Lagnakerfamiðstöð – Lykillinn í lagnamenntun 1997

Grein/Linkur: Lagnakerfamiðstöð lykill að góðri menntun lagnamanna

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

September 1997

Lagnakerfamiðstöð lykill að góðri menntun lagnamanna

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Náðst hefur breið samstaða um Lagnakerfamiðstöð, segir Sigurður Grétar Guðmundsson . Hún ætti að koma öllum almenningi til góða með enn betri og færari lagnamönnum, sem veitt geta betri þjónustu.

FYRIR hvern þann, sem þarf á þjónustu pípulagningamanna, blikksmiða eða hönnuða lagnakerfa að halda, er mikilvægt að sá sem kemur til verksins, hvort sem það er stórt eða smátt, hafi yfir mikilli þekkingu að ráða. Það getur skipt sköpum hvort ráð finnst við vandanum og hvort það ráð er það sem bestan árangur gefur. Eftir slíkan inngang er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort það sé ekki hægt að treysta þekkingu fyrrnefndra stétta? Þetta mál er margslungið og á við allar stéttir því að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir voru fyrir segjum hálfri öld. Hvert fag er orðið yfirgripsmeira og hver fagmaður á fullt í fangi með að fylgjast með þróuninni. En það eru einnig tveir aðilar í þjóðfélaginu sem hafa mikil áhrif á menntun og þekkingu iðnaðarmanna, það eru skólarnir og byggingayfirvöld. Vandamál pípulagningamanna og blikksmiða er ekki minnst það hve fámennar þessar stéttir eru, það er ekki fjölmennur hópur sem er í námi hverju sinni, raunar hættulega fámennur hópur um þessar mundir. Nemar í þessum iðngreinum eru víðs vegar á landinu, þess vegna kann það að vera aðeins einn nemandi úr greinunum sem óskar eftir skólavist í verkmenntaskóla eða iðnskóla úti á landi. Þá vandast málið, hvernig á skólinn að geta veitt einum nemanda kennslu í hans sérgrein og eru kennarar tiltækir á staðnum.

Grunnmenntun iðnnema er í flestum tilfellum sú sama, hvaða iðn sem þeir eru að læra, en vandinn byrjar á lokastigum námsins þegar sérþarfir hverrar iðnar banka uppá.

Eitt það mikilvægasta 

Það er borin von að hver iðn- eða verkmenntaskóli geti aflað sér þeirra tækja og véla sem nauðsynleg eru til að kenna nemum svo sem í pípulögnum og blikksmíði á lokaönn. Hvað er þá til ráða? Ísland er nokkuð stórt að flatarmáli en höfðatalan ekki há. Það er því einsýnt að það verður ekki komið upp öllum þeim búnaði sem þarf til að útskrifa nema í þessum fögum hvar sem er á landinu, það verður ekki gert nema á einum stað og öll skynsemi mælir með því að það verði á höfuðborgarsvæðinu.

Í þeim löndum, sem komin eru lengra en við í uppbyggingu skóla og annarar aðstöðu fyrir nema í pípulögnum og blikksmíði, er lagnakerfamiðstöð eitt af því mikilvægasta, engin slík miðstöð er til hérlendis. En hvað er lagnakerfamiðstöð?

Nafnið er nokkuð gagnsætt og segir talsvert, þar er á einum stað sett upp öll helstu kerfi í pípulögnum og blikksmíði, svo sem ofnhitakerfi, loftræstikerfi, neysluvatnskerfi, vatnsúðakerfi, snjóbræðslukerfi, frárennsliskerfi og fleira mætti nefna. Öll eru kerfin dvergvaxin miðað við flest kerfi í raunveruleikanum, en nægjanlega stór til að hægt sé að stilla þau, prófa virkni þeirra og sjá hvaða áhrif hver breyting hefur á afköst. Þarna læra menn að nota mismunandi stillitæki, nota mismunandi efni, vinna með mismunandi þrýsting, mismunandi varma og mismunandi fallhæð. Það hefur verið unnið ötullega að því að undirbúa byggingu og uppsetningu slíkrar lagnakerfamiðstöðvar og svo vel hefur til tekist að náðst hefur breið samstaða allra þeirra sem hagsmuni hafa af slíkri stofnun, má þar nefna verkmennta- og iðnskóla, tækniskóla, háskóla, samtök atvinnurekenda og launþega, Húsnæðismálastofnun, veitustofnanir Reykjavíkurborgar, Rannsóknarráð ríkisins, Samtök íslenskara sveitarfélaga, Lagnafélags Íslands og er þetta þó engan veginn tæmandi upptalning.

Lagnakerfamiðstöð mun rísa innan skamms, tæplega verður séð að nokkuð hindri það eða að samstaða bresti um þetta mikla hagsmunamál lagnamanna. Hér er um að ræða kennslutæki, sem ekki aðeins kemur iðnaðarmönnum til góða, heldur öllum þeim sem eru að mennta sig á einhverju lagnasviði allt upp í háskóla.

Ekki síst ætti þetta að koma öllum almenningi til góða með betri og færari lagnamönnum sem geta veitt betri þjónustu í framtíðinni.

Í DAG fá iðnaðarmenn mikilvæga starfsþjálfun á vinnustöðum en það er of seint að sjá í fyrsta sinn flókin kerfi og stýritæki þegar námi er lokið.

Fleira áhugavert: