Hvernig virkar rafeldsneytisverksmiðja?

Grein/Linkur:  Gæti orðið mikilvægt framlag í orkuskiptum samgangna á Íslandi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Heimild: 

.

Framleiðsluferlið við rafeldsneyti Orkugarðs Austurlands

.

Janúar 2022
.
Gæti orðið mikilvægt framlag í orkuskiptum samgangna á Íslandi
.
Greint var frá því í Bændablaðinu að áform væru um að reisa áburðarverksmiðju í Reyðarfirði í tengslum við verkefnið Orku­garður Austurlands. Ef áætl­anir ganga eftir gæti slík verk­smiðja orðið að veruleika eftir fimm til sex ár.

Áburðarframleiðslan er hugsuð sem eins konar hliðarstarfsemi af grunnframleiðslu orkugarðsins, sem verður vetnisframleiðsla sem grunnur fyrir framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti. Gert er ráð fyrir að sú eldsneytisframleiðsla gæti staðið undir fyrirhuguðum orkuskiptum í samgöngum á Íslandi.

„Aðrar hliðarafurðir af þessu verkefni eru til dæmis súrefni og varmi – og hugmyndin er að nýta þær líka á svæðinu,“ segir Magnús Bjarnason hjá MAR Advisor, sem er tengiliður danska fjárfestingafélagsins Copenhagen Infrasturucture Partners (CIP), og hefur leitt hagkvæmnisathugun á verkefninu í samvinnu við Landsvirkjun og Fjarðabyggð.

Umhverfisvænni raforku umbreytt í vetni

Magnús Bjarnason hjá MAR Advisor, sem er tengiliður við fjárfestingafélagið Copenhagen Infrasturucture Partners, sem stendur á bak við hugmyndina um Orkugarð Austurlands. Mynd / smh

„Grunnhugmyndin með orku­garðinum er að umbreyta um­hverfis­vænni raforku í vetni. Síðan verður umbreyting á vetninu í aðrar tegundir rafeldsneytis með rafgreiningu, eins og til dæmis ammoníak. Möguleiki er bæði að nýta vetnið beint sem orkugjafa en það er umbreytingarferlið yfir í ammoníak sem kannski helst er verið að horfa til. Það er enda mikil eftirspurn eftir vistvænu ammoníaki í heiminum og fyrirtæki líta í vaxandi mæli á tækifærin til að framleiða inn á þann markað.

Við framleiðsluna verður til varmi og súrefni sem hægt verður að nýta til annarrar framleiðslu. Ammoníakið verður þá nýtt bæði sem eldsneyti og við áburðarframleiðslu. Súrefnið mætti nota til ýmiss konar iðnaðarframleiðslu og fiskeldi, sem nyti líka góðs af varmanum. Hann mætti líka nota til ylræktar og garðyrkju. Tækifærin eru mörg og svo er það spurningin hvernig þau verða gripin,“ útskýrir Magnús.

„Þannig að hugsunin á bak við orkugarðinn er í raun að horfa á tækifærin á Austurlandi. En jafnvel þó að vetnisframleiðslan verði í Fjarðabyggð þá eru menn ekki að einskorða sig við tækifæri þar, heldur um allt Austurland og jafnvel víðar. En eðlilegt er að horfa til þeirra tækifæra sem eru næst framleiðslunni. Þannig gæti varminn og súrefnið nýst vel í fiskeldi á landi sem liggur nálægt orkugarðinum,“ bætir hann við.

Fiskeldi, áburðarframleiðsla og fiskiskip

Að sögn Magnúsar eru hliðar­afurðirnar af grunn­starfseminni í raun hugsaðar sem tækifæri fyrir frumkvöðla og fyrirtæki að nýta sér – en sé ekki meginviðfangsefni CIP, Landsvirkjunar og Fjarðabyggðar. Hins vegar hafi fyrirtæki komið inn í verkefnið nýverið sem tengjast mögulegri nýtingu þeirra. „Laxar og Fiskeldi Austfjarða mun skoða tækifærin sem blasa við þeim. Við erum að skoða áburðarframleiðsluna með Atmonia og hugsanlega munu einhverjir aðrir aðilar bætast þar við. Síldarvinnslan er einnig hluti af samstarfsverkefninu En þetta eru allt hugmyndir sem þurfa tíma og súrefni til að þroskast.“

Orkugarður í nágrenni Mjóeyrarhafnar

Verkefnið er að sögn Magnúsar ekki komið á það stig að búið sé að skilgreina umfang starfseminnar eða teikna hana nákvæmlega upp. Þannig að enn er um formlega hagkvæmnisathugun að ræða. Hann segir að orkuþörf hafi ekki verið nákvæmlega áætluð fyrir verkefnið – og ekki heldur framleiðslugeta – þótt reiknað hafi verið fram og til baka miðað við ýmsar forsendur. Þó er gert ráð fyrir staðsetningu garðsins í nágrenni Mjóeyrarhafnar í Reyðarfirði, á um 20-30 hekturum.

Hann útskýrir valið á staðsetningunni þannig að skoðun hafi leitt í ljós ýmsa augljósa kosti við Reyðarfjörð. „Höfnin er þar mjög góð og aðstaðan, mikil iðnaðarþekking er á Reyðarfirði, Fjarðabyggð er eitt af fáum sveitar­félögum á Íslandi sem er að hluta til án hitaveitu, fiskeldi er þar og svo er öflugur sjávarútvegur og útgerð – svo ég nefni nú nokkur atriði. Svo var verkefninu vel tekið af sveitarfélaginu og það var tilbúið til samstarfs.“

.

Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Orkugarðurinn er fyrirhugaður á um 20-30 hektara svæði í nálægð við höfnina.

Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Orkugarðurinn er fyrirhugaður á um 20-30 hektara svæði í nálægð við höfnina.

.

Flest sem bendir til hagkvæmni framleiðslunnar

„Það er flest sem bendir til þess að það sé hagkvæmt að standa fyrir slíkri framleiðslu á Íslandi – og ekki bara hagkvæmt heldur er líka einfaldlega þörf fyrir hana. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort við ætlum að flytja inn þetta framtíðar sjálfbæra eldsneyti eða framleiða það sjálfir. Það liggur fyrir að við erum á leið í þessi orkuskipti – og um það er fólk sammála, þvert á stjórnmálaflokka og starfsstéttir,“ segir Magnús.

Hann bætir því við að hugmyndin í grunninn sé sú að þetta verkefni geti þjónað mikilvægu hlutverki í fyrirhuguðum orkuskiptum á Íslandi. Ef áætlanir gangi eftir ætti verkefni eins og þetta að geta séð Íslandi að fullu fyrir tilbúnum áburði.

Sambærilegt verkefni í þróun á sex stöðum

Spurður um upphaflegu hugmyndina að orkugarðinum, segir Magnús að danska fjárfestingafélagið CIP sé með sambærileg verkefni í þróun á sex stöðum í heiminum í dag. „Þeir hafa verið að leita fyrir sér á stöðum þar sem þeir telja að aðstæður séu heppilegar. Ísland er einn af þeim stöðum sem eru í skoðun hjá þeim. CIP settu sig í samband við Landsvirkjun og síðan í framhaldinu á því var farið að skoða heppilegar staðsetningar fyrir svona á Íslandi. Í kjölfarið bætist Fjarðabyggð við og síðan er þessum snjóbolta ýtt hægt og rólega á undan sér sem síðan hefur stækkað jafnt og þétt,“ segir Magnús.

MAR Advisor sérhæfir sig að sögn Magnúsar í að aðstoða erlenda aðila við fjárfestingar á Íslandi. „CIP réði okkur svo sem sína ráðgjafa hér á Íslandi. Þeir fjármagna verkefnið að fullu og ekki er í raun gert ráð fyrir að aðrir fjárfestar þurfi að koma að því. Það er gríðarlega vel fjármagnað félag með um 16 milljarða evra í stýringu. Sjóðurinn innan CIP sem vinnur að þessu verkefni er með um tvo til þrjá milljarða evra. Markmið hans er að reka um tíu slík verkefni víðs vegar um heiminn, sem nú er í undirbúningi hér. Flest þeirra eru lengra komin í þróun en það íslenska. Eitt er í Esbjerg í Danmörku, eitt á Spáni, eitt í Noregi og eitt er í Ástralíu svo einhver lönd séu nefnd. Niðurstöður úr þessari hagkvæmnisathugun hér á Íslandi ættu að vera að fullu ljósar eftir fáeina mánuði.“

Fleira áhugavert: