HS Orka – Silfurrefir, sagan

Grein/Linkur: Silfurrefurinn á Reykjanesi

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Júlí 2009

Silfurrefurinn á Reykjanesi

Sagt er að fyrirtækið sem standi að baki kauptilboði í hluta af HS Orku sé kanadíska Magma Energy. Ætti maður að segja loksins, loksins?

Magma_Energy_homepage

Magma_Energy

Sumir vilja meina að Magma sé að hrauna yfir Íslendinga og að nú sé að byrja sú þróun að orkufyrirtækin „lendi í höndum útlendinga“. Kannski er það aðallega nafn nánasta samstarfsmanns aðaleiganda Magma, sem veldur því að menn fá hroll. Sá heitir nefnilega hvorki meira né minna en Mr. Burns! Aðrir sjá gott eitt við það að erlend fjárfesting komi inn í íslenska orkugeirann.

Beaty_Ross

Beaty_Ross

Hvaða álit sem menn hafa á þessu, þá er a.m.k. augljóst að maðurinn á bak við Magma er ekki neinn venjulegur kaupsýslumaður. Sá ljúflingur heitir Ross Beaty og hefur lengi gert það gott í viðskiptum. Hann er stjórnarformaður Magma og jarðfræðingur að mennt, en kannski ætti helst að lýsa honum sem sönnum frumkvöðli í málmavinnslu.

Það er kannski ekkert skrítið að menn vilji fá Ross Beaty í lið með sér hjá HS Orku. Hann virðist einkar laginn við að búa til mikinn hagnað og er ekki síst frægur í málmabransanum fyrir árangur sinn þar. En það er jafn augljóst að áhugi Magma á HS Orku stafar ekki af neinu örðu en að þarna sé tækifæri til að fá gott fyrirtæki á enn betra verði.

Beaty hefur stofnað og byggt upp mörg námufyrirtæki með góðum árangri. Meðal þeirra eru t.d. Equinox Resources  (sem í dag er í eigu Hecla Mining Company og er nú líklega þekktast fyrir koparvinnslu sína í Sambíu) og tvö gullnámufyrirtæki með starfsemi í S-Ameríku; annars vegar Da Capo Resources  (sem í dag er hluti af Vista Gold Corp.) og hins vegar Altoro Gold  (nú í eigu Solitario Resources). Öll þessi þrjú fyrirtæki voru seld á 10. áratug liðinnar aldar og þau viðskipti fengu Beaty og aðra hluthafa til að brosa breitt.

Við söluna á Equinox árið 1994 fylgdi bisness-teymið ekki með í kaupunum og í stað Equinox ákváðu Ross og félagar að huga nú að silfrinu. Þar með varð til fyrirtækið Pan American Silver. Hugmynd Ross var að nýta þekkingu sína til að finna silfurnámur sem væru líklegar til að geta skilað miklu meiri arðsemi en í höndum þáverandi eigenda. Líklegt er að sama sé uppi á teningnum með kaupunum í HS Orku; metnaður Ross Beaty er örugglega að hagnast mikið á hlutnum í HS Orku. En er það ekki líka einfaldlega aðalatriðið í blessuðum kapítalismanum?

Silver_PanAm

Silver_PanAm

Fyrsta náman sem Pan American Silver keypti var stór gömul náma í Perú og þetta gerðist strax árið 1995; ári eftir stofnun fyrirtækisins. Í dag er Pan American Silver með starfsemi í Mexíkó, Bólivíu og Argentínu, auk Perú. En aðalstöðvarnar eru í heimabæ stofnandans; Vancouver í Kanada.

Það sem er kannski athyglisverðast, nú þegar Ross Beaty girnist jarðhitavirkjanir víða um heim, er hugsunin sem var að baki því að hann skellti sér í silfrið um miðjan 10. áratuginn. Hann mat stöðuna einfaldlega þannig að senn myndi eftirspurn á silfri aukast mikið, bæði í raftækjaiðnaðinum og ýmsum örðum iðnaði. Nú væri rétti tíminn til að veðja á silfur. Það gekk svo sannarlega eftir. Og í dag virðist Beaty telja að rétti tíminn sé að veðja á jarðhitann. Þetta kann Orkubloggið vel að meta.

Pan American Silver er nú einfaldlega eitthvert öflugasta silfurnámufyrirtæki í heiminum. Og Ross Beaty álitinn einhver snjallasti fjárfestirinn bæði í því sem snýr að náttúruauðlindum og orku. Væntanlega maður að skapi Orkubloggsins – sem er jú einmitt helgað nýtingu náttúruauðlinda og orkumálum.

magma_energy_web

magma_energy

Og ef Beaty myndi kunna íslensku er bloggið sannfært um að hann væri trúr lesandi Orkubloggsins. Samkvæmt heimasíðum Pan American Silver og Magma Energy kann þessi ljúfi silfurrefur því miður bara ensku, frönsku, spænsku, rússnesku, þýsku og ítölsku. En nú bætir hann væntanlega fljótlega íslenskunni í safnið. Og ekki er síður skemmtilegt að þessi snjalli jarðfræðingur er líka lögfræðingur. Orkubloggið býður Ross Beaty og Magma Energy velkomin til Íslands!

Fleira áhugavert: