Kína, orkuöryggi – Kolabrennsla 2021-2025
Grein/Linkur: Kína setur orku frá kolabrennslu í forgang orkuáætlunar
Höfundur: Viljinn
.
.
Nóvember 2019
Kína setur orku frá kolabrennslu í forgang orkuáætlunar
Kína hefur gefið til kynna að orka frá kolabrennslu verði í forgangi í orkustefnu þjóðarinnar nú þegar ríkisstjórnin undirbýr næstu fimm ára áætlun sína fyrir árin 2021-2025. Frá þessu greindi chinadialouge þann 12. nóvember sl.
Hinn 11. október sl. var forsætisráðherra Kína, Li Keqiang, fundarstjóri á fundi Orkumálanefndarinnar í Peking, þar sem lögð var áhersla á orkuöryggi Kína og kolanýtingu. Hann dró úr áherslu á mikilvægi hraðra umskipta úr jarðefnaeldsneyti. Þetta þykir vera breyting frá eldri áætlun áranna 2016-2020, þar sem Li ákvað að „auka hlut endurnýtanlegrar orku í orkuframboði“ og „hraða“ orkuskiptum. Nú kvað við annan tón. Ekkert var minnst á hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframboði á næstu fimm ára áætlun og orðinu „hröðun“ var skipt út fyrir óljósara hugtak „þróunar“.
Fundir nefndarinnar, sem stofnuð var árið 2010 og hefur aðeins fundað fjórum sinnum, hafa allar götur síðan þá haft veruleg áhrif á stefnumótun ríkisins. Forsætisráðherrann Li leiðir fundi nefndarinnar og sóttu hann fleiri en 20 yfirmenn í ráðuneytum og skrifstofum Kína að þessu sinni, en nefndin er æðsta vald í samræmingu orkustefnu landsins.
Af hverju er orkuöryggi aftur efst á dagskránni?
Li sagði á fundinum: „Ríkisstjórnin ætti að auka fjölbreytni í orkuframboði til að bæta orkuöryggi… efla innlenda olíu- og gasleit, rannsóknir og þróun, og efla olíu- og gasforða auk framleiðslu til að bæta sjálfstæði landsins varðandi olíu og gas“. Hann vill auka vægi „öruggrar og grænnar kolavinnslu“ og „þróa og nýta metan úr kolanámum“.
Endurnýjuð áhersla á orkuöryggi kemur til vegna aukinnar innanlandsneyslu á olíu og gasi, sem að mestu leyti hefur þurft að mæta með innflutningi. Innflutningur til Kína vegna orkuþarfar jókst úr 9% árið 2014 í meira en 20% árið 2018.
Innlend hráolíuframleiðsla Kína hefur minnkað og viðleitni landsins til að ná óhefðbundnum uppsprettum jarðgass auk metans úr kolasvæðum, hafa ekki tekist sem skyldi. Viðvarandi viðskiptadeilur við Bandaríkin eru ógn við orkuviðskipti stórveldanna tveggja, og birgðir frá Miðausturlöndum eru ótryggar vegna aukins óstöðugleika á svæðinu.
.