Lífdísel, etanól – Metanól, vetni

Grein/Linkur: Hagkvæmnin skiptir öllu

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Júlí 2009

Hagkvæmnin skiptir öllu

Sérstakur orkukálfur fylgdi Morgunblaðinu. Þar voru kynntir ýmsir kostir sem íslensk fyrirtæki eru að skoða. Svo sem framleiðsla og/eða nýting á metani, metanóli, vetni, etanóli og lífdísil. Sumt af þessu eru eflaust áhugaverðir möguleikar fyrir Ísland. En óneitanlega er áberandi stefnuleysið sem hér virðist ríkja.

Kannski telja stjórnvöld best að markaðurinn leysi þetta sjálfur; hann muni finna bestu lausnirnar. En jafnvel öflugustu stjórnvöld heims – ljúflingarnir vestur í Washington DC – hafa áttað sig á því að það verður að forgangsraða og hafa skýra stefnu í orkumálum. Svo sameina megi krafta hins opinbera og fjárfesta í því að finna hagkvæmustu kostina. Það er forsenda raunverulegs árangurs.

Biomass_field

Smella á myndir til að stækka

Þegar menn leita nýrra orkugjafa fyrir bílaflotann (samgöngugeirann) er í raun einungis þrennt sem skiptir máli. Eða fernt: 1) Að velja þann orkugjafa sem gefur mestu og bestu orkuna m.v. rúmmál (orkuþéttleiki), 2) að unnt sé að framleiða orkugjafann í miklu magni og 3) að orkugjafinn sé tiltölulega ódýr í framleiðslu.

Lykilorðið er sem sagt hagkvæmni. Fjórða atriðið eru svo umhverfismálin. Afstaðan þar getur t.d. haft mikil áhrif á skattkerfið, til hagsbóta fyrir nýjan orkuiðnað. Þar leika stjórnvöld sitt mikilvæga hlutverk +i því að koma hlutunum á hreyfingu.

energy_density_diagramStöldrum aðeins við áðurnefnd þrjú atriði. Ef við lítum fyrst á orkuþéttleikann þá myndi vetnið væntanlega vera þar mjög ofarlega á blaði ef litið er til hlutfallsins milli orku og massa. En hér skiptir aftur á móti rúmmálið öllu og þar er fátt sem stenst olíunni snúning. Gríðarleg orka fæst úr olíunni m.v. rúmmál og þess vegna henta bensín og díselolía frábærlega vel til að knýja samgöngutæki.

Lífdísill og etanól  er það sem kemst hvað bæst díselolíu og bensíni að orkuþéttleika. Orkuþéttleiki lífdísils er þó minni en díselolíu og orkuþéttleiki etanóls er líklega allt að þriðjungi minni en gildir um bensín. Þessir valkostir eru sem sagt heldur síðri en díselolía eða bensín.

En lífdísill og etanól er engu að síður besta nálgunin. Metanólið stendur t.d. talsvert að að baki bæði etanóli og lífdísil m.t.t. orkuþéttleika. Af þeim lausnum sem eru tæknilega mögulegar og tiltölulegar einfaldar, eru það sem sagt jurtaolían (lífdísill) og etanól sem nú kemst hvað næst bensíni og díselolíu að orkuinnihaldi.

RapeseedReyndar er varasamt að vera með alhæfingar í þessu sambandi. T.d. er jurtaolía og jurtaolía ekki eitt og hið sama! Orkuþéttleikinn er mismunandi eftir því úr hverju sú olía er unnin. En nefna má að repjuolía hefur komið vel út í slíkum samanburði. Og fleira er vert að hafa í huga; t.d. er sagt að efnarafalar sem breyta vetni í raforku, séu að ná miklu betri orkunýtingu úr eldsneytinu heldur en bensín- og díselvélarnar gera. Orkuþéttleiki er sem sagt ekki allt! T.d. gæti vetnisvæðing verið áhugaverð fyrir Íslendinga. En á móti kemur að vetnisvæðing myndi kalla á miklar kerfisbreytingar og líklega óraunhæft að það verði hagkvæmur kostur fyrr en eftir einhverja áratugi. Þess vegna er orkuþéttleikinn ennþá algert lykilatriði.

Annað hagkvæmnisatriðið sem nefnt var hér að ofan, er að unnt sé að framleiða eldsneytið í miklu magni. Hér á Íslandi má hugsa sér umtalsverða framleiðslu á lífefnaeldsneyti úr t.d. grastegundum eða lúpínu (etanólframleiðsla). Og kannski er repjan áhugaverð til að framleiða lífdísil. Ýmsar fleiri tegundir myndu koma til skoðunar, bæði í tengslum við framleiðslu á lífdísil og etanóli. Íslendingar standa a.m.k. hvorki frammi fyrir landskorti né ótryggu fæðuframboði og ættu að geta sett verulega mikið land undir framleiðslu á lífefnaeldsneyti.

LupineEn kannski er hæpið að framleiðslan hérlendis geti orðið svo mikil að nægjanleg hagkvæmni náist. Þarna gilda m.ö.o. lögmál fjöldaframleiðslunnar. Reyndar kann Suðurlandsundirlendið að bjóða upp á mikil tækifæri til stórfelldrar lífmassaframleiðslu. Landeyjarnar, Rangárvellirnir, Skógasandur. Við gætum þarna verið að tala um orkuforðabúr Íslands; stórfellda lífefnaeldsneytisframleiðslu fyrir íslenska bíla- og skipaflotann.

Þriðja atriði er kostnaðurinn. Fullyrða má að lífefnaeldsneyti er dýrara en hinar hefðbundnu olíuafurðir. Það er einfaldlega ennþá ódýrast að kaupa olíugumsið frá Sádunum – eða öðrum þeim sem því dæla upp úr jörðinni. En það að geta framleitt eigið eldsneyti, sem þar að auki mengar minna en bensín og díselolía, hefur margvíslega hagfræðilega þýðingu. Slíkt getur verið þjóðhagslega hagkvæmt, þó svo olía verði enn um sinn „ódýrasti“ orkugjafinn í samgöngum. Svarið felst m.a. í því hvernig „heildarkostnaður“ af eldsneyti er skilgreindur skv. reglum skattkerfisins.

Loks eru það umhverfismálin. Sem reyndar tengjast kostnaðinum. Umhverfismálin geta leitt til þess að hið opinbera setji upp hvatakerfi sem hefur þann tilgang að gera nýja orkugjafa samkeppnishæfari við olíuna. Og þannig stuðlað að minni mengun og minni losun kolefnis (minni gróðurhúsaáhrifum). Slíkar aðgerðir geta t.d. verið í formi margs konar kvóta og/eða niðurgreiðslna. Þýðingamesta skilgreiningin á umhverfismálum er fyrst og fremst pólitísk!

Eflaust eru deildar meiningar meðal Íslendinga um það hvort ríkið eiga að beita sér fyrir því að minnka þörf okkar á innfluttri olíu og olíuafurðum. Kannski er einfaldlega ódýrast að kaupa bara gamla, góða stöffið frá útlöndum, flytja það inn og fá um leið fullt af pening í ríkiskassann með skattlagningu á vesæla landsmenn. Kannski er status quo barrrasta langbest og áhyggjuminnst? Svo má líka hugsa sér að fara örlítið grænni leið og flytja inn etanól, t.d. frá löndum sem niðurgreiða slíka framleiðslu. Möguleikarnir eru margvíslegir.

Á móti kemur að framleiðsla á innlendu eldsneyti myndi skapa ný störf hér á landi og spara mikinn gjaldeyri. Þannig má tína til ýmis rök fyrir því að það yrði til mikilla hagsbóta fyrir landsmenn ef Ísland yrði að verulegu leyti sjálfbært um eldsneyti á bíla- og skipaflotann. Með eigin framleiðslu á etanóli og/eða lífdísil.

biodiesel_new_fuelAð mati Orkubloggsins er fráleitt að sitja með hendur í skauti og bíða t.d. eftir hugsanlegri vetnisvæðingu í óvissri framtíð. Hér ættu stjórnvöld þegar í stað að hefja skipulega og markvissa vinnu í því skyni að gera Ísland nánast algerlega orkusjálfstætt.

Það ætti að vera unnt að búa svo um hnútana, í gegnum skattakerfið, að íslensk líforkuframleiðsla verði arðbær. En til að þetta yrði að alvöru iðnaði, þyrfti líklega eitthvað meira að koma til en bara skattalegt hagræði. Í framleiðslu á orku gildir nefnilega, sem fyrr segir, gamla góða lögmálið um hagkvæmni fjöldaframleiðslunnar – eins og svo víða annars staðar. Best væri ef framleiðslan yrði bæði mikil og nýtti sér öll þau gríðarlegu tækifæri sem olíu- og efnaiðnaðurinn býður upp á.

Ein athyglisverð hugmynd er að skapa stóran íslenskan lífolíuiðnað. Slíkt myndi ekki aðeins þýða stórfellda lífmassaframleiðslu. Mikilvægur hluti starfseminnar fælist í því að auka orkuþéttleika lífmassans fyrir tilverknað vetnis. Það vetni yrði framleitt með íslensku rafmagni; endurnýjanlegri orku. Sú vetnislífmassatæknier enn á tilraunastigi, en að öðru leyti er þetta gjörþekktur prósess. Íslenskur lífmassa- og vetnisiðnaður gæti nánast gert Ísland að fyrsta sjálfbæra orkusamfélagi á Vesturlöndum. Og ekki myndi skemma fyrir, að orkulindirnar að baki þeim iðnaði yrðu 100% endurnýjanlegar. Vatnsafl, jarðvarmi og… vindur!

Island_tunLíklega er ekkert land í heiminum í eins góðri aðstöðu að sameina lífmassatæknina og vetnistæknina, eins og Ísland. Við höfum hér einstakt tækifæri til að byggja upp öflugan og mjög ábatasaman eldsneytisiðnað. Sá iðnaður myndi ekki aðeins framleiða innlent eldsneyti fyrir bíla- og skipaflotann, heldur einnig þær fjölmörgu og verðmætu aukaafurðir sem fylgja olíuiðnaðinum. Þar er mestu arðsemina að finna. Þetta yrði jafnvel ný og mikilvæg leið til gjaldeyrisöflunar með útflutningi á eldsneyti og fleiri olíuafurðum frá Íslandi. Það ásamt sjávarútveginum og áliðnaðinum myndi skapa hér gríðarlega öflugt hagkerfi. Og um leið grænna hagkerfi.

Fleira áhugavert: