Vestmannaeyjar – Lagnamál

Grein/Linkur: Heimsókn til Vestmannaeyja

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Janúar 1997

Heimsókn til Vestmannaeyja

Það er víst sama, hvar borað er í Eyjum, alls staðar er sjór undir. Spurningin um varmadælu hlýtur því að vakna.

Það er alltaf jafn tilkomumikið að renna með Herjólfi inn með Ystakletti, í þetta sinn á myrku vetrarkvöldi nánast í upphafi jólamánaðar og upplýstur bærinn fyrir stafni. Farkosturinn ekki af verri endanum og óneitanlega hvarflaði hugurinn til fyrri sjóferða milli lands og Eyja fyrir nokkrum áratugum. Annars vegar frá Þorlákshöfn í blíðviðri sumars á litlum mótorbáti og hins vegar frá Eyjum fyrir Reykjanes til höfuðborgarinnar í vitlausu vetrarveðri og álíka farkosti; þá fór um suma.

Já, það væsir ekki um menn um borð í Herjólfi og veður hið besta á þessu vetrarkvöldi.

Nokkrir lagnamenn frá höfuðborgarsvæðinu heimsóttu Vestmannaeyinga og héldu með þeim fræðslufund laugardaginn 30. nóv. sl. Raunar bað einn Vestmanneyingur, galdramaður meira að segja, gestina að láta verða bið á næstu heimsókn, nóg væri að fá slíkt veður og var þennan dag á fimm ára fresti. Er þá mikið sagt þegar Vestmanneyingum finnst nóg um rok og rigningu.

Það virðist flest standa í blóma í Vestmannaeyjum, lagnamál sem annað. Að vísu höfðu birst í dagblöðum skömmu fyrir fundinn viðtöl við frammámenn, þar á meðal bæjarsjórann, að nokkur fólksfækkun væri í byggðinni og kenndu menn einkum um háum hitunarkostnaði. Bar þetta nokkuð á góma á fundinum en meðal efnis, sem á fundinum var rætt, var nýja rör-í-rör kerfið, hreinsun lagnakerfa, hið sígilda þrasefni um retúrloka eða túrloka, rafeindastýritæki fyrir hita- og loftræstikerfi, vatnstjón af völdum lagna, gólfhiti, stilling ofna- og loftræstikerfa og fleira athyglisvert.

Sérstaða lagnamanna í Eyjum liggur að nokkru í því hve fiskveiði og fiskiðnaður er stór þáttur í atvinnulífinu og stórátak hefur verið gert undanfarið til að endurnýja lagnir og búnað í helstu vinnslustöðvunum.

Að öðru leyti töldu menn sér fátt að vanbúnaði að takast á við þau verkefni sem bjóðast í lagnamálum hvort sem er í hönnun eða framkvæmd. Nefnd voru dæmi um mjög góðan árangur í endurbótum og stillingum hitakerfa og er það ekki lítils virði þar sem hitunarkosnaður er hár.

Því miður var ekki nægur tími til að fá að heyra mikið frá heimamönnum en á slíkum fræðslufundum, þar sem samankomnir eru gestir og heimamenn, geta allir haft nokkru að miðla.

Það kom fram að kunnátta lagnamanna í Vestmannaeyjum væri með ágætum og einn gestanna taldi í lok fundarins að hún væri langt yfir landsmeðaltali en þurfti þó að láta þá athugasemd fylgja að líklega væri sjálfsálit Eyjamann það einnig!

Marinó Sigursteinsson pípulagningameistari, sem var einn af frummælendum, rakti á skýran hátt aðstöðu og sérstöðu lagnamanna í Eyjum. Hann sýndi gestum frá meginlandinu tengigrind fyrir fjarvarmaveitur sem hann hefur hannað og framleiðir fyrir veituna á staðnum, hinn ágætasta grip sem jafnvel vakti öfund gesta. Marinó gerði það ekki endasleppt, bauð fundarmönnum í verslun sína, Miðstöðina hf., til höfðinglegrar móttöku og þar mætti fyrrnefndur galdramaður á staðinn og tryllti gesti með brögðum sínum.

Hvað um varmadælu?

Eins og fram hefur komið er hitunarkostnaður þyngri baggi víða á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eða á svæðum þar sem starfandi eru elstu og rótgrónustu hitaveitur landsins, s.s. á Sauðárkróki.

Sérstaða Vestamannaeyja er þó mikil og vart er hægt að gera sér í hugarlund hvernig hægt var að reka þar helstu fiskvinnslustöðvar landins áður en kaldavatnsleiðslan frá Landeyjum var lögð. Það hlýtur að hafa verið stór dagur þegar vatn fór að renna eftir þeirri leiðslu og efalaust ekki minni gleði í byggðarlaginu yfir kalda vatninu en nú er í Stykkishólmi yfir því heita.

Í Vestmannaeyjum er fjarhitunarstöð sem notar raforku þó möguleiki sé til að kynda með olíu; það er forsenda þess að fá raforkuna á svo lágu verði að rekstur fjarvarmaveitunnar sé mögulegur. Hár hitunarkostnaður byggist fyrst og fremst á því að verið er að greiða niður stofnkostnað kyndistöðvar og dreifikerfis og líklega mætti lækka þann kostnað nokkuð með því að lengja þann tíma sem stofnkostnaður er greiddur niður.

Það er víst sama hvar borað er niður í Eyjum, þar er alls staðar sjór undir en í honum eru falin mikil verðmæti. Þessvegna hlaut sú spurning að koma frá einum gestanna hvort ekki hefði verið kannað hagkvæmni varmadælu sem er merkilegt tæki, vinnur nánast sem öfugur kæliskápur; í stað þes að vinna varmann úr því sem í skápnum er og flytja hann út fyrir skápnn vinnur varmadælan varma úr t.d. sjó og færir hann inn í fjarvarmaveitu. Kosturinn við varmadæluna er sá að í stað hvers kílówatts sem hún notar skilar hún þremur í staðinn. Þannig mundi raforkukostnaður í kyndistöð lækka um ef þar væri varmadæla í stað núverandi ketils, svo ágætur sem hann er. Á móti kemur að sjálfsögðu stofnkostnaður við varmadælu og virkjun varmagjafans, hvort sem það er sjór úr borholum eða eitthvað annað.

En það upplýstist að málið er ekki svona einfalt; við þá breytingu að setja upp varmadælu í stað ketils gjörbreytist orkuverðið, þá er það ekki lengur á þeim lága taxta sem það er í dag, heldur fyrir það tekið fullt gjald eins og verið sé að spæla egg á pönnu.

Stundum spæla landfeður sjálfa sig og auðvitað er það ekkert annað en pólitísk ákvörðun að í þessu máli sé skynsemin látin ráða; er til of mikils ætlast að hún sé valin öðru hvoru?

Einhvers staðar hefur því verið fleygt að Vestmanneyingar eigi sína eigin þingmenn, hvernig væri að einhver þeirra strjúki fingrum um þetta mál; verðlagningu raforku fyrir varmadælur.

Það er tæpast minna mál en strjúka gómum eftir gítarstrengjum eða þenja takmörkuð raddbönd.

Fleira áhugavert: