ígilda puðrast út í loftið vegna orkunotkunar í húsum í ESB
Á árinu 2019 nam losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkunotkunar í húsnæði í ESB ríkjum samtals 533 milljón tonna CO2 ígildum. Þá nam losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis í húsum í ESB ríkjum 446,7 milljón tonna CO2 ígildum 2019. Þá á eftir að ræða losun vegna húsbygginganna sjálfra.
Þótt Norðmenn hafi sett fram áform árið 2020 um að banna olíu til húshitunar, þá hafa olía og timbur verið ríkjandi orkumiðlar þar í landi til húshitunar. Norðmenn búa ekki við jarðhita eins og Íslendingar.
Þrátt fyrir þessi tölfræðigögn frá evrópskum stofnunum er því enn haldið fram hér á landi að Íslendingar losi mest allra þjóða af CO2 ígildum út í andrúmsloftið.
Stríð hefur neikvæð áhrif
Ljóst er að stríð í Úkraínu er þegar farið að hafa veruleg neikvæð áhrif varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Sprengjur og brennandi hús skapa mikla mengun og viðskiptahöft koma til með að hafa mikil áhrif á orkunotkun í Evrópu. Forsætisráðherra Bretlands viðraði þær skoðanir þriðjudaginn 16. mars sl. að Bretland yrði að gera allt til að losna við að kaupa orku af Rússum. Var hann þá á leið til Sádi-Arabíu til viðræðna um olíu og gaskaup. Kynnti hann jafnframt vangaveltur um að setja á ný kraft í olíuleit við strendur Bretlands.