Vestfirðir 1996, sagan – Pex í fjarvarmaveitu

Grein/Linkur: Vestfirsk sjónarmið

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Október 1996

Vestfirsk sjónarmið

Í Tungudal á Ísafirði gaf að líta fjarvarmalögn úr pexplaströrum. Þetta vakti athygli sunnanmanna og ekki síður tæknin, sem notuð var, segir hér frá fundi Lagnafélagsins á Ísafirði.

Þegar haldnir eru fræðslufundir úti á landi eru þeir oftar en ekki með þeim formerkjum að hópur sérfræðinga, misjafnlega stór, heldur af stað út á land, messar yfir heimamönnum og heldur síðan heim á leið, hver og einn berjandi sér á brjóst tautandi; asskoti var þetta gott hjá mér.

En við nánari athugun kemur mjög líklega í ljós að þekkingin á ekki lögheimili í Reykjavík, þekkingin er ekki öll fengin úr bókum eða skólum, þekkingin er líka uppsprottin í reynslu einstaklinganna hvar sem er á landinu.

Á fræðslufundi Lagnafélags Íslands, sem haldinn var fyrir stuttu í Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði voru flestir frummælendur „sunnanmenn“ sem reifuðu mál sem hvílt hafa þungt á lagnamönnum og viðskiptamönnum þeirra á undanförnum árum. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að ræða um tjón sem afleiðingu af skemmdum rörum en slíkur er fórnarkostnaðurinn að það verður að hamra á þessu til að fá alla sem geta haft áhrif á lagnaferilinn frá hönnun til notkunar til að hugleiða hvað betur má fara.

Loftræstikerfin hérlendis eru, eins og víðast hvar í iðnþróuðum löndum (annars staðar eru þau varla til) vandræðabörn í heimi lagnanna. Hvers vegna?

Vissulega eru þau stundum rangt hönnuð og vissulega eru þau stundum ranglega sett upp; hrikaleg dæmi um það voru rakin á Ísafirði. Það sem hins vegar bregst oftast og líklega í meirihluta uppsettra kerfa er að þau eru ekki stillt og þeim sem eiga að sjá um rekstur þeirra ekki fengnar neinar upplýsingar um hvernig á að beita þeim. Þetta hefur ekki aðeins bakað notendum og eigendum fasteigna mikil óþægindi, heldur einnig mikil fjárútlát.

Ofnakerfin sæta oft hraksmánarlegri meðferð fagmanna og eigenda, engin stilling, aðeins sett í gang, nákvæm rennslisstilling er höfuðnauðsyn. Hreinsun ofnakerfa og annarra lagnakerfa er ekki orðin sjálfsögð, en þess verður ekki langt að bíða að svo verði.

Rör-í-rör kerfið hefur mikið verið rætt og námskeið um þetta lagnaform eru byrjuð hjá Fræðslumiðstöð byggingariðnaðarins og er áhugi lagnamanna mikill. Nýlunda er að á þessi námskeið koma allir lagnamenn, bæði pípulagningamenn og hönnuðir. Byggingafulltrúar og eftirlitsmenn með byggingaframkvæmdum eiga þangað erindi og ekki síður arkitektar, þeir verða að ná betra sambandi við lagnamenn og lagnamenn við þá.

Gólfhitinn er að vinna á, enginn vafi, annaðhvort sem gólfhiti eingöngu eða sem hluti af hitakerfi, vatnið fer fyrst í ofna og frá þeim um plaströr í gólfi.

Annað umhverfi

Það er hverjum manni hollt að koma í annað umhverfi, hitta aðra lagnamenn og kynnast því við hvaða vandamál þeir eiga að stríða og það reifaði heimamaðurinn Árni Friðbjarnarson pípulagningameistari í sinni framsöguræðu.

Á Vestfjörðum er lítið um nýbyggingar að Súðavík undanskilinni, hinsvegar hefur verið mikil uppbygging á sumum svæðum hjá fiskvinnslunni og má þar nefna Bolungarvík. Stærsta „lögnin“ er þó nýju göngin undir Breiðadals- og Botnheiðar, glæsilegt mannvirki, já reyndar fallegt mannvirki sem gaf Ísfirðingum vatnsæðina sem veitti þeim hreint og ómengað vatn, nokkuð sem alltaf hafði vantað á þeim bæ.

Orkubú Vestfjarða sér íbúum fjórðungsins ekki aðeins fyrir rafmagni, á helstu þéttbýlisstöðunum eru reknar fjarvarmaveitur sem nota rafmagn sem orkugjafa. Gjaldtaka er önnur en á höfuðborgarsvæðinu, ákveðið gjald á rúmmetra vatns en orkueyðslan er einnig mæld og gjaldtekin. Þrátt fyrir það var því haldið fram af frummælanda að það væri hagur neytandans að stilla ofnhitakerfin sem nákvæmast og halda vatnskaupum í lágmarki en reyna að ná sem mestri orku úr hverjum rúmmetra. Þessu var mótmælt af heimamanni og fékkst því miður engin niðurstaða í þeirri umræðu.

Sömu vandamál skjóta hvarvetna á landinu upp kollinum, eitt af þeim er að ekki er gengið nógu fast eftir að meistarar standi fyrir verkum og þetta láta þeir í mörgum tilfellum óátalið, jafnvel skrifa sig sem meistara ábyrga fyrir verki en sinna því svo ekki sem skyldi eða alls ekki. Þetta er vandamál um land allt og sýnir að margir meistarar í löggiltum iðngreinum gera sér engan veginn grein fyrir hve ábyrgð þeirra er mikil, svo mikil að hún endist ævilangt, jafnvel út fyrir gröf og dauða. Einn fundarmanna benti á að hvergi væri ástandið jafn slæmt og á Vestfjörðum og í Súðavík, þar gerði hver húsbyggjandi það sem honum sýndist í lagnamálum og er þar þó starfandi bæði pípulagningameistari og byggingafulltrúi.

Í Tungudal á Ísafirði gaf að líta fjarvarmalögn úr pexplaströrum sem verið var að leggja í einbýlishúsahverfi. Þetta vakti athygli sunnanmanna og ekki síður tæknin sem notuð var við verkið, bor sem boraði lárétt fyrir rörinu sem síðan var dregið inn, engin missmíði á yfirborði.

Óneitanlega hvarflaði hugurinn til steinrunninna sjónarmiða til plaströra sem því miður eru áberandi í höfuðborginni.

Þrír af frummælendum á umræðufundinum um lagnamál á Ísafirði: Kristján Ottósson framkvæmdastjóri LAFÍ, Grétar Leifsson verkfræðingur hjá Ísleifi Jónssyni hf. og Einar Þorsteinsson deildarstjóri lagnadeildar RB.

Fleira áhugavert: