Gasleiðslur Rússlands í Úkraínu

Grein/Linkur:  Gashagsmunir í Úkraínu

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Mars 2014

Gashagsmunir í Úkraínu

Árið 1938 réttlætti ónefndur þýskur stjórnmálaleiðtogi hernaðarafskipti þýska hersins innan Tékkóslóvakíu og Austurríkis með því að gæta þyrfti þýskra hagsmuna og vernda fólk af þýskum ættum. Sambærilegt gerðu serbneskir leiðtogar löngu síðar gagnvart héruðum í Króatíu og Bosníu. Og nú tala leiðtogar í Rússlandi um mikilvægi þess að verja rússneska hagsmuni og fólk af rússnesku bergi brotið á Krímskaga og víðar innan Úkraínu

Ukraine-Political-and-Cultural-Situation-Map

Ukraine-Political-and-Cultural-Situation-Map – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ OPNA

Já, enn og aftur bankar óhugnaðurinn uppá innan Evrópu. Tvær risastórar Evrópuþjóðir, Rússar og Úkraínumenn, virðast á barmi styrjaldar. Innan Úkraínu hafa rússneskar hersveitir nú þegar haft sig í frammi á Krímskaga og samkvæmt  fréttum búast stjórnvöld í Úkraínu við hinu versta.

Undanfarin ár hafa fréttir af Úkraínu mjög tengst annars vegar gaskaupum Úkraínu af Rússum og hins vegar flutningi á rússnesku gasi í gegnum Úkraínu og til Evrópuríkjanna vestan Úkraínu. Fyrir áhugafólk um orkumál hlýtur ástandið í Úkraínu núna að beina kastljósinu að gasinu. Því það er jú svo að ef flutningur á rússnesku gasi til Evrópu gegnum Úkraínu stöðvast er örstutt í alvarlegan orkuskort innan fjölmargra Evrópulanda.

Í Mið-Evrópu eru mörg ríki sem reiða sig svo mjög á rússneskt gas að alvarlegur orkuskortur gæti orðið innan 2-3ja vikna. Og stórþjóðir á borð við Þjóðverja og Frakka myndu sennilega lenda í vandræðum innan 2ja mánaða. Verst er þó auðvitað staða Úkraínumanna sjálfra, sem samstundis myndu finna fyrir alvarlegum orkuskorti.

Úkraína er mjög háð rússnesku gasi

Úkraínumenn eru afar fjölmenn þjóð (um 45 milljónir) og fyrir vikið er Úkraína meðal þeirra ríkja í heiminum sem flytur inn hvað mest af jarðgasi og þarf að eyða geysilegum fjárhæðum í kaupin á öllu því gasi. Það gas er svo til allt fengið frá Rússlandi.

Ukraine-gas_imports-gdp

Ukraine-gas_imports-gdp

Úkraínumenn framleiða reyndar stóran hluta raforku sinnar með kjarnorkuverum. Í landinu eru starfræktir fimmtán kjarnaofnar, sem útvega Úkraínumönnum um helming allrar raforkunnar sem notuð er þar í landi. Afgangur raforkunnar kemur einkum frá kola- og gasorkuverum. Að auki er gas mikið notað til eldunar og upphitunar.

Tvær stærstu gasleiðslurnar til Úkraínu frá Rússlandi kallast þeim notalegu nöfnum Samband (Soyuz) og Bræðralag (Bratstvo). En samband Rússa og Úkraínumanna einkennist þó ekki beint af bræðralagi þessa dagana.

Úkraína er mikilvægasti aðgangur Evrópu að rússnesku gasi 

Úkraína er ekki bara háð rússnesku gasi, heldur gegnir landið afar mikilvægu hlutverki í flutningi á gasi frá Rússlandi til Evrópulandanna vestan Úkraínu. Nær helmingur af öllu því gasi sem Evrópuríki fá frá Rússlandi kemur um gasleiðslur sem liggja gegnum Úkraínu. Þetta er geysihátt hlutfall – ekki síst þegar haft er í huga að löndin vestan Úkraínu uppfylla mörg á bilinu 40-100% af gasþörf sinni með innfluttu rússnesku gasi. Meira að segja Ítalir og Frakkar fá á bilinu 15-25% af gasinu, sem þar er notað, frá Rússlandi. Og eins og áður sagði kemur langmest af þessu rússneska gasi gegnum Úkraínu.

Ukraine-Gas-Pipes-Map-1

Ukraine-Gas-Pipes-Map-1

Fyrirtækið sem höndlar með þessa gasflutninga gegnum Úkraínu er  annað af tveimur stærstu fyrirtækjum landsins; orkufyrirtækið Naftogaz. Naftogaz var stofnað árið 1991 þegar Úkraína lýsti yfir sjálfstæði og er alfarið í eigu úkraínska ríkisins. Þetta gríðarstóra úkraínska orkufyrirtæki sér sem sagt um að flytja rússneskt jarðgas gegnum Úkraínu til Evrópu. Stærstu leiðslurnar þarna liggja yfir til Slóvakíu, en þaðan fer gasið áfram til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Frakklands og víðar.

Úkraína er á barmi gjaldþrots 

Naftogaz og þar með Úkraína hafa miklar tekjur af gasflutningum Rússa gegnum landið. En þær tekjur duga skammt til að vega á móti kostnaði Úkraínu vegna gaskaupa af Rússum. Inní þetta blandast svo sú stefna Gazprom að draga úr mikilvægi Úkraínu með því að ætla að leggja nýja gasleiðslur vestur til Evrópu framhjá Úkraínu. Í því skyni stendur bæði til að leggja aðra gasleiðslu eftir botni Eystrasalts og nýja gasleiðslu eftir botni Svartahafsins.

Ukraine-pipelines-map

Ukraine-pipelines-map

Undanfarin ár hafa einkennst af deilum Úkraínumanna við Gazprom og rússnesk stjórnvöld um verðlagningu á því gasi sem Úkraína kaupir af Rússunum. Og um leið hefur verið deilt um það hvað Gazprom eigi að greiða Naftogaz fyrir gasflutninginn gegnum Úkraínu. Jafnvel þó svo núverandi pólitískur ágreiningur milli landanna leiði kannski ekki til vopnaðra átaka, munu Rússar áfram hafa efnahagslegt kverkataká Úkraínu. Og það tak virðist mun sterkara en ótti Rússa við að verða tímabundið af einhverri gassölu til Evrópu.

Fyrir liggur að Úkraína skuldar Gazprom háar fjárhæðir vegna ógreiddra gasreikninga (talan er á reiki en virðist liggja nú á bilinu 1-2 milljarðar USD). Að auki verja úkraínsk stjórnvöld geysilegum fjárhæðum í niðurgreiðslur á gasi, því almenningur í Úkraínu ekki efni á að greiða fullt verð fyrir gasið

Þetta ásamt öðrum erfiðleikum í efnahagslífi Úkraínu veldur því að landið er á barmi gjaldþrots. Og gæti þurft tugi milljarða USD í neyðarlán til að halda sér á floti. Efnahagsleg staða landsins er sem sagt vægast sagt afar erfið.

Ukraine-Kiev-Maidan-protest-feb-2014

Ukraine-Kiev-Maidan-protest-feb-2014

Til framtíðar er þó von um að unnt verði að stórauka gasframleiðslu innanlands – því Úkraína er talin hafa að geyma mikið af þunnum lögum af jarðgasi sem unnt verði að nálgast með sama hætti og verið hefur að gerast vestur í Bandaríkjunum. En þessi von skiptir litlu þessa dagana. Úkraína á sér litla von nema vestrænu lýðræðisríkin styðji nú af alefli við sjálfstæði Úkraínu. Fróðlegt verður að sjá hvort sú lýðræðishugsjón sé ennþá jafn sterk og staðföst hér á Vesturlöndum eins og var á tímum kalda stríðsins. Eða hvort það viðhorf sé kannski að verða útbreitt að gælur við einræðisöfl í austri séu mun ábatasamari og skemmtilegri?

Fleira áhugavert: