Handbækur, FP og LAFÍ 1998 – Sannleikurinn er „sárastur“ og Handbókin hennar Jónínu minnar
Grein/Linkur: Sannleikurinn er „sárastur“ Handbókin hennar Jónínu minnar
Höfundar: Kristján Ottóson formaður LAFÍ, Christian Þorkelss formaður FP 1998
.
.
Mars 1998
Sannleikurinn er „sárastur“
Skoðum dæmið!
Það eru skýrar ástæður fyrir því að kerfin virka ekki, þau hafa ekki verið kláruð, það á eftir að taka út lokafrágang lagnakerfanna með „Handbók“. Sú vinna er ekki framkvæmd af neinum aðila. Hönnuðir segja að verkkaupinn vilji ekki borga fyrir endanlegan frágang lagnakerfanna.
Starfsmenn byggingarfulltrúaembæta ganga svo langt að halda því einnig fram að verkkaupi vilji ekki borga fyrir „Handbók“ og þar með ekki borga fyrir lokafrágang lagnakerfa.
Trúnaðarmenn okkar skattborgaranna sem standa fyrir opinberum byggingum á vegum ríkisins og sveitastjórna, stuðla að því með aðgerðaleysi sínu að lagnakerfin eru ekki frágengin með „Handbók“ og því ekki úttekin af óháðum aðila. „Og virka því ekki“.
Sigurður er sestur fyrir framan sjónvarpið og vill láta líða úr sér eftir erfiði dagsins.
Jónína mín, ástin mín, hækkaðu fyrir okkur á miðstöðvarofninum, það er svo kalt hérna inni.
Hvar á ég að hækka hitann elskan mín? Jónína, þú ert í splunkunýju húsi sem á að vera með fullkomnu hitakerfi og handbók, hvað gerðirðu við Handbókina sem fylgdi hitakerfinu?
Hvaða handbók elskan mín?
Jónína, manstu hérna um daginn þegar hrærivélin bilaði hjá þér og ég fór út í búð og keypti rjómaþeytarann, honum fylgdi handbók upp á sex blaðsíður, manstu; þú varst að lesa hana fyrir mig um daginn? Hún er hérna í skúffunni hjá mér, já þá hlýtur handbókin yfir hitakerfið að vera þar líka. Ég hef aldrei séð þessa Handbók.
Jónína, heyrðu Jónína mín, já, eigum við ekki bara að skreppa undir sæng og fá okkur hita í kroppinn, ég er orðinn svo ansi kvöldsvæfur þegar fer að líða á kvöldin, það er svoddan spenna í manni þegar maður kemur heim.
Eftir dágóða stund.
Jónína, hefur inðmeistarinn virkilega ekki kennt þér á hitakerfið, segja þér hvar þú átt að skrúfa fyrir ef vatn fer að leka vegna bilunnar? Hann talar ekkert við mig.
Ég hringi bara í hann Jón sem hannaði lagnakerfið fyrir okkur.
Jón blessaður þetta er Sigurður hérna í Fúlavogi 28 þú hannaðir fyrir okkur hjónin lagnakerfið í húsið okkar. Já sæll er eitthvað að? Já við kunnum bara ekkert á kerfið.
Nú eru ekki hitastillar á ofnunum?
Það eru einhver tæki þar, en hvar er Handbókin sem við eigum að geta lesið okkur til um hverning við eigum að stjórna hitanum í húsinu? Handbók, ég veit ekkert hvað þú ert að tala um Sigurður. Varst þú ekki að selja okkur þitt hugvit? Jú.
Já en ætlarðu þá ekki að skila okkur Handbókinni.
Ég veit ekkert hvaða Handbók þú ert að tala um Sigurður, hringdu bara í iðnmeistarann hann bjargar þessu.
Kona þá verð ég að hringja í iðnmeistarann okkar.
Páll, blessaður þetta er Sigurður hérna í Fúlavogi 28.
Já sæll.
Páll varstu ekki búinn að afhenda okkur Handbókina sem á að fylgja hita-og lagnakerfi hússins?
Handbók, ég veit ekkert hvað þú ert að tala um Sigurður. Átt þú ekki að sjá um að við fáum Handbókina yfir hita- og lagnakerfi hússins?
Ég hef aldrei heyrt talað um neina Handbók Sigurður.
Páll ertu ekki búin að magnstilla hitakerfið- og stjórnlokana (hitastillana) á ofnunum?
Jú. Er lagnakerfið úttekið af byggingarfulltrúa? Já. Hvar eru gögnin yfir stillingarnar?
Sigurður ég veit ekkert hvað þú ert að tala um, talaðu bara um þetta við hönnuðinn, eða byggingarfulltrúa.
Ég hringi þá í byggingarfulltrúa.
Er þetta hjá byggingarfulltrúa? Já.
Get ég fengið að tala við úttektarmann lagnakerfa? Augnablik, halló þetta er Jónatan.
Sæll ég heiti Sigurður og bý í Fúlavogi 28, ég kann ekkert á stjórntæki hitakerfisins í húsinu mínu, get ég fengið að sjá úttektarskýrsluna sem þið gerðuð þegar þið tókuð lagnakerfið út?
Úttektarskýrslu hvað er nú það? Við kunnum ekkert að taka út lagnakerfi og höfum aldrei gert það, hringdu í hönnuðinn eða iðnmeistarann á verkinu þeir eiga að hjálpa þér.
Hugsaðu þér kona,
rjómaþeytarinn sem ég keypti, honum fylgdi sex blaðsíður um það hvernig við getum notað hann. En lagnakerfið í húsið okkar kostaði eina milljón og fimmhundurðþúsund krónur, en þó fylgir því ekki stafur á blaði um það hvernig við eigum að nota það eða hvernig við eigum að njóta þess og hafa af því vellíðan.
Jónína mín
ég er nú bara aldeilis hissa, þessu er bara fleygt í mann eins og þegar verið var að bera húsdýraáburð á tún hér í gamla daga. „Éttu það sem úti frýs“ stendur einhvers staðar.
Kona, hvernig ætli þetta sé hjá öðrum húseigendum?
Jónína hvar ætli maður fái upplýsingar og aðstoð til að koma hitakerfinu í lag?
Sigurður minn, manstu eftir viðtalinu sem við heyrðum í útvarpinu um daginn, þar var verið að tala um frágang á lagnakerfum og Handbók sem á að fylgja kerfunum.. Já, ég man þetta núna, maðurinn var frá Lagnafélagi Íslands sem talað var við.
Já hringdu bara í Lagnafélag Íslands, Sigurður minn.
Lagnafélag Íslands góðan daginn. Góðan daginn ég heiti Sigurður og við hjónin erum hér í vandræðum með hitakerfið í húsinu okkar, það hlustar enginn á okkur, hvað eigum við að gera? Sigurður eruð þið hjónin búin að lesa Handbókina sem fylgir kerfinu, þar eigið þið að fá svör við öllum spurningum ykkar?
Það hefur engin Handbók komið, og iðnmeistarinn á verkinu, hönnuður hitakerfisins og byggingarfulltrúinn vísa bara hvor á annan, þeir kannast ekkert við að þeir eigi að útvega okkur Handbók eða uppfræða okkur um það hvernig við eigum að nota hitakerfið.
Sigurður, viltu ekki bara vísa þessu máli til Gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands og biðja þá um að taka þetta út hjá ykkur? Þið eruð annars velkomin hingað til Lagnafélags Íslands, og við erum tilbúinn að sýna ykkur hvernig Handbók lagnakerfa í venjulegu einbýlishúsi á að líta út.
Simi. 892-4428.
KRISTJÁN OTTÓSSON,
vélstjóri/blikksmíðameistari, framkvæmdastjóri Hita- og loftræstiþjónustunnar og Lagnafélags Íslands.
——————————-
Mars 1998
Handbókin hennar Jónínu minnar
Sjaldan eða aldrei hef ég orðið jafn gáttaður og þegar grein Kristjáns Ottóssonar, framkvæmdastjóra Hita- og loftræstiþjónustunnar og Lagnafélags Íslands, birtist í DV.
Þessi grein hefur eflaust átt að vera skemmtilestur út í gegn, enda skrifaður gamanleikþáttur sem fjallar um hjónin í Fúlavogi 28 og samskipti þeirra við píparann, hönnuðinn og loks Lagnafélagið, þar sem þeirra mál fengu auðvitað góðan endi og örvæntingarfullri leit þeirra að handbókinni endaði að sjálfsögðu þar.
En mér var ekki skemmt við þennan lestur frekar en öðrum starfsbræðrum mínum. Ég ætla ekki að elta ólar við þessa grein enda vona ég að hún dæmi sig sjálf. Samt verð ég að segja að mér finnst ómaklega vegið að pípulagningamönnum, sérstaklega af því að fyrir skemmstu, á sameiginlegum fundi lagnamanna og Byggingafulltrúa um gerð handbóka lagnakerfa, vorum við Kristján Ottósson sammála eins og flestir fundarmanna um að handbók í einbýlishúsum og öðrum litlum kerfum, væri lítið annað en skýringartafla uppi á vegg í kyndiklefa, sem ég veit að fer vaxandi meðal pípulagningamanna að skilja eftir, og að gerð handbóka (þar sem hennar er þörf í stærri kerfum) ætti að vera í höndum hönnuða og á ábyrgð þeirra.
Kristján Ottósson verður að vera sjálfum sér samkvæmur stöðu sinnar vegna, því annars er hætta á að tiltrú manna á Lagnafélagi Íslands hverfi fyrir fullt og allt.
Niðurlagið í greininni má skilja þannig að Lagnafélagið vilji helst af öllu vera athvarf fyrir fólk sem hefur orðið fyrir þeirri óheppni að þurfa að versla við þessa menn sem hvort sem er „ekkert upplýsandi kemur frá“, hönnuðum og iðnaðarmönnum. Ég er með tillögu í framhaldi af þessu um nýtt nafn á Lagnafélaginu, hvernig líst ykkur á Lagnaathvarfið.
Annars vil ég nota tækifærið og benda fólki á skrifstofu Félags pípulagningameistara, Hallveigarstíg 1 í síma 552 9744. Þar situr pípulagningameistari við símann, og er örugglega betur í stakk búinn til þess að leiðbeina fólki þegar hvaðeina sem snertir okkar fag kemur upp.
Í MORGUNBLAÐINU þriðjudaginn 17. mars sl. birtist í Bréfi til blaðsins grein frá formanni Félags pípulagningamanna, undir yfirskriftinni „Handbókin hennar Jónínu minnar“. Í grófum dráttum byggist greinin á skömmum, órökstuddum tilvitnunum og lítilsvirðingu fyrir góðum skilum á frágangi á hitakerfum til húseigenda.
Handbók fyrir hitakerfin er krafa fólksins
Frá Kristjáni Ottóssyni:
Í MORGUNBLAÐINU þriðjudaginn 17. mars sl. birtist í Bréfi til blaðsins grein frá formanni Félags pípulagningamanna, undir yfirskriftinni „Handbókin hennar Jónínu minnar“.
Í grófum dráttum byggist greinin á skömmum, órökstuddum tilvitnunum og lítilsvirðingu fyrir góðum skilum á frágangi á hitakerfum til húseigenda.
Formaðurinn segir: „Sjaldan eða aldrei hef ég orðið jafn gáttaður og þegar grein Kristjáns Ottóssonar framkvæmdastjóra Hita- og loftræstiþjónustunnar og Lagnafélags Íslands birtist í DV.“ Ekki er að undra að maðurinn verði hissa, því þar er sett saman í léttum dúr samskipti hjóna (húsbyggjenda) við hönnuðinn og pípulagningameistarann og leit þeirra að Handbókinni yfir hitakerfið sem nýbúið var að selja þeim hjónum. Þar gat maður lesið um þá erfiðleika sem fólk hefur við að stríða við að reyna að skilja hvernig á að nota hitakerfið sem engar uppýsingar fylgja með.
Hitakerfin drabbast niður
Staðreyndin er sú að það gleymist að afhenda húseiganda upplýsingar um hvernig hann geti og eigi að nota hitakerfið. Við þessar aðstæður og þessa samskiptaerfiðleika gefst fólkið upp og hitakerfin drabbast niður.
Það er aðeins vitað um eina Handbók yfir einbýlishús, sem tekin hefur verið saman af pípulagningameistara.
Þessi Handbók var unnin af Páli Bjarnasyni pípulagningameistara og syni hans, og fengu þeir feðgar viðurkenningu fyrir þetta lofsverða lagnaverk frá Lagnafélags Íslands fyrir árið 1996, handverkið og Handbókin var gerð fyrir Bergþórugötu 4 í Reykjavík.
Þeir sem þess óska geta fengið að sjá bókina eða ljósrit af henni hjá Lagnafélagi þslands.
Þessi umrædda Handbók var birt í Fréttabréfi Lagnafélags Íslands 7. tbl. 1997 og Fasteignablaði Morgunblaðsins þriðjudaginn 27. janúar 1998. Þar fær fólk svör við spurningum sínum varðandi erfiðleika með að átta sig á ofnhitakerfinu og heita og kalda kranavatninu ásamt hlutverki hinna ýmsu krana í húsum sínum.
Viðurkenning veitt á hverju ári
Lagnafélag Íslands hefur veitt viðurkenningu fyrir lofsvert lagnaverk á hverju ári frá árinu 1990. Öll þau verk hafa verið í stórum byggingum, viðurkenninguna hafa hlotið: Pípulagningameistarar, blikksmíðameistarar, hönnuðir og viðkomandi húseigandi. Þá hefur síðustu þrjú árin verið veitt viðurkenning fyrir sérstaklega gott handverk á minni verkum, og hafa hlotið þá viðurkenningu einn járnsmiður og tveir pípulagningameistarar, báðir afbragðs fagmenn.
Formaður pípulagningameistara segir að svona bók eigi ekki rétt á sér, það nægi „að Handbók í einbýlishúsum og öðrum litlum kerfum væri lítið annað en skýringartafla upp á vegg í kyndiklefa, sem ég veit að fer vaxandi meðal pípulagningamanna að skilja eftir“.
Atvinnurekandandinn í stóra húsinu
Staðreyndin er sú að hitagrind er nákvæmlega eins, hvort sem hún er í einbýlishúsi, tólf hæða blokk eða verksmiðjuhúsi, markmiðið á að vera, berum ekki síður virðingu fyrir launþeganum sem setur aleigu sína eina í íbúð, en atvinnurekandanum í stóra húsinu.
Tókuð þið eftir því að formaðurinn sagði „sem ég veit að fer vaxandi meðal pípulagningamanna að skilja eftir“. Hvað er formaðurinn að segja? Jú, hann viðurkennir að verkunum eigi að skila til húseigenda með betri frágangi en verið hefur, og slík yfirlýsing hjá formanninum er til fyrirmyndar, en framkvæmdin verður að fylgja á eftir.
Orðið athvarf
Formaður pípulagningamanna segir í niðrandi setningu um Lagnafélag Íslands: „Ég er með tillögu í framhaldi af þessu um nýtt nafn í Lagnafélaginu, hvernig lýst ykkur á Lagnaathvarfið.“
Því er til að svara að Lagnafélag Íslands er fyrir fólkið í landinu, Lagnafélag Íslands er ekki „athvarf“ fyrir þá sem ekki vilja bæta sig í gæðum við afhendingu á hitakerfum til fólks sem er að eyða aleigu sinni í hitakerfi í íbúð fyrir fjölskylduna.