Miðjarðarhafskapallinn – Ísrael, Kýpur, Grikkland
Grein/Linkur: Magnaður Miðjarðarhafskapall
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2013
Magnaður Miðjarðarhafskapall
Ef rafmagnskapall verður lagður milli Íslands og Evrópu verður hann að lágmarki u.þ.b. 1.100 km langur (og færi þá til Bretlands). Og þessi langi sæstrengur mun fara niður á allt að 1.000 m dýpi.
Eðlilega veltir fólk fyrir sér hvort þetta sé framkvæmanlegt og hvort áhættan af t.d. bilun komi í veg fyrir að unnt verði að fjármagna svona verkefni. Íslandskapallinn yrði nær helmingi lengri en lengsti rafstrengur af þessu tagi er í dag. Þar er um að ræða NorNed, sem er 580 km langur og liggur milli Noregs og Hollands (og liggur því á miklu minna dýpi). Flest bendir þó til þess að það sé bæði tæknilega gerlegt og fjárhagslega mögulegt að ráðast í Íslandskapalinn.
Þetta má rökstyðja með ýmsum hætti. Svo sem með tilvísun til góðrar reynslu af þeim sæstrengjum sem nú þegar hafa verið lagðir. Og með tilvísun til þeirra gagna sem fjalla um þá kapla af þessu tagi sem nú eru í bígerð. Það virðist í reynd einungis tímaspursmál hvenær svona geysilega langir rafmagnskaplar neðansjávarverða að veruleika. Það kann vissulega að tefjast eitthvað. En það er fyllilega tímabært að við skoðum þessa möguleika nákvæmlega og könnum til hlítar bæði tæknilegar og viðskiptalegar forsendur.
Líklegt er að sá sæstrengur sem næst mun slá lengdarmetið verði kapall sem stendur til að leggja milli Noregs og Bretlands (hann er merktur inn á kortið hér að ofan). Þessi kapall verður á bilinu 700-800 km langur (eftir því hvaða leið verður endanlega fyrir valinu). Og flutningsgetan verður tvöföld á við NorNed!
Það á þó við um „norsku“ kaplana að þeir fara um hafdýpi sem er miklu minna en það sem mest er á milli Íslands og Evrópu. Þetta er þó ekkert úrslitaatriði. Það er vel þekkt að unnt er að leggja svona neðansjávarkapla þó svo hafdýpið sé afar mikið. Þannig fer t.d. rafstrengurinn sem liggur milli Ítalíu og ítölsku Miðjarðarhafseyjarinnar Sardiníu (SAPEI kapallinn) niður á um 1.600 m dýpi. Og nú eru áætlanir um ennþá stærri og dýpri Miðjarðarhafsstreng, sem mun slá öll núverandi met.
Þessi magnaði Miðjarðarhafskapall á að tengja raforkukerfi Ísraels, Kýpur og Grikklands. Gert er ráð fyrir að orkan sem fer um kapalinn verði fyrst og fremst raforka frá gasorkuverum í Ísrael og á Kýpur. Á landgrunninu innan lögsögu þessara tveggja ríka hafa á síðustu árum fundist geysilegar gaslindir. Þær væri unnt að nýta til að framleiða raforku til stóriðju heima fyrir eða að umbreyta gasinu í fljótandi gas (LNG) og sigla með það til viðskiptavina sem greiða gott verð (t.d. Japan og Suður-Kórea). Einnig væri mögulegt að leggja gasleiðslu yfir til meginlands Evrópu, þar sem gasverð er nokkuð hátt. Fýsilegast þykir þó að nýta a.m.k. verulegan hluta gassins til að framleiða rafmagn og selja það til Evrópu um rafstreng! Þannig er talið að hámarka megi arðinn af gaslindunum.
Þessi nýi Miðjarðarhafskapall er kallaður EuroAsia Interconnector. Gert er ráð fyrir að heildarlengd kapalsins verði á bilinu 1.000-1.500 km (eftir því hvaða leið verður fyrir valinu) og stærðin um 2.000 MW. Þetta á sem sagt að verða risastór kapall og geysilega langur. Það sem þó verður erfiðasti hjallinn er vafalítið hið mikla hafdýpi á svæðinu.
Milli Kýpur og Krítar þarf EuroAsia sæstrengurinn að fara niður á dýpi sem er á bilinu 2.000-2.500 m eða jafnvel nokkru meira. Þessi leið milli Kýpur og Krítar er jafnframt lengsti neðansjávarleggur kapalsins. Milli þessara tveggja eyja verður kapallinn mögulega allt að 880 km langur (nokkru styttri leið er þó möguleg). Sem fyrr segir er ráðgert að heildarlengd kapalsins verði 1.000-1.500 km, en bæði endanleg lengd og dýpi kapalsins mun ráðast af leiðarvalinu.
Nú má vel vera að einhverjir hafi litla trú á því að Ísraelar, Grikkir og Kýpverjar geti staðið að þvílíkri risaframkvæmd. En í því sambandi er vert að hafa í huga að ísraelsk fyrirtæki byggja mörg yfir geysilegri hátækniþekkingu. Þar að auki nýtur verkefnið mikils velvilja innan Evrópusambandsins. Enda er þessi sæstrengur í samræmi við þá stefnu ESB-ríkjanna að fá aðgang að meiri og fjölbreyttari uppsprettum raforku og styrkja þannig orkuöryggi sitt.
Það er til marks um áhuga ESB að nú í október sem leið (2013) var þessi magnaði kapall settur inn á lista ESB um lykilverkefni næstu ára á sviði orkumála. Þetta er góð vísbending um að Íslandskapall muni vekja mikinn áhuga bæði stjórnvalda og fyrirtækja í Evrópu. Fyrst og fremst verða það þó auðvitað íslenskir hagsmunir sem munu ráða því hvort og hvenær Íslandskapallinn verður lagður. Á síðustu mánuðum og misserum hafa komið fram afar skýrar vísbendingar um að það verkefni geti skapað okkur íslensku þjóðinni geysilegan hagnað og fordæmalausan arð af orkuauðlindunum okkar. Um það verður brátt fjallað nánar hér á Orkublogginu.