Peak oil, sagan – Mannleg geta, rafmagnshjól

Grein/Linkur:   Er Peak Oil afstaðið?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Nóvember 2009

Er Peak Oil afstaðið?

Usain_Bolt_958

Usain_Bolt_958 -SMELLA Á MYNDR TIL AÐ OPNA

Í ágúst sem leið var heimsmetið í 100 metra hlaupi karla slegið. Og það svo um munar; 9,58 sekúndur! Þarna var á flugferðinni Usain Bolt  frá Jamaica.

Orkubloggarinn veit vart skemmtilegra sjónvarpsefni en að horfa á slíkan viðburð í beinni útsendingu. Og er t.d. enn í fersku minni þegar Ben Johnson stakk Carl Lewis  af og hljóp á nýju heimsmeti á Ólympíuleikunum í Seúl 1988. Allir vita að Johnson var svo sviptur gullinu vegna lyfjaneyslu. Mikið drama.

100_meters_WR

100_meters_WR

Því hefur lengi verið spáð að mannkynið sé komið að þolmörkum  í spretthlaupum. Að heimsmetið í 100 metra hlaupi hreinlega verði ekki bætt. Eitt sinn sáu menn 10 sekúndur sem hin endanlegu mörk, allt þar til Jim Hines hljóp á 9,95 á Ólympíuleikunum í Mexíkó í október 1968. Lengi vel leit út fyrir að þetta heimsmet – 9.95 sek – yrði hið endanlega met í 100 m hlaupi. En svo kom Calvin Smith og hljóp á 9,93 árið 1983. Og þrátt fyrir að metið yrði enn bætt nokkrum sinnum næstu árin, hefðu líklega fáir trúað því fyrir örfáum árum að árið 2009 yrði vegalengdin hlaupin á undir 9,6 sekúndum! En nú er metið sem sagt 9,58. Og Bolt hreinlega búinn að slátra spekinni um rólega þróun 100 m heimsmetsins.

Þetta minnir mann á að hæfni mannsins er með ólíkindum. Þetta minnir Orkubloggarann líka á það að í áratugi hafa ýmsir spáð því að hámark olíuframleiðslu væri að bresta á. Að brátt yrði ekki lengur nógu mikil olía til að mæta eftirspurninni. Menn hreinlega kæmust ekki lengra í olíuvinnslu.

oil-discoveries_top1964

oil-discoveries_top1964

Slíkar spár eru ekkert nýjabrum. Þær hafa fylgt olíuiðnaðinum meira eða minna nánast allt frá upphafi bílaaldar. En sjaldan hafa spámenn um yfirvofandi peak-oil verið sannfærðari en á allra síðustu árum. Það er ekkert skrítið. Þegar svartsýnismenn horfa á línuritin sem sýna gríðarlegan vöxt í olíunotkun heimsins og stöplaritin sem sýna hversu hægt gengur að finna nýjar olíulindir, er óneitanlega freistandi  að hlaupa æpandi út á torg: „The Oil Age is over. We are all doomed!!“

En ef þeir sömu myndu aðeins staldra við kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Í fyrsta lagi eru menn ennþá að finna nýjar risalindir. Lindir með óhemju magni af olíu – sem verður að vísu mun dýrara að sækja heldur en eplin sem við höfum hingað til verið að tína af neðstu greinunum en segir okkur samt að enn er af nógu að taka.

Í öðru lagi er mögulegt að hið ógurlega peak-oil kunni þegar að vera að baki. Að eftirspurn eftir olíu hafi náð hámarki – ever! Og það bæði í gömlu Evrópu og hjá sjálfum olíufíklunum í Bandaríkjunum! Þetta er að vísu ekki hið hefðbundna peak-oil, sem dómsdags-spámennirnir óttast svo mjög. Sem felst einfaldlega í því að ekki sé lengur unnt að auka framboð af olíu af því lindirnar séu endanlega að tæmast. Nei – þvert á móti virðist sem eftirspurnartoppnum kunni að vera náð.

EIA_Liquid_Fuels_August_2009

EIA_Liquid_Fuels_August_2009

Eftirspurn eftir olíu og öðru fljótandi eldsneyti náði nýju hámarki árið 2008. Að sumra mati mun þetta metár aldrei verða slegið – héðan í frá muni þörfin á olíu og öðru fljótandi eldsneyti verða minni en þessi miklu nýliðnu uppgangsár 2005-08.

Ef satt reynist eru þetta óneitanlega talsverð tíðindi – svo ekki sé fastar að orði kveðið. Kenningin byggir vel að merkja ekki á því að heimurinn sé fallinn í eilífðarkreppu. Heldur að samfélagsbreytingar séu að eiga sér stað, sem munu draga úr eldsneytisnotkuninni.

EIA_2009_OilPrices_1980-2030

EIA_2009_OilPrices_1980-2030

Aðalatriðið í þessari kenningu er að þetta tákni  í raun sigur tækniþróunarinnar. Að tæknin þróist í þá átt sem er best og hagkvæmast fyrir okkur mannfólkið og að sú þróun eigi sér stað áður  en við lendum í verulegum vandræðum með núverandi tækni. Samdráttur í olíuframleiðslu muni sem sagt hvorki leiða til efnahagshruns né hnignunar siðmenningar, heldur komi þessi samdráttur í eldsneytisnotkun til vegna t.d. sparneytnari ökutækja, meiri útbreiðslu rafmagnsbíla og -hjóla, nýrra lestarkerfa í mörgum stórborgum o.s.frv.

Það er vel þekkt að sum Evrópuríki hafa fyrir all löngu náð hámarki í eftirspurn sinni eftir olíu. Jafnvel þrátt fyrir þokkalega fólksfjölgun og efnahagsuppgang hefur notkun á fljótandi eldsneyti minnkað á síðustu árum í nokkrum löndum Evrópu – þar þurfti enga kreppu til. Danmörk er nærtækt dæmi.

En þróunin í Bandaríkjunum skiptir öllu meira máli en hjá Evrópumönnum. Bandaríkjamenn hafa um langt skeið verið hinir einu sönnu olíufíklar. Nú virðast sumir olíuspámenn telji að notkun Bandaríkjamanna á olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki. Hvernig má það vera? Bandarísku þjóðinni er enn að fjölga umtalsvert. Hlýtur þessi ofboðslega neysluþjóð ekki að þurfa meira af fljótandi eldsneyti?

Hummer_Prius_2

Hummer_Prius

Svarið við þeirri spurningu byggist ekki á sérstaklega djúpri speki: Kannski. Eða kannski ekki. Kannski er toppnum náð í olíuneyslu Bandaríkjamanna.

Skýringin á því að toppnum kann að vera náð í olíunotkun Bandaríkjanna felst aðallega í mikilli og góðri lyst Bandaríkjamanna á sparneytnari bílum. Og sá áhugi mun aukast ennþá meira ef olíuverð fer hækkandi. Slík umskipti frá SUV-menningunni (sem Orkubloggið vill reyndar einfaldlega kalla jeppa-menningu) myndu draga verulega úr olíunotkun í Bandaríkjunum. Þess vegna er mögulegt að notkun Bandaríkjamanna á olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi í reynd náð toppi.

Bandaríkjamenn nota hvorki meira né minna en um 25% af allri olíu sem framleidd er í heiminum! Samdráttur í olíunotkun þar gæti þýtt samdrátt á heimsvísu.

China_crowd

China_crowd

En hvað með vöxtinn í Kína og annars staðar í Asíu? Þar er miklum efnahagsuppgangi spáð á næstu árum og áratugum og langt í að bílaeign almennings í Kína verði sambærileg við það sem gerist hér í vestrinu. Hlýtur efnahagsuppgangurinn í Asíu og efling millistéttarinnar þar ekki örugglega að leiða til ennþá meiri olíunotkunar í heiminum? Erum við hvort sem er doomed út af uppganginum í Asíu?

Þetta gæti verið svo. Talsverðar líkur eru á að efnahagsuppgangur hjá Kínverjum og nágrönnum þeirra muni valda því að eftirspurn eftir fljótandi eldsneyti eigi eftir að fara langt yfir þær 85 milljón olíutunnur, sem heimurinn hefur undanfarið brennt á hverjum degi (kreppan hefur reyndar líklega minnkað eftirspurnina í ca. 83 milljón tunnur eða svo).

Á móti kemur að þróunin á ökutækjaeign í Kína verður hugsanlega allt öðru vísi en varð hér í Vestrinu. Þó svo hinir efnaðri í Kína fái sér vissulega stóra og kraftmikla bíla, þá mun hinn dæmigerði meðal-Kínverji mögulega horfa allt annað. Og olíueftirspurn af þeim sökum hugsanlega aukast mun hægar í Kína en margir hafa spáð. Jafnvel ennþá hægar en sem nemur samdrætti í olíueftirspurn Evrópu og Bandaríkjanna.

China_Electric_Bikes

China_Electric_Bikes

Í Kína er að verða sprenging í eftirspurn eftir rafmagnshjólum. Ekki mótorhjólum heldur rafmagnshjólum. Þetta hefur valdið því að orkuspáteymið hjá CERA, sem Orkubloggið hefur að sjálfsögðu áður minnst á, er nú sagt  hafa snúið við blaðinu. Skipt um skoðun. Að þeir hjá CERA „viðurkenni“ nú að peak-oil sé skollið á! Eftirspurnartoppurinn vel að merkja.

Samkvæmt fréttinni þá telja þeir hjá CERA sem sagt að heildareftirspurn eftir fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki og að það hafi gerst 2008.

cera_james_burkhard_2

cera_james_burkhard

CERA-menn munu enn fremur nú vera komnir á þá skoðun að eldsneytisnotkun Kínverja muni ekki fara í sama farveg eins og á Vesturlöndum. Þar verði einkabíllinn ekki málið heldur muni kínverski samgöngugeirinn senn einkennast af nýrri tækni. Fyrst verði þar mikil aukning á notkun rafmagnshjóla. Og þegar svo kemur að því að kínverski fjöldinn getur tekið næsta neysluskref og stækkað við sig, verði komin ný tækni sem muni ekki kalla á fljótandi jarðefnaeldsneyti.

Þetta þýðir þó ekki að CERA búist við lækkandi eða stöðugu olíuverði. Öðru nær. Ljúflingarnir þar á bæ, með eldsneytis-spámanninn unga James Burkhard  í fararbroddi, telja skv. fréttinni nánast öruggt að eftir 3-5 ár verði gríðarlegar hækkanir á olíuverði. Jafnvel þrátt fyrir minnkandi heimseftirspurn. Framleiðslan muni einfaldlega ekki ráða við það að mæta framboðinu og það muni þrýsta verðinu upp. Ekki aðeins í skyndilegri og tímabundinni stíflu heldur til langframa.

CERA_Peak_Oil_slide_2009

CERA_Peak_Oil_slide_2009

Umrædd skoðun CERA kom fram í kynningu áðurnefnds James Burkhard á samgönguráðstefnu, sem fór fram hjá Center for Strategic and International Studies (CSIS) vestur í Washington DC. Þessi slæda Burkhard's frá kynningunni sýnir reyndar einungis eftirspurnina í Bandaríkjunum, en af upptöku af fundinum má vera augljóst að Burkhard telur hámarkseftirspurn einnig vera náð á heimsvísu. Það að CERA-menn séu komnir á þessa línu eru talsverð tíðindi.

Þetta er vissulega bara skoðun eins manns og skiptir svo sem engu. Og hafa ber í huga að ljúflingarnir hjá CERA eru ekki óskeikulir frekar en aðrir menn. Til samanburðar mætti nefna að spáteymi Alþjóða orkustofnunarinnar (IEA) telur allt stefna í að árið 2050 verði olíueftirspurnin 70% meiri en er í dag. Sem sagt enginn eftirspurnartoppur í sjónmáli þar á bæ.

Orkublogginu þykir ennþá full snemmt að gæla við það að eftirspurn eftir olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki. Við þurfum auðvitað að „aka áfram“ aðeins lengra svo við getum fullvissað okkur um þetta í baksýnisspeglinum. En Orkubloggið er engu að síður sammála því að olíuvinnslan er víða að verða ansið dýr. Þess vegna er svo sannarlega tímabært að við förum að draga úr olíunotkun og halla okkur í auknum mæli að öðrum orkugjöfum.

Biofuels_Pump

Biofuels_Pump

Fjölmargir hvatar leggjast á eitt að flýta þessari þróun. Dýrari olíuvinnsla, kolefnisskattar og umhverfissjónarmið. Enn er þó langt í land með að ný tækni leysi olíu af hólmi sem eldsneyti í samgöngugeiranum. Þess vegna verðum við öll á valdi olíunnar enn um sinn. Hugsanlega mun lengur en við kærum okkur um.

En það skemmtilega er að þessi þróun veitir Íslendingum ný tækifæri. Ef olíuverð helst áfram hátt verður hagkvæmt fyrir ríki með mikla endurnýjanlega orku, að framleiða hráolíu úr lífmassa. Þessi áhugaverða tækni til framleiðslu á vistvænu, hagkvæmu og orkuríku eldsneyti, sem getur leyst hefðbundið bensín, díselolíu og flugvélabensín af hólmi, kann brátt að að verða raunhæfur kostur í eldsneytisframleiðslu. Þá gæti Ísland orðið fyrsta landið í heiminum til að fullnægja allri sinni orkueftirspurn með vistvænni og endurnýjanlegri orkuframleiðslu.

Fleira áhugavert: