Evrópa, gasverð +400% – Tækifæri í útflutning

Grein/Linkur:  Hækkun orku­verðs í Evrópu skapar færi í út­flutningi græn­metis

Höfundur: Björn Þorláksson

Heimild:

.

.

Nóvember 2021

Hækkun orku­verðs í Evrópu skapar færi í út­flutningi græn­metis

Verð á gasi til grænmetisframleiðslu í Danmörku og Hollandi hefur fjórfaldast. Staðan skapar tækifæri fyrir útflutning á grænmeti, að mati Bændasamtakanna.

Margföldun gæti orðið á gúrkuframleiðslu hérlendis þar sem hyllir undir stórfelldan útflutning og ný tækifæri. Ástæðan er stökkbreyting orkuverðs í Evrópu. Gas, sem auk olíu er mikið notað til grænmetisframleiðslu í Danmörku og Hollandi, hefur hækkað um ríflega 400 prósent á innan við hálfu ári. Það leiðir til opnunar markaðstækifæra fyrir útflutning frá Íslandi.

Bændablaðið hefur greint frá áformum um stórfelldan útflutning á íslenskum gúrkum til Danmerkur. Þar eruframleiðendur að týna tölunni vegna hækkandi orkuverðs til framleiðslunnar. Vantar Dani fleiri gúrkur á diskinn sinn.

Axel Sæland, Búgreinadeild garðyrkju Bændasamtakanna, segir enga spurningu að þetta skapi mikil tækifæri fyrir íslenska grænmetisbændur.

„Neytendur leita í auknum mæli eftir grænni vöru og það er ekkert launungarmál að bróðurparturinn af grænmetisframleiðslu í Evrópu er kyntur með gasi eða olíu. Neytendur eru mjög meðvitaðir um það,“ segir hann.

Axel segir að í ljósi þess að verð á gasi hafi hækkað um ríflega 400 prósent á innan við hálfu ári, bæði í Danmörku og Hollandi, segi það sig sjálft að tækifæri til útflutnings hafi gjörbreyst.

„Við höfum vatn, ódýrari orku en flestir aðrir og íslenska náttúru þar sem veturinn sótthreinsar umhverfið,“ segir Axel.

.

.

Á meginlandi Evrópu sé aftur viðvarandi að skordýravá ógni rækt í gróðurhúsum. Skordýrin reyni að komast inn í gróðurhúsin og geti valdið miklum skaða.

„Sú ógn er ekki til staðar hér, sem gerir okkur kleyft að framleiða heilbrigða vöru. Notkun varnarefna er líka fáheyrð hér, það eru dæmi um að garðyrkjustöðvar noti engin efni.“

Ljóst er að margfalda þyrfti framleiðslu á íslensku grænmeti ef áform verða að veruleika. Áður hafa komið fram hugmyndir um risaframleiðslu, ekki síst á Reykjanesi og við Hellisheiðarvirkjun. Hugað hefur verið að því að nýta aukaafurðir orkuvera en fyrst nú er kannski raunveruleg markaðsopnun að eiga sér stað, að sögn Axels.

Ekki þyrfti nema eina stóra keðju til að sýna íslensku gúrkunni, sem þykir úrvalsvara, eða öðru íslensku grænmeti áhuga, til að gjörbreyta forsendum matvælaræktar. Stækka þyrfti stærstu gróðurhúsin hér á landi tífalt. Fara úr 10.000 fermetrum í 100.000 fermetra.

Fréttablaðið greindi á sínum tíma frá félaginu Paradise Farms sem í samvinnu við sveitarfélagið Ölfus gekk frá viljayfirlýsingu um að félagið fengi leigða allt að 50 hektara lands sem ætlaðir yrðu undir vistvæna matvælaframleiðslu og þá sérstaklega stór gróðurhús.

Framleiða átti tómata, kál, paprikur og annað hefðbundið grænmeti en bæta við framleiðslu á mangói, avókadó, bönunum, papaja og fleiru, sagði um áformin í fundargerð sveitarstjórnar Ölfuss.

Þá komu upp hugmyndir um að gera Ísland að „matvælalandi heimsins“, eins og Gunnar Þorgeirsson, formaður Félags garðyrkjubænda og nú formaður Bændasamtakanna, orðaði það í samtali við Fréttablaðið. Er ljóst að vaxandi stemning er nú fyrir þessari framtíðarsýn.

Í Bændablaðinu segir að útrás á íslensku grænmeti á erlenda markaði hafi þegar skilað árangri í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. Fyrirtækið Pure Arctic og Sölufélag garðyrkjumanna eru sögð leiða áformin um markaðsátak grænmetis á erlendri grundu

Fleira áhugavert: