Grænland, gullleit – Tvöfalda leytarsvæðið

Grein/Linkur: Tvö­falda leitar­svæðið á Græn­landi

Höfundur:  Viðskiptablaðið

Heimild:

.

.

Maí 2022

Tvö­falda leitar­svæðið á Græn­landi

AEX Gold semur við kjarnorkurisann Orano Group um leitarleyfi og breytir nafninu í Amaroq Minerals.

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals – Ljósmynd: Aðsend mynd

AEX Gold hefur samið við franska stórfyrirtækið Orano Group um að AEX eignist tvö leitarleyfi sem ná yfir svæði á Suður Grænlandi. Orano mun eiga rétt á hlutfalli tekna af málmvinnslu á svæðunum þegar til þeirra kemur. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var í kauphöllinni í London.

Orano, sem er eitt af stærstu kjarnorkufyrirtækjum heims og næst stærsti vinnsluaðili úrans í heiminum, hafði ætlað sér að leita að úrani á svæðunum tveimur, en AEX telur að miklar líkur séu á að þar sé að finna aðra verðmæta og mikilvæga málma.

Leyfin ná yfir 3.528 ferkílómetra og svæðin sem AEX hefur yfir að ráða á Grænlandi eru þá orðin samanlagt 7.616 ferkílómetrar að stærð. Það þýðir að AEX er nú stærsti leyfishafinn á Suður Grænlandi og þriðji stærsti á Grænlandi öllu á eftir Anglo American og Greenfield Exploration.

Á leyfissvæðunum sem AEX er nú að eignast er að finna málma eins og nikkel, kopar, zink, blý, títaníum, vanadíum, grafít og svokallaða sjaldgæfa jarðmálma auk gulls. Alls er að finna 29 málma af ýmsu tagi á leitarsvæðum AEX á Grænlandi.

Í tilkynninunni segir að alþjóðlegt mikilvægi Suður Grænlands er alltaf að aukast því þar megi finna marga málma sem nauðsynlegir eru fyrir orkuskipti komandi ára. Á svæðinu er að finna 1,5% af þeim sjaldgæfu jarðmálmum sem vitað er um í heiminum, en framkvæmdastjórn ESB telur að hlutfallið gæti hækkað í allt að 9,2% með auknum rannsóknum.

AEX hefur varið síðustu átta árum í að rannsaka og greina þetta svæði, en lykilforsendan fyrir árangri fyrirtækisins er greiningarvinna sem styður við kenningu AEX um að mikilvæg málmvinnslusvæði í Ameríku, Evrópu og Rússlandi liggi á einu og sama beltinu, sem einnig liggur um Suður Grænland. Stærstu námur í til dæmis Kanada, Rússlandi, Svíþjóð og Finnlandi liggja á þessu belti, en málmar í þeim fara þverrandi eftir áratuga vinnslu. Svæðin í Grænlandi eru óunnin og eru því til staðar til að stuðla að rafvæðingu og orkuskiptum í heiminum. Þá skiptir sköpum að þessar mikilvægu náttúruauðlindir sé að finna í vestrænu réttarríki.

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold

„Við erum afar ánægð með samninginn við Orano, sem eykur verulega aðgengi okkar að mikilvægum málmum og sjaldgæfum jarðmálmum af ýmsu tagi. Grænland hefur möguleika á að verða mikilvæg uppspretta þessara lífsnauðsynlegu frumefna og AEX ætlar að leika lykilhlutverk í að útvega þau.

AEX er nú þriðji stærsti leyfishafi á Grænlandi og sá stærsti á Suður-Grænlandi, sem nýtur góðs af því að vera íslaus allt árið um kring. Við eigum í  frábæru sambandi við ríkisstjórn Grænlands, sem hefur reynst námuiðnaðinum sterkur bakhjarl. Grænland verður í lykilstöðu þegar kemur að því að útvega heiminum öllum þá málma sem þarf til orkuskipta, en ekki skiptir minna máli að málmarnir séu unnir í sátt við samfélag og umhverfi og séu rekjanlegir. Það er sú framtíðarsýn sem við störfum eftir.

Eins og með önnur leyfi á okkar vegum munum við stunda rannsóknir á þessum nýju svæðum með háþróuðum könnunar- og tækniaðferðum og nýta til þeirra þá innviði sem við höfum þegar byggt upp á svæðinu. Við hlökkum til að deila niðurstöðum rannsóknanna með heiminum þegar fram líða stundir.“

AEX Gold verður Amaroq Minerals

Í annarri tilkynningu til kauphallanna í London og Toronto er greint frá því að aðalfundur AEX Gold verði haldinn með rafrænum hætti þann 16. júní næstkomandi. Á fundinum verður m.a. borin upp tillaga um að breyta nafni fyrirtækisins í Amaroq Minerals Ltd.

Nafnabreytingin kemur til annars vegar vegna þess að fyrirtækið leggur ekki lengur megináherslu á leit og vinnslu á gulli, heldur á fleiri mikilvægum og verðmætum málmum.

Þá skiptir það stjórnendur fyrirtækisins máli að það sé með augljósa grænlenska tengingu, en Amaroq er grænlenska nafnið yfir heimskautaúlfinn sem er gríðarlega sjaldgæfur þar í landi, rétt eins og málmarnir sem fyrirtækið leggur nú sífellt meiri áherslu á að finna og vinna.

Um AEX Gold

AEX var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign AEX er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu.

Hlutabréf AEX eru skráð í kauphallirnar í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands.  Öll námuvinnsla á vegum AEX Gold verður unnin samkvæmt ESG stöðlum undir merkjum grænnar gullvinnslu þar sem leitast verður eftir sjálfbærni og sátt við umhverfið með ríkri áherslu á samfélagslega ábyrgð, þar sem sérstök áhersla er lögð á gott og uppbyggilegt samstarf við grænlensk stjórnvöld.

Fleira áhugavert: