Kína, sagan – Sólarorkuver Innri Mongolíu, 2 þúsund MW
Grein/Linkur: First Solar á fyrsta farrými í Kína
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
September 2009
First Solar á fyrsta farrými í Kína
Sólskinsvinur Orkubloggsins, bandaríski þunnselluframleiðandinn First Solar, er á blússandi ferð. Nú síðast voru þau hjá First Solar að að semja við Kínverja um að byggja risastórt sólarorkuver austur í Innri-Mongólíu.
Þar mun First Solar leggja til sólarsellur upp á heil 2 þúsund MW. Þrjár Kárahnjúkavirkjanir úr sólarsellum! Kínverjana munar ekki um það. Soldið magnað þegar haft er í huga að rafmagn með sólarsellum kostar svona circa fimm sinnum meira heldur en ef rafmagnið er fengið með vatnsaflsvirkjun.
Kínverjarnir láta ekki svoleiðis smámuni vefjast fyrir sér. Enda vita þeir að í framtíðinni munu þeir lenda í stórkostlegri orkukreppu ef þeir draga lappirnar. Þeim er einfaldlega lífsnauðsynlegt að finna lausnir í orkumálum. Eina leiðin til þess er að prófa alla kosti og sjá hvað virkar best. Og ef framleiðslukostnaður á sólarsellum minnkar um 50% á hverju 5 ára tímabili næstu 20 árin eða svo, verður ekki amalegt að vera kominn með góða reynslu í að reisa stór sólarsellu-orkuver.
Samt vaknar sú spurning hvort þarna sé verið að skjóta hressilega yfir markið. Og taka óþarfa áhættu. Þetta verður stærsta sólarorkuver heims og með næstum því jafnmikla framleiðslugetu eins og allar virkjanir á Íslandi eru með samanlagt! Það væri ekki séns að reisa slíkt orkuver neins staðar annars staðar í heiminum en í Kína. Alger miðstýring raforkukerfisins er forsenda þess að svona orkuver eigi möguleika að lifa af í samkeppni við hefðbundna raforkuframleiðslu. Bæði hvað snertir verð og dreifingu. Aðkoma og algert vald stjórnvalda er einmitt megin ástæðan fyrir því að bæði sólarorkufyrirtækin og vindorkufyrirtækin liggja slefandi fyrir Kínverjunum. Þar eru lang mestu möguleikarnir fyrir þessa sniðugu en dýru tegund af rafmagnsframleiðslu. Ekki bara vegna fólksfjöldans heldur fyrst og fremst vegna þess að þarna ríkir alger miðstýring í orkugeiranum. Þess vegna segja bandarísku kapítalistarnir sem kaupa hlutabréfin í First Solar og GE Wind: „Guð blessi kommúnismann í Kína“.
Nánar tiltekið á þetta gríðarstóra sólarorkuver að rísa við borgina Ordos í nágrenni við Ordos-eyðimörkina í Innri-Mongólíu. Orkubloggarinn getur vitnað um að Innri-Mongólar eru afar meðvitaðir og stoltir af uppruna sínum. Ein bekkjarsystir bloggarans úr MBA-bekknum í Köben var einmitt frá þessu merkilega héraði á mörkum Kína og Mongólíu. Hvort hún He Mi er spennt fyrir þessu sólarorkuveri í sínu heimahéraði er svo allt annað mál.
Planið er að fyrsti áfangi versins verði 30 MW og honum verði lokið jafnvel strax á næsta ári (2010). Áfangar 2-4 hljóða svo upp á 100 MW, 870 MW og 1.000 MW og þetta á allt að verða risið innan áratugar eða árið 2019. Sala á raforkunni verður tryggð með niðurgreiðslum frá stjórnvöldum. Vonandi að rykið frá eyðimerkur-sandstormunum stúti ekki þessum laglegu sólarsellum.
Vegna stærðarinnar á þessu rosalega sólarorkuveri, er First Solar nú að spekúlera í að reisa sólarselluverksmiðju við Ordos. Samtals þarf hátt í 30 milljón þunnsellur í þetta ljúfa dæmi og heildarflatarmál landsvæðisins undir þær allar verður litlir 65 ferkm. Það slagar í stærð Þingvallavatns – eða er réttara sagt rúmlega 3/4 af flatarmáli vatnsins. Svona til viðmiðunar.
Michael Ahearn, sem ennþá er forstjóri First Solar þrátt fyrir margboðaðar breytingar þar á, er eðlilega drjúgur yfir þessum samningi við Kínverjana. Í reynd er þó einungis um viljayfirlýsingu að ræða. Og eins og Húsvíkingar vita manna best er svoleiðis plagg varla pappírsins virði. Það er sem sagt ennþá allsendis óvíst að eitthvað verði úr þessum metnaðarfullu áformum um risastórt sólarsellu-orkuver í Innri-Mongólíu.
Enda er þetta kannski álíka kjánaleg – eða jafngóð – hugmynd eins og risastórt álver við Húsavík. Það skemmtilegasta er auðvitað að báðar þessar hugmyndir byggja á því að bygging orkuvera í þessum tveimur löndum – Kína og Íslandi – hefur lítið með venjuleg viðskiptalögmál að gera. Heldur er um að ræða pólitískar ákvarðanir sem aðallega byggjast á niðurgreiðslum stjórnvalda og þar með almennings. Bæði íslenskum og kínverskum pólitíkusum finnst það bráðsnjöll hugmynd að taka rándýrar ákvarðanir um virkjanir eða rafmagnssölu, sem almenningur situr uppi með.
Nú er upplagt fyrir lesendur Orkubloggsins að opna veðbanka: Hvort mun rísa fyrr; sólaraselluverið við Ordos eða álverið við Húsavík? Tromm, tromm, tromm…
.