Þjórsá – Lengsta á Íslands, 230Km 360 m3/s

Grein/Linkur:  Hver er lengsta á á Íslandi og hvað er hún löng?

Höfundur:  Emíla Dagný Sveinbjörnsdóttir

Heimild:

.

Mynd – icelandmag.is 11.01.2022

.

Mars 2002

Hver er lengsta á á Íslandi og hvað er hún löng?

Þjórsá er lengsta fljót Íslands en hún rennur um 230 km leið frá upptökum til ósa. Vatnasvið Þjórsár er 7530 ferkílómetrar (km2) og er það næststærsta vatnasvið fljóta á Íslandi á eftir Jökulsá á Fjöllum. Meðalrennsli Þjórsár við Urriðafoss er um 360 rúmmetrar á sekúndu (m3/s).

Þjórsá rennur á mörkum Árnes- og Rangárvallasýslna og er hún blanda af dragá, lindá og jökulá. Hún á upptök sín við norðanverðan Sprengisand og kallast þar Bergvatnskvísl. Margar þverár falla í Þjórsá enda er leiðin til sjávar löng. Stærsta þveráin er Tungnaá að austan en árnar tvær koma saman í Sultartangalóni. Af öðrum þverám má nefna Þjórsárkvíslar, Hnífá, Kisu, Dalsá, Fossá, Sandá, Þverá og Kálfá en þær falla allar í Þjórsá að vestan. Helstu fossar í Þjórsá eru Kjálkaversfoss (Hvanngiljafoss), Dynkur (Búðarhálsfoss), Gljúfurleitarfoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Búði og Urriðafoss.

Þjórsá og þverár hennar eru orkumesta fallvatn á Íslandi en þar eru um 27% af virkjanlegri vatnsorku landsins. Hugmyndir um virkjun Þjórsár og þveráa hennar komu snemma fram og á árunum 1915-1917 stundaði norski vélfræðingurinn Gotfred Sætersmoen rannsóknir á Þjórsársvæðinu í því skyni. Hann sá fyrir sér fimm virkjanir í Þjórsá og eina í Tungnaá en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en rúmum 40 árum seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Síðan þá hafa Sigöldu-, Hrauneyjafoss- og Sultartangastöð bæst við auk Vatnsfellsvirkjunar. Í undirbúningi eru virkjanir við Búðarháls, Minna-Núp og Urriðafoss.

Margar náttúruperlur og sögustaðir eru í næsta nágrenni Þjórsár. Þar ber helst að nefna Þjórsárdal sem er fjölsóttur ferðamannastaður, en áin rennur ekki eftir honum heldur fyrir mynni hans. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp bæjarrústir að Stöng í Þjórsárdal en byggð eyddist þar í Heklugosi 1104. Byggt hefur verið yfir rústirnar, en þær voru einnig fyrirmynd Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal sem reistur var í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Þjórsá var mikill farartálmi fyrr á tímum. Hún var fyrst brúuð árið 1895 og var það önnur stórbrúin í landinu á eftir brúnni yfir Ölfusá. Brúin yfir Þjórsá var síðan endurgerð 1949.

.

Heimildir og mynd:

  • Heimasíða Landsvirkjunar, til dæmis ársskýrsla fyrir 2000.
  • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, 1984. Landið þitt Ísland. Reykjavík, Örn og Örlygur.
  • Sætersmoen, Gotfred, 1993. Vandkraften i Thjorsá elv, Island : planer for utbygning av 6 kraftanlæg / ved G. Sætersmoen. 2. útg., Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Fleira áhugavert: