Hitaveita-, Orkuveita Reykjavíkur – Í hálfa öld, sagan
Grein/Linkur: Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Ágúst 2009
Ég átti samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld
Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.
Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.
Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.
Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.
En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.
Hvað gerðist?
Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.
Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?
Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt, er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.
Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?
Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.
Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.
Megi „Skrímslið“ verða öllum viðvörun um aldur og ævi.