Framtíðarsýn 1997, sagan – Færri og stærri..

Grein/Linkur: Framtíðarsýn

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Júlí 1997

Framtíðarsýn

Það er þörf á öflugri og stærri fyrirtækjum í pípulagningum, segir Sigurður Grétar Guðmundsson . En þar fer einyrkjunum fjölgandi og nemunum fækkandi.

Það þótti tíðindum sæta þegar tvö stór landssamtök atvinnu rekenda sameinuðust fyrir nokkrum árum, þetta voru Landsamband iðnaðarmanna og Félag íslenskra iðnrekenda og þá urðu Samtök iðnaðarins til. Tregðulögmálið er sterkt lögmál og oft og tíðum hafa glöggir menn séð hagkvæmni breytinga löngu áður en þær ná fram að ganga og ekki hvað síst á þetta við um endurskipulagningu ýmiskonar samtaka að ekki sé talað um stjórnmálaflokka og stjórnmálaöfl, þar er tregðan í bland við margskonar tilfinningar og sérdrægni næstum því allsráðandi. Sameining þessara tveggja félagasamtaka, LI og FÍI, gekk tiltölulega vel fyrir sig, þó ekki hafi getað hjá því farið að eitthvað hafi kvarnast úr hópnum og örfá félög hafi valið leið einfarans, en það er önnur saga. En hvern fjárann kemur þetta lagnamálum við, eru Samtök iðnaðins ekki bara hagsmunasamtök þeirra sem í þeim eru? Nei, svo einfalt er málið ekki því innan þessara samtaka eru meðal annarra flestir þeir sem standa fyrir íslenskum byggingaiðnaði og þar með taldir þeir sem bera ábyrgð á öllum lögnum í hverskonar byggingum, það er að segja handverkinu. Eitt er víst; byggingaiðnaðurinn kemur hverju mannsbarni hérlendis við, ekki aðeins þeim sem af honum hafa sitt lifibrauð. Í þessu harðbýla landi með sína umhleypingasömu veðráttu er fátt mikilvægara hverjum þjóðfélagsþegni en að eignast eða fá afnot af góðu og eins ódýru húsnæði og nokkur er kostur. Lagnakerfi hvers húss er eitt af því mikilvægasta, kerfið sem færir okkur yl, kerfið sem færir okkur heitt og kalt vatn til neyslu og hreinlætis og kerfið sem flytur frá okkur úrganginn í fljótandi og föstu formi, þessum úrgangur sem þó er forsmáð verðmæti.

Hvað er framundan?

Byggingadagar 1997 eru nýliðnir, sett var upp sýning í Perlunni, sem fyrirtæki í byggingaiðnaði hefðu átt að sjá sóma sinn í að taka meiri þátt í en raun bar vitni, en það sem tókst mjög vel var að mörg fyrirtæki buðu heim til sín gestum og gangandi og nýttu sér það mjög margir. Í ágætum bæklingi, sem Samtök iðnaðarins hafa gefið út, er skyggnst inn í framtíða íslensks byggingaiðnaðar og er fróðlegt að kíkja aðeins nánar í hann. Þar segir að markhópurinn, sem þessi bæklingur er ætlaður, séu eftirfarandi:

– Stjórnendur og starfsmenn byggingafyrirtækja.

– Stjórnvöld, stjórnendur og starfsmenn í opinberum stofnunum.

– Viðskiptavinir byggingaiðnaðarins.

– Ungt fólk í leit að framtíðarstarfsvettvangi.

– Aðrir sem áhuga hafa á málefnum byggingaiðnaðarins.

Tvennt er þarna sem verulega áhugavert er að staldra við, þarna er höfðað til viðskiptavina iðnaðarins og til ungs fólks sem er að velja sér lífsstarf. Svo sérstaklega sé bent á það, sem þessi pistill á að fjalla um, lagnamál, þá er vonandi að viðskiptavinirnir, húsbyggjendur, húseigendur og húskaupendur séu betur á verði og setji sig betur inn í hvað í boði er. Með þessu er ekki verið að segja að hver einstakur húseigandi eða kaupandi eigi að verða sérfræðingur í lögnum eða öðru því sem að húsbyggingum lýtur, heldur að hann geri sér grein fyrir þeim kostum sem eru í boði, að hann geri sér grein fyrir því, eftir að hann er orðinn húseigandi, að lagnir eru eins og hver annar búnaður sem þarf umhirðu og viðhald. Þetta á við um alla þætti bygginga, það hefur löngum viðgengist hérlendis að húseigandinn „situr meðan sætt er“ ef svo má segja, hann flytur inn í nýtt húsnæði og hugar ekki að neinu fyrr en í óefni er komið. Þetta verður oft til mikilla fjárútláta, miklu meiri fjárútláta heldur en ef skipulegt eftirlit og viðhald hefði stöðugt verið í gangi. Þarna á byggingiðnaðurinn mikla sök; á þeim árum sem uppgangurinn var sem mestur var ekkert hugsað um annað en nýbyggingar og þar af leiðandi nýlagnir, enginn fékkst til að sinna eftirliti og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Nú er „Eyjólfur að hressast“ vonandi, byggingaiðnaðarmenn og þeirra fyrirtæki verða að bjóða húseigendum þessa þjónustu, hana verður að skipuleggja og það er hluti af þeirri framtíðarsýn sem Samtök iðnaðarins eru að kynna í sínum ágæta bæklingi. Þetta gerist ekki nema takist að laða ungt fólk að iðnnámi og til að svo megi verða þarf margt að breytast og kannski fyrst og fremst hugarfarið og afstaðan til iðnnáms. Það verður að bæta námið, ekki aðeins í skólunum heldur hjá hverjum og einum meistara sem tekur nema í fögum byggingaiðnaðarins. Sérstaklega er það mikilvægt að það verði til öflugri og stærri fyrirtæki í öllum greinum byggingaiðnaðar og á það ekki síst við um fyrirtæki pípulagningameistara. Þar fer einyrkjunum fjölgandi og nemunum fækkandi, hér er þróun sem verður að snúa við, ef ekki geta heilu stéttirnar liðið undir lok.

Það væri hverjum og einum hollt að gera sér grein fyrir hver er framtíðarsýn íslensks byggingaiðnaðar, öllum þjóðfélagsþegnum kemur það við.

Fleira áhugavert: