Vatnsauðlindin – Er rétt að staldra við?

Grein/Linkur: Hugsanaleti eða hvað?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Febrúar 1995

 Hvað gerist í iðrum jarðar?

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Er ekki kominn tími til að staldra við? Við þurfum að fara að líta gagnrýnum augum á, hvernig við nýtum heita vatnið.

Hvarvetna í iðnþróuðum ríkjum er leitað nýrra leiða til að spara orku. Enda engin furða; mengun frá olíu- og kolabrennslu er gífurlegt vandamál, kjarnorkuverin eru ógnvekjandi vá heilsu manna og dýra. Sprengingin í Tsjernóbyl í Úkraínu er hryllileg aðvörðun. Kjarnorkan er ekki aðeins hættuleg í vopnum og hernaði, hún er ekki síður hrikaleg ógnun, þó nýting hennar eigi að vera í gagnlegum og friðsælum tilgangi.

Landinn er samur við sig. Þrasar og emjar um lítilsverða hluti, en minnist örsjaldan á það sem vel er. Situr í makindum, neytir hollustu fæðu sem völ er á, eigin framleiðslu af láði og úr legi og yljar sér og þvær með ódýrustu orku sem þekkist á kulsælari breiddargráðum.

Heita vatnið, sem ár og síð er dælt úr iðrum jarðar og rennur stöðugt um ofna í hverjum krók og kima, í blaðið og eldhúsvaskinn.

Við erum fyrir löngu hætt að taka eftir þessu; ekki nema eitthvað bili og vatnið hætti að renna.

Orkusparnaður

Fálmkenndar tilraunir til orkusparnaðar skjóta upp kollinum öðru hvoru hérlendis. Auknar kröfur um einangrun húsa hafa verið nokkuð ákveðnar. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að minnast þess að þykkt einangrunar þótti nægjanlegt 3­4 sm. Nú hefur þykkt einangrunar 2­3 faldast til að ná þeim einangrunargildum sem byggingarreglugerð mælir fyrir um og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Nágrannaþjóðir, á líkum breiddargráðum, fara stundum út í öfgar í orkusparnandi aðgerðum.

Með ærnum kostnaði fer nú fram í Svíþjóð tilraun til að byggja hús sem kalla má „orkunirfilinn“. Satt best að segja er ekki hægt annað en að viðurkenna að stundum læðist glott fram á varir þegar lesið er um þessa tilraun, enda er langt frá því að þarlendir séu á einu máli um gagnsemi hennar. Sumir halda því reyndar fram að þegar svo langt er gengið að einangrun veggja sé orðin 35 sm þykkt, rúður í gluggum svo margfaldar að ekki sést út um þær, sé full langt gengið. Það kostar fjármuni að framleiða alla þessa einangrun og margfalda gler, að ekki sé talað um orkuna sem til þess þarf. Svo tekur fjárans einangrunin mikið rými í húsum.

En eitt verður seint leyst; þörf mannsins fyrir súrefni. Það verður óhjákvæmilega að fá nýtt loft inn í húsið. Kalt loft sé kalt úti og það þarf að hita. Draga andann ekki eins djúpt, eða hvað?

Það er ekki öll vitleysan eins.

Skammt öfganna á milli

Á meðan dælum við upp meira og meira af heitu vatni úr jörðinni. Sóum, eyðum, sullum. Notum heita vatnið eins og einnota pakkingar um pitsur eða pylsur. Fáum það rennandi fyrirhafnarlaust inn fyrir húsvegginn,, víðast hvar á verði sem fær útlendinga til að taka andköf. Á lægra verði en þeir borga fyrir kalda vatnið. Þykjumst ná geysilegum árangri í nýtingu ef það er „ekki“ nema 20 gráður þegar því er hent. Á sama tíma eru nágrannar okkar að vinna varma úr 5­7 gráðu heitu grunnvatni eða sjó.

Er ekki kominn tími til að staldra við?

Heita vatnið er ekki óþrjótandi auðlind. Við erum að ganga á birgðir framtíðar, birgðir sem okkur ber skylda til að spara fyrir komandi kynslóðir, fyrir okkar afkomendur. Víða er það svo í dag að yfirborð heita vatnsins stendur miklu dýpra í jörðu en þegar dæling og nýting hófst. Það þýðir á mæltu máli að við tökum meira vatn en berst til svæðisins og nær ákveðnum hita. Við tökum meira en stofninn þolir.

Mikið er talað um rányrkju í hafinu. En erum við ekki farin að stunda rányrkju í iðrum jarðar?

Tvímælalaust.

En það er annar þáttur, sem vert er að veita athygli. Víða um heim hefur það haft hörmulegar afleiðingar fyrir lífríki og landslag að breyta grunnvatnsstöðu. Þar er ekki um að ræða heitt vatn heldur venjulegt grunnvatn, sem við hérlendis höfum einnig gengið gegn eins og hryðjuverkamenn með gengdarlausri framræsingu mýra, einhverju frjóasta og sterkasta lífríki Íslands.

En hvað getur gerst þegar tæmdir eru stórir neðanjarðargeymar og rásir, sem geymt hafa heitt vatn undir miklum þrýstingi? Hver er styrkur jarðlaganna? Veit einhver svarið?

Er vá fyrir dyrum þar sem búið er að dæla upp gífulegu magni af olíu? Hvað um burðarþol sjávarbotns í Norðursjó? Leikmaður spyr hvort búið sé að skerða það svo að það geti brostið?

En á heimaslóðir. Förum að líta gagnrýnum augum á það hvernig við nýtum þessa heilnæmu og tæru auðlind, heita vatnið.

Á meðan við lítum á það sem „einnota“ afurð erum við á villigötum. Á meðan við hendum því í skólpið 20­-30 gráðu heitu, á meðan við leyfum okkur að leggja einföld hitaveitukerfi í ný hverfi, og gerum ekki ráð fyrir að geta endurheimt vatnið, erum við á villigötum.

Fleira áhugavert: