Vantaði brunaviðvörunarkerfi – Eigandi ber ábyrgð á tjóni
Grein/Linkur: Ófullnægjandi brunavarnir kosta félag 54 milljónir
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Nóvember 2021
Ófullnægjandi brunavarnir kosta félag 54 milljónir
Landsréttur hefur staðfest dóm þess efnis að Þríforkur ehf. skuli bera 25% af 218.470.500 króna endurbyggingakostnaði á bátasmiðju sem brann til kaldra kola í maí 2017. Var talið að forsvarsmenn bátasmiðjunnar hefðu ekki gætt þess að brunavarnir í húsinu hafi verið í lagi.
Þríforkur var með lögboðna brunabótatryggingu hjá Sjóva sem krafðist þess að félagið myndi bera helming tjónsins sjálft í ljósi ófullnægjandi brunavarna. Þegar húsið brann var talsvert magn eldfimra og eldhvetjandi efna sem urðu til þess að eldurinn varð umfangsmeiri en ella.
Endurbygging húsnæðisins hafin
Fasteignin í málinu var 2.200 fermetrar að stærð og staðsett í Goðanesi á Akureyri. Reyklykt lagði yfir allan Akureyrarbæ nóttina sem húsið brann en mikill eldsmatur var í húsinu vegna eðlis starfseminnar. Endurbygging er nú þegar hafin.
Í matsgerð kom fram að brunavarnir í húsinu hafi ekki verið „í samræmi við hönnun, kröfur viðeigandi laga og reglugerða, kröfur um eldvarnir og eldvarnaeftirlit og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem var í húsinu“.
Slökkvilið Akureyrar framkvæmdi eldvarnarskoðun á bátasmiðjunni í maí 2016 en við þá skoðun voru alvarlegar athugasemdir gerðar við það að brunahólfun væri ekki í samræmi við samþykktar teikningar. Auk þess hafi brunaviðvörunarkerfi vantað en forsvarsmönnum veittur mánaðarlangur frestur til úrbóta.
Vildu trygga geymslu eldfimra efna
Sjóvá framkvæmdi úttekt á húsnæðinu í apríl 2016 og benti þar sérstaklega á að útbúin skyldu sér brunahólf til geymslu eldfimra efna. Forsvarsmenn hússins virðast ekki hafa sinnt því en matsmaður taldi öruggt að eldurinn hefði orðið umfangsminni ef eldfim efni hefðu verið geymd í sér brunahólfi.
„Ef sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi tengt varðstöð hefði verið í húsinu, svo sem ráð var gert fyrir á samþykktum aðaluppdráttum af húsinu, hefði það greint reyk strax í upphafi og sent slökkvilið af stað. Hvort það hefði haft afgerandi áhrif á framvindu brunans og endanlega útkomu sé ómögulegt að segja,“ segir í dóminum en að lokum voru bætur eiganda fasteignarinnar skertar um fjórðung vegna brota á varúðarreglum.