Grein/Linkur: Hófleg vínneysla lengir lífið! Gott borðvín er heilsudrykkur
Höfundur: Þorbjörn Magnússon
Heimild:
.
.
Febrúar 1995
Hófleg vínneysla lengir lífið! Gott borðvín er heilsudrykkur
Hófleg vínneysla lengir lífið! Gott borðvín er heilsudrykkur, að mati Þorbjörns Magnússonar.Hann segir rökleysu að sekta fólk sem vill drekka það sér til heilsubótar en niðurgreiða smjör og rjóma.
Gott borðvín er heilsudrykkur og gerir okkur einungis gott sé þess neytt í hófi. Það er margsannað að rauðvín er með því hollasta sem við getum látið ofan í okkur, og hvítvín er litlu síðra. Samkvæmt niðurstöðum nýjustu rannsóka gildir reyndar um áfengi yfirleitt, að 20-30 grömm af hreinum vínanda á dag lækka tíðni ótímabærra dauðsfalla af völdum allskonar sjúkdóma um 15-20%. Magnið jafngildir allt að tveimur tvöföldum af sterkum drykkjum, eða allt að fjórum 125 cl. glösum af borðvíni á dag. Á undanförnum 15 árum hafa farið fram umfangsmeiri rannsóknir á áhrifum áfengis á heilsu manna heldur en nokkurntíma fyrr í mannkynssögunni.
Meira en ein milljón manna hefur tekið þátt í langtímarannsóknum, m.a. á vegum WHO (World Health Organisation), þar sem gerður var samanburður á dánartíðni 35-64 ára karlmanna af völdum kransæðastíflu í 20 löndum. Allar niðurstöður bera að sama brunni: Hófleg neysla borðvíns, sérstaklega rauðvíns, bætir heilsuna og eykur langlífi manna. Þetta kemur ekki alfarið á óvart í ljósi þess að mannkynið hefur um þúsundir ára notað vín til lækninga. Dr Serge Renaud, forstöðumaður rannsókna á sviði næringarog hjartasjúkdómafræði hjá Frönsku heilbrigðisstofnuninni í Lyon, hefur varið starfsævinni í rannsóknir á hjartasjúkdómum og orsökum þeirra.
Að hans sögn er borðvín sem neytt er í hófi: „Langöflugasta lyf sem við ráðum yfir til að lækka dánartíðni – og ekki eingöngu af völdum hjartasjúkdóma“. Því til áréttingar bendir hann á að meira en helmingur sjúkrahúsa, heilsuhæla og elliheimila í Bandaríkjunum bjóða nú sjúklingunum glas af víni með kvöldmatnum. Breski prófessorinn, Sir Richard Doll, sá sem fyrstur sýndi fram á samhengi reykinga og krabbameins með rannsókn á lífsháttum 40.000 lækna í Bretlandi, hefur nýlega birt niðurstöður framhaldsrannsókna á drykkjuvenjum 12.000 þeirra. Heilbrigðastir voru þeir sem drekka 20-29 einfalda af sterku eða 3,3-4,8 vínflöskur á viku. Þetta magn á við um karlmenn, æskilegt hámark fyrir konur eru 14 einfaldir eða 2,3 vínflöskur á viku. Kemur þetta heim og saman við það sem fyrr var sagt.
„Franska þverstæðan“
Þó að Frakkar neyti almennt mjög fituríks fæðis, sem er óhollt fyrir hjartað og æðakerfið, er tíðni kransæðastíflu lægst í Frakklandi af öllum vestrænum ríkjum. Meðal lækna er þetta kallað „Franska þverstæðan“ (the French Paradox). Næst á eftir Frakklandi í tíðni kransæðastíflu koma Spánn, Ítalía og Portúgal, en í öllum þessum löndum þykir sjálfsagt að neyta víns með matnum daglega. Í Bretlandi eru dauðsföll vegna kransæðasjúkdóma þrefalt fleiri en í ofangreindum löndum, og enn fleiri í Finnlandi og Írlandi þar sem neysla borðvína er minnst. Af hverjum 100.000 frönskum karlmönnum látast 95 árlega af völdum hjarta- og æðakvilla, en 140 á Ítalíu, 255 í USA og 363 í Skotlandi (tölur frá WHO 1989). Að vísu er skorpulifur algengari í Frakklandi, 28 dauðsföll á hver 100.000, á móti t.d. 12 í Skotlandi. Hjarta- og æðasjúkdómar eru þó margfalt meiri skaðvaldur eins og tölurnar sýna, og skorpulifur getur einnig átt sér aðrar orsakir, t.d. vítamínskort og sýkingar.
Auðvitað er ekki mælt með því að drekka 12 lítra af víni á dag eins og sumir Frakkar gera, en talið er þó að lifrin geti ráðið við hálfa til heila vínflösku. Hæfilegur skammtur af vínanda eykur magn HDL-blóðfituefna (high density lipoproteins). Þetta „góða kólesteról“ hefur margar góðar verkanir og útskýrir frönsku þverstæðuna að hluta til, en aðrir þættir koma einnig til. Vín er ríkt af silicum sem talið er minnka hættu á æðakölkun. Í því eru einnig „tannín“ og „flavonoidar“ sem hafa áhrif á fituefni í blóði. Tvö síðarnefndu efnin koma úr hýði vínberjanna og kann það að skýra hversvegna rauðvín, sem látið er liggja lengur í snertingu við hýðið, er heldur áhrifameira en hvítvín. Rætur vínviðarins standa djúpt í jörðu og færa upp til þrúgunnar mikilvæg stein- og snefilefni sem við getum ekki án verið. Þar á meðal eru silicum, magnesíum, kalk og járn, en rauðvín er oft gefið við blóðleysi.
Það auðveldar upptöku þessara efna í líkamanum að sýrustig víns er svipað sýrustigi magans, enda er rauðvín gott fyrir meltinguna eins og Japanir sýndu fram á nýlega um nautakjöt. Eitt til tvö glös af rauðvíni eru ennfremur ágætt svefnlyf eins og margir þekkja. Vínið hindrar ekki djúpa draum- eða REM-svefninn, en það gera svefnpillur hinsvegar. Vín getur m.ö.o. minnkað lyfjanotkun og pilluát við ýmsum kvillum, um leið og það er drukkið til ánægju. Líkt og um allt annað sem við neytum er ofdrykkja óholl og vissulega þola sumir ekki vín af lífefnafræðilegum og sálrænum orsökum. Miklu oftar er fjallað um þessar neikvæðu hliðar en hitt, að fyrir langflest okkar eru vel gerð borðvín sjálfsögð og eðlileg lífsnautn. Allt frá síðustu aldamótum hefur opinber áfengisstefna á Íslandi miðast við að gera áfenga drykki eins óaðgengilega og frekast er unnt, annarsvegar með fráhrindandi sölufyrirkomulagi og hinsvegar óheyrilega hárri skattlagningu.
Um árabil var reynt að halda uppi áfengisbanni sem engan árangur bar – til að svo mætti verða hefði þurft að banna bæði sykur og kartöflur. Enn þann dag í dag er upplýsingum og þjónustu við neytendur þessa dýrkeypta varnings haldið í lágmarki. Þó að eflaust sé þetta vel meint af þeim sem þykjast hafa vit fyrir okkur eru afleiðingar hinnar opinberu áfengisstefnu vægast sagt nöturlegar. Drykkjuskapur er óvíða verri en hér á landi, enda getur eðlileg vínmenning ekki þrifist undir þessum kringumstæðum. Borðvín sem kostar 1.000 krónur hjá ÁTVR kostar 500 krónur í Svíþjóð og enn minna í Danmörku og Englandi, svo ekki sé minnst á Frakkland (flutningur til landsins er ekki nema 20 krónur á flöskuna).
Hversvegna Íslendingar eru hafðir í tvöfaldri gjörgæslu miðað við Svía er ekki auðvelt að skilja. Heilbrigðissjónarmiðið, sem oftast er haldið á lofti, er fyrir löngu fallið um sjálft sig: Fyrst ekki er hægt að kaupa vönduð vín á sanngjörnu verði brugga menn sjálfir með mishollum árangri. Og við vitum öll að landinn, sem unglingar geta pantað sér í frímínútum gagnfræðaskólanna, getur verið beinlínis eitraður. Að auki er það vafasamt uppeldi að venja fólk á umgengni við skipulagðar smá-mafíur, sem bjóða til viðbótar upp á amfetamín og krakk. Önnur meginforsenda núgildandi áfengisstefnu er tekjuöflun ríkisins af áfengissölunni. Vegna þess hvað verðlagningin er komin langt út úr kortinu fara einhverjir milljarðar af sölutekjum framhjá Ríkinu (landinn einn er varlega áætlað einn milljarður).
Með afgerandi verðlækkun getur ÁTVR náð í stóran hluta af þessum svartamarkaði og þarf því ekki að missa tekjur sem lækkuninni nemur. Að auki má ætla að talsverður sparnaður geti orðið í heilbrigðiskerfinu vegna færri hjarta- og kransæðauppskurða. Drykkjusiðir hafa skánað síðan bjórbanninu undarlega var aflétt, og nú á næstunni mun bjórinn sem betur fer lækka í verði um ein 12% vegna þrýstings frá EFTA. Sú stofnun hefur látið í það skína að áfengisskattar íslenska ríkisins jafngildi viðskiptahindrunum. Því má búast við að verð á öllu áfengi þurfi að lækka hér á næstu árum ef við eigum að njóta vægra tolla á fiski í Evrópulöndum. Með því að lækka verð á borðvínum nú þegar er hægt að stuðla að betri vínmenningu og bættu heilsufari þjóðarinnar. „Íslenska þverstæðan“ felst í þeirri furðulegu rökleysu að greiða niður smjör og rjóma, sem eru ein algengasta orsök hjarta- og æðasjúkdóma – því hærri niðurgreiðsla sem mjólkurvaran er feitari og óhollari – en sekta um leið skynsamt fólk fyrir að drekka vín sér til heilsubótar.
.
——————————————————————————
.
Grein/Linkur: Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama?
Höfundur: Þuríður Þ orbjarnardóttir
Heimild:
.
Apríl 2022
Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama?
Alkóhól er í raun samheiti fyrir flokk lífrænna efna. Í daglegu tali er orðið alkóhól þó oftast notað um etanól eða vínanda sem er aðeins eitt þessara efna. Dæmi um önnur alkóhól eru metanól öðru nafni tré- eða iðnaðarspíritus og bútanól eða ísvari.
Notkun alkóhóls hefur fylgt manninum í árþúsundir. Í dag er það eina löglega vímuefnið í okkar heimshluta og neysla þess hluti af eðlilegu lífi margra. Því hefur verið haldið fram að hófleg neysla áfengis sé ekki skaðleg líkamanum og geti jafnvel reynst gagnleg í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Heilbrigðisstarfsfólk er þó fæst tilbúið til að hvetja til áfengisneyslu þar sem alkóhól er ávanabindandi og misnotkun þess algeng og skaðleg.
Notkun alkóhóls veldur bæði andlegum og líkamlegum breytingum hjá þeim sem þess neyta. Hversu mikil áhrifin verða fer til dæmis eftir magni þess sem er innbyrt, stærð og þyngd einstaklingsins, hvort drukkið er á fastandi maga eða ekki, hvort viðkomandi er vanur áfengisneyslu og síðast en ekki síst geta erfðir haft sitt að segja um hversu mikil áhrif áfengi hefur. Ef einstaklingur drekkur sjaldan, í hófi og nærist vel eru litlar líkur á að líkaminn beri skaða af. Ef hins vegar er drukkið mikið og reglubundið fer líkaminn smám saman að gefa sig.
Eins og önnur alkóhól leysist etanól bæði upp í fitu og vatni og dreifist því um allan líkamann eftir neyslu. Etanól er lítil sameind og þarf því ekki að melta það áður en það sogast út í blóðið. Þetta þýðir að strax og byrjað er að neyta áfengis fer það að sogast út í blóðrásina um slímhimnu í munni og vélinda þó í mjög litlum mæli sé. Um 10-20% af því alkóhóli sem neytt er fer út í blóðrásina í maganum en megnið, eða um 80%, sogast í gegnum slímhimnu smáþarmanna. Sé alkóhóls neytt með gosi sogast það hraðar út í blóðið og því berst alkóhólið í freyðivíni hraðar út í blóðrásina en sama magn í léttu víni án goss.
Þolmyndun gagnvart alkóhóli er mjög mikil. Þeir sem drekka oft og mikið verða fyrir mun minni áhrifum en þeir sem drekka sjaldan. Talið er að þetta þol stafi af breytingum á frumuhimnum sem umlykja heilafrumurnar og breytingum á viðbrögðum við boðefnum. Vegna þessara breytinga myndast ekki bara áfengisþol heldur getur líkaminn aðlagast alkóhólinu og orðið háður því þar sem heilinn getur ekki unnið eðlilega nema að hafa áfengi. Þess vegna koma fram fráhvarfseinkenni ef neyslu er skyndilega hætt. Algengasta fráhvarfseinkennið er ofurörvun sem einkennist af skjálfta, kvíða, pirringi, svefnleysi, útvíkkuðum sjáöldrum, svitnun og hröðum hjartslætti. Alvarlegri fráhvarfseinkenni eru krampar, ofskynjanir eða titurvilla (Delerium tremens).
Alkóhól verkar slævandi á taugakerfið og hægir á og truflar starfsemi heila. Ekki eru þó allir hlutar heilans jafnnæmir fyrir áhrifum þess. Litlir alkóhólskammtar duga til að slæva þann heilahluta sem stjórnar hömlum. Þess vegna losnar um hömlur og gerir þessi eiginleiki það að verkum að sumir álíta alkóhól vera örvandi efni. Eftir því sem meira er innbyrt af áfengi slævast fleiri heilastöðvar og þar á meðal þær sem stjórna grundvallar líkamsstarfsemi. Eftir neyslu mjög stórra skammta verður öndunarstöðin fyrir áhrifum og hætta er á öndunarstöðvun og þar með dauða.
Stöðug ofdrykkja getur valdið verulegum skemmdum á taugakerfinu og þá sérstaklega heila. Það getur lýst sér í breytingum á tilfinningaviðbrögðum einstaklingsins, persónuleika hans og viðhorfum, hæfileikinn til að læra nýja hluti getur minnkað og minni hrakað.
Áfengi hefur ekki einungis áhrif á heilann heldur nánast alla líkamshluta. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir hver áhrif mikillar drykkju eru á hina ýmsu líkamshluta.
Úttaugakerfið, það er taugarnar sem liggja til og frá heila og mænu, getur orðið fyrir varanlegum skaða af mikilli neyslu áfengis. Helsta einkennið er dofi í útlimum sem síðar getur orðið að tilfinningaleysi og kraftleysi.
Áhrif áfengis á líffæri meltingarkerfisins eru meðal annars að það ertir slímhimnur sem getur leitt til magasára, oft blæðandi. Áfengisdrykkja slakar á vöðvum við efra magaop og getur langvarandi drykkja valdið vélindabakflæði sem leiðir af sér þrálátar bólgur og aukna hættu á krabbameini. Einnig er hætta á briskirtilsbólgu sem getur stundum verið mjög alvarlegur sjúkdómur.
Lifrin er helsta efnavinnslustöð líkamans. Það ætti því ekki að koma á óvart að hún er það líffæri sem oftast verður hvað verst úti af völdum ofdrykkju. Hún sér um að vinna úr allt að 95% af öllu því alkóhóli sem berst út í blóðið og við niðurbrot áfengis myndast mörg efni sem geta ert og skemmt lifrarvefinn. Við drykkju fer lifrin að nýta alkóhól sem orkuefni í stað fitu sem safnast þá upp í lifrarvefnum og leiðir til svokallaðrar fitulifrar. Fitulifur er sjúklegt ástand sem þó gengur til baka ef hætt er að drekka. Ef drykkju er aftur á móti haldið áfram getur fitulifur þróast í alkóhóltengda lifrarbólgu og síðan skorpulifur. Skert lifrarstarfsemi sem fylgir skorpulifur getur leitt til dauða.
Mikil áfengisdrykkja getur leitt til hækkunar blóðþrýstings og aukið hættu á heilablóðföllum. Hjartavöðvinn getur skemmst og við það dregur úr dælustarfsemi hjartans, auk þess sem það stækkar. Mæði kemur fram við litla áreynslu og óreglulegur hjartsláttur er algengur meðal drykkjusjúklinga. Alkóhól veldur því að æðar við yfirborð líkamans víkka út og við það eykst blóðflæði til húðar og veldur hitatilfinningu í fyrstu. En við það að blóð streymi í húðina lækkar líkamshiti og hætta á ofkælingu eykst. Menn hafa orðið úti á hlýjum sumarnóttum vegna þess að alkóhólmagnið í blóðinu var svo mikið og kælingin sömuleiðis.
Áfengi er hitaeiningaríkt orkuefni en í því er lítið af næringarefnum. Óhófleg áfengisneysla dregur oft úr löngun í mat sem leiðir til næringarskorts. Þvagræsandi áhrif alkóhóls eru vel þekkt en með þvaginu tapast gjarnan mikilvæg steinefni.
Húðin verður fyrir truflunum í 30-50% áfengissjúklinga. Stafa þær af beinum áhrifum alkóhóls, lélegu næringarástandi og skertri lifrarstarfsemi. Oft eru æðar í nefi og bringu sjáanlegar vegna þess að þær eru útvíkkaðar að staðaldri. Stundum stækkar neðri hluti nefs og roðnar.
Kynkerfi beggja kynja verður fyrir áhrifum af langvarandi áfengisneyslu. Konur geta sleppt egglosi eða misst úr tíðir. Í körlum getur mikil drykkja leitt þess að eistun rýrna og framleiða minna af testósteróni. Á sama tíma minnkar geta lifrar til að brjóta niður kvenhormón sem er myndað í svolitlu magni í nýrnahettum karla. Afleiðingarnar geta verið stækkuð brjóst, líkamshár minnka eða hverfa og kynhvöt og reisnargeta dvína.
Síðast en ekki síst má nefna að áfengisdrykkja á meðgöngu getur valdið fósturskaða og haft áhrif á þroska hins ófædda barns síðar meir. Alvarlegustu skemmdir sem áfengisneysla á meðgöngu getur haft er svokallað áfengisheilkenni (Fetal Alcohol Syndrome) en þar fer saman minnkaður vöxtur, lítill heili, gat milli gátta hjartans, stutt augnrifa og vanþróaðir kjálkar.
Hér hefur verið stiklað á stóru en af þessari upptalningu allri er ljóst að ofnotkun alkóhóls getur haft margvísleg og alvarleg áhrif á líkamann.