Vatnsfjarðarvirkun – 20/30 MW virkjun
Grein/Linkur: VATNSFJARÐARVIRKJUN: BESTA LAUSNIN FYRIR VESTFIRÐINGA
Höfundur:BB, bæjarins besta
.
.
September 2021
VATNSFJARÐARVIRKJUN: BESTA LAUSNIN FYRIR VESTFIRÐINGA
Fram kemur í kynningarefni frá Orkubúi Vestfjarða að Vatnsfjarðarvirkjun í Vatnsfirði í Barðastrandarsýslu sé besti kosturinn fyrir Vestfirðinga til úrbóta á bágri stöðu raforkuöryggis í fjórðungnum. Virkjunin myndi framleiða um 30 MW afl og tryggja afhendingaröryggi flestra notenda á Vestfjörðum með minnstum tilkostnaði, auk þess að hafa minnst umhverfisáhrif í för með sér af þeim kostum á Vestfjörðum sem eru yfir 10 MW. Virkjunin yrði innan friðlandsins í Vatnsfirði og þar með innan væntanlegs þjóðgarðs á Vestfjörðum.
Orkubúið hefur bent á að það yrði að vera tilgreint í friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarðinn að heimilt væri að rannsaka þennan virkjunarkost og eftir atvikum ráðast í hann að undangengnum almennum reglum um umhverfismat. Væri stofnaður þjóðgarður án þessara ákvæða væru samkvæmt lögum óheimilt að skoða þennan virkjunarkost.
VANTAR RAFMAGN Á VESTFJÖRÐUM
Aflþörf á Vestfjörðum er samkvæmt gögnum Orkubúsins um 40 – 50 MW. Framleitt í fjórðungnum er ekki nema um 22 MW.
Orkuþörfin er um 276 GWst á ári og framleiðslan í fjórðungnum er um helmingur þess eða 136 GWst á ári. Þetta þýðir að 50% af orkuþörfinni verður að flytja inn á Vestfirði eftir 160 km langri byggðalínu, Vesturlínu, sem liggur frá Hrútatungu að Mjólká. Lína er að verða hálfrar aldar gömul og veður erfið á þessu svæði. Afhendingaröryggið er því með versta móti miðað við aðra landshluta. Til þess að bregðast við útslætti og rafmagnsleysi eru notaðar dísilvélar sem brenna olíu og geta framleitt allt að 30 MW. En nú er ekki lengur horft á það sem lausn.
TVEIR KOSTIR: 15 MILLJARÐA KRÓNA EÐA 0
Að mati Orkubús Vestfjarða eru því aðeins tveir kostir til úrbóta. Annar er að leggja nýja Vesturlínu og hinn kosturinn er að virkja á Vestfjörðum og framleiða rafmagnið á svæðinu. Fyrri kosturinn kostar um 15 milljarða króna og fellur á ríkissjóð að greiða. Þessari leið fylgja engar nýjar tekjur sem gætu greitt stofnkostnaðinn a.m.k. að einhverju leyti. Virkjunarkosturinn kostar ríkissjóð ekkert. Rafmagnið sem yrði framleitt verður selt og tekjurnar greiða virkjunina og nauðsynlegar tengingar.
Virkjun fylgir auk þess sá kostur að rafmagn yrði til staðar og unnt yrði að þróa nýja framleiðslumöguleika. Sem dæmi um þetta er að ný Kalkþörungaverksmiðja í Súðavík fengi rafmagn sem ekki er í hendi nú. Á þennan þátt hefur verið bent í skýrslu sem gerð var fyrir Landsnet, en fyrirtækið hefur unnið að tengingum væntanlegrar Hvalárvirkjunar með nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi.
.
.
VATNSFJARÐARVIRKJUN VÆNLEGUST
Í kynningarefni Orkubús Vestfjarða eru dregnir upp sex helstu virkjunarvalkostir á Vestfjörðum. Þrír þeirra tengjast væntanlegum tengipunkt Landsnets í Ísafjarðadjúpi. Orkubúið er ekki aðili að þessum virkjunum.
Það eru Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Skúfnavatnavirkjun á hálendinu upp af Hvannadal og Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal.
Fjórði kosturinn er Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði. Loks tvær vestan megin hálendisins, annars vegar Tröllárvirjun í Vattarfirði og svo Vatnsfjarðarvirkjun.
Tröllárvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun nýta að hluta til sama vatnasviðið og því útilokar önnur virkjunin hina. Þær virkjanir myndu skerða víðerni á Glámuhálendinu. Tröllárvirkjun myndi ekki auka afhendingaröryggið sem skyldi því samt yrðu eftir 30 km frá henni að Mjólká sem þyrfti að tvöfalda.
LÍTIL UMHVERFISÁHRIF
Það er kostur við Vatnsfjarðarvirkjun að hún skerðir engin víðerni. Þá væri hægt að tengjast
Tálknafjarðarlínu og þar með beint inná hringtengda Mjólkárveitu. 20 – 30 MW virkjun væri því ígildi N 1 tengingar í Mjólká.
Umhverfisáhrifin af Vatnsfjarðarvirkjun eru neðan 250 metra hæðar bundin við stöðvarhúsið. Áhrifin eru að lang mestu leyti afturkræf við lok framkvæmda með vönduðum og góðum frágangi. Engin áhrif eru á birkiskóg.
Ofan 250 metra hæðar eru umhverfisáhrifin lítil. Vatnsforðinn er að mestu leyti í náttúrulegum vötnum. Byggja þarf stíflur til hækkunar á vatnsborði , en landslagið er bratt sem þýðir að lítið hlutfall þess fer undir vatn eða 1,5 ferkm. Þar er um að ræða ógróið land uppi á hásléttunni. Þá skiptir máli að Mjólkárlína núverandi liggur um virkjunarsvæðið þannig að verið er að virkja svæði sem þegar er raskað.