Flæðiengjar, sagan – Engjasláttur, áveitur

Grein/Linkur:  Engjasláttur er hafinn

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

flaediengi a

.

Ágúst 2007

Engjasláttur er hafinn

Þessi fullyrðing, að engjasláttur sé hafinn, er meira en hálfri öld of seint á ferð. Líklega þekkist ekki annað í dag en að heyfengur sé af ræktuðu landi en allt fram á síðustu öld var víða heyjað á útengi og þá sérstaklega á flæðiengjum.

Þjórsá er mikið í umræðunni í dag vegna hugsanlegra þriggja virkjana í byggð með uppistöðulónum og miklu raski og breytingum á þeim jörðum sem fá lónin inn á sitt land.

En vatn hefur verið virkjað til fleiri nytja en að snúa rafölum sem skila frá sér rafmagni. Ekki þarf að fjölyrða um það að vatn er ein helsta undirstaða alls lífs, án þess þrífst hvorki gróður, skepnur eða mannverur.

Á landsvæði því sem afmarkast af Þjórsá í vestri og Hólsá í austri var fyrr á tímum eitt stórkostlegasta votlendi Íslands. Þarna var, þar til fyrir skömmu, sérstakur hreppur sem nefndist Djúpárhreppur og bar nafn sitt af eystri ánni sem til forna og allt fram til síðustu aldar bar nafnið Djúpá, en einhverjir skammsýnir menn þurftu endilega að breyta nafni árinnar í Hólsá. Kjarninn í Djúpárhreppi var þúsund ára sveitaþorpið Þykkvibær en í hreppnum voru einnig bæir upp með Þjórsá, þar sem Sandhólaferja er efsti bærinn og bæir upp með Hólsá og Rangá þar sem efsti bærinn er Ægissíða með annexíunni Bjargi gegnt Hellu. Lengst af var Þykkvibær eins og eyja þegar allt vatn úr ánum austan byggðar hafði ekki útrás til sjávar en braut sér leið til vesturs út í Þjórsá. En þrautseigja Þykkbæinga var einstök; þeir opnuðu flóðgátt til sjávar fyrir Hólsá og stífluðu við Djúpós rennslið til vesturs.

.

flaediengi

Unglingsdrengur við túnaslátt í mikilli bleytu. Í baksýn til vinstri sér á bæjarhúsin í Hemlu í V-Landeyjum. Drengurinn er Skúli Jón Sigurðarson Mynd-Þjóðnynjasafnið

.

En ekki meira um það því ætlunin var að fara á engjaslátt.

Flæðiengjar hafa víða verið þekktar hérlendis, engar þó þekktari en í Flóa vestan Þjórsár þar sem byggð var hin mikla Flóaáveita sem þekkt varð víða um veröld. En í Djúpárhreppi voru einnig flæðiengjar. Þannig háttaði til í Þykkvabæ að tún voru sáralítil, smá bleðlar við hvern bæ. En Þykkbæingar áttu eina perlu, einn fjársjóð sem voru flæðiengjarnar Safamýri.

En það er ekki óeðlilegt að spurt sé hvað séu, eða voru, flæðiengjar?

Þetta voru mjög blaut landsvæði þar sem vatn lá yfir vetrarlangt og skildi eftir sig mikið grómagn fyrir störina sem spratt á engjunum þegar voraði og kom fram á sumar. Miklar sögusagnir voru um hve störin í Safamýri var há en búast má við að þær sögur hafi nokkuð verið litaðar eins og sögur veiðimanna um stærð veiddra laxa.

En aðeins norðar í Djúpárhreppi er stærsta vatnið í Holtum, sem er svæðið milli Þjórsár og Ytri-Rangár allt inn til óbyggða, vatn þetta nefnist Hrútsvatn. Þar voru einnig flæðiengjar en þar greip mannshöndin inn í. Afrennsli Hrútsvatns var stíflað á hverju hausti og vatnið hækkað þannig að það féll yfir bakka sína og langt inn á sléttar engjar. Á vorin var stíflan opnuð og engjarnar komu upp úr vatni og störin spratt bændum og búaliði til mikillar ánægju. Að vísu var einn vágestur þar á ferð, grágæsin tók sinn toll með því að leggja undir sig vatnsbakkana og úðra þar í stig störinni.

Heyskapur á engjum var sérstakur sem síðar meir fékk á sig allt að því rómantískan blæ þegar rosatíð og vosbúð var gleymd. Stundum var legið við á engjum þegar mikið var í húfi, en alltaf var haft með tjald, prímus og ketil til að brugga hið nauðsynlega ketilskaffi, hertir þorskhausar voru einnig ómissandi. Síðan var störin slegin, þurrkuð, sett upp í sátur, þær bundnar í bagga og fluttar heim í hlöðu, ýmist á klökkum eða á heyvögnum.

En nú er ekki aðeins engjasláttur horfinn heldur engjarnar einnig. Allt hefur verið ræst fram, skurðgröfur hafa sargað og rótað, þetta sterka forna lífríki mýranna er horfið og þar með allt það merkilega líf sem þar dafnaði. Störin er horfin, fuglalífið ekki svipur hjá sjón. Enginn jarðvegur var jafnsterkur og mýrin, þar var skorið torf og reyðingur sem var ómissandi meðan allir flutningar hérlendis fóru fram á trússhestum. Rótarkerfi mýranna var svo sterkt að skorinn reyðingur entist árum saman þó líftenging hans væri rofin.

Það væri núverandi Djúphreppingum til mikils sóma ef þeir gerðu gangskör að því að endurheimta eitthvað af starenginu og mýrunum sem voru lífakkeri fyrri kynslóða. Það væri heldur ekki lítils virði ef hinir öflugu kvikmyndagerðarmenn okkar létu ekki þessi fornu vinnubrögð sem engjaslátt, heybindingu, baggana setta upp á trússhesta í langri lest og komið í hlöður og heygarða, hverfa inn í heim gleymskunnar. Þeir eru líklega ekki margir ofar moldu sem hafa unnið við þessi fornu verk og þekkja þau í þaula. Eftir nokkur ár verða þeir allir horfnir af heimi hér.

Fleira áhugavert: