Búrfells- og Nesjavallavirkjun – 2 bilanir, 76 MW framleiðsluafl
Grein/Linkur: Vél 2 í Búrfellsstöð verður úti fram á vor
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
9.12.2021
Vél 2 í Búrfellsstöð verður úti fram á vor
Fyrirséð er að aflvél nr. 2 í Búrfellsstöð sem bilaði síðastliðið laugardagskvöld kemst ekki í gagnið aftur fyrr en næsta vor. Uppsett afl vélarinnar er 46 megavött. Sömuleiðis er útlit fyrir að vél 2 í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar komist ekki í gagnið aftur fyrr en undir jól. Afl hennar er 30 MW. Er því aflið 76 MW minna en venjulega vegna bilana í þessum stöðvum.
Bilunin í Búrfellsstöð og seinkun á því að raforkuvinnsla hjá „öðrum framleiðanda“ sem átt hafi að koma inn í kerfið í síðustu viku en skili sér ekki inn fyrr en í lok næstu viku voru meðal ástæðna sem Landsvirkjun gaf fyrir því að nauðsynlegt væri að takmarka orkuafhendingu til fiskimjölsverksmiðja og annarra sem hafa samið um kaup á skerðanlegri orku. Með seinkun hjá „öðrum framleiðanda“ mun vera átt við vél 2 í Nesjavallavirkjun. Ekki fengust miklar upplýsingar um málið hjá Orku náttúrunnar í gær nema hvað stefnt sé að innsetningu vélarinnar fyrir jól, nánar tiltekið 20. desember.
Vél 2 í Nesjavallavirkjun
Alvarleg bilun kom í ljós við reglubundið viðhald og prófanir á vél 2 í Nesjavallavirkjun. Í framhaldinu kom upp bilun í strengmúffu á sömu vél. Hefur vélin ekki verið í rekstri að neinu gagni frá 5. ágúst en stefnt er að því að ljúka viðgerð fyrir jól. Gangi það eftir hefur vélin ekki verið í rekstri í hálfan fimmta mánuð en áætlað viðhaldsstopp var tæpir tveir mánuðir.
Til að bæta upp þá framleiðslu sem vantað hefur upp á vegna vélar 2 á Nesjavöllum ákvað Orka náttúrunnar að færa áður skipulagt viðhald, sem átti að taka þrjár vikur, yfir á næsta ár.
.