Plastlagnir – Plastið á stórmerka sögu

Grein/Linkur: Plastið á stutta en stórmerka sögu

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Desember 1993

Plastið á stutta en stórmerka sögu

Hér áðurfyrr fengum við efni lánuð frá náttúrunni til að smíða úr verkfæri og aðra nytjahluti. Já, „lánuð“ er í raun rétta orðið því að í raun tókum við efnin, smíðuðum úr þeim, en þau fengu að halda sínum eiginleikum áfram. Stóllinn var áfram tré og föðurlandsbuxurnar ull. Eftir notkun var þeim kastað og náttúran tók aftur við þeim. Þá hófst langur ferill umbreytinga og að lokum óx aftur tré á jörðu og ull á kind.

Svo kom að því að mannsandinn náði valdi yfir efniseindunum. Það tókst að breyta þeim, brjóta þær upp, tengja og raða á nýjan hátt. Meira að segja tókst að breyta gasi í föst efni.

Og þar með hófst öld plastsins.

Plastið útrýmir aldrei náttúrulegum efnum svo sem málmum, gleri, bergi, ull eða bómull. En plastið gefur okkur nýja möguleika.

Hvers vegna?

Jú, það er auðvelt að forma, það ryðgar ekki, það gefur nýja möguleika á notkun lita, það er oft hægt að bræða upp og forma að nýju.

Plastið er allstaðar

Gerðu þá tilraun að „hugsa plastið í burtu“. Tannburstinn er horfinn, engin seta á klósettinu, rafleiðslurnar berar og gosið og tómatsósan runnin út um allt. Frárennslisrörin horfin úr húsinu og það er eins og gerð hafi verið árás á bílinn þinn. Stórrýrnun í klæðaskápnum, sérdeilis hjá konum.

Hver getur ímyndað sér að hægt sé að vera án plaströra í dag?

Hérlendis byrjuðum við að nota plaströr fyrir alvöru á sjötta áratugnum. Þá hóf Reykjalundur að framleiða plaströr úr efninu polyeten. Þau rör þekkja allir, svört plaströr sem notuð hafa verið hvarvetna um land í kaldavatnsveitur.

En plastefni sem notuð eru í rör eru fjölmörg og kannske verður einum pistli varið til að nefna þau helstu.

En einhvernveginn byrjaði þetta alltsaman.

Saga plastsins í stuttu máli

Hvar skal byrja?

Við skulum stöðvast við billiardborðið árið 1860. Kúlurnar, sem fram að því höfðu verið notaðar í billiard, voru gerðar úr fílabeini og því rándýrar auk þess sem það efni lá ekki alltaf á lausu, sem betur fer.

Þá gerðist það að ungur bandarískur efnafræðingur, J.W. Hyatt að nafni, byrjaði að grúska. Og honum tókst að búa til nothæfa billiardkúlu úr „gerviefni“. Plastið var komið til sögunnar en ekki skulum við gleyma því að orðið „plast“, sem mun komið úr grísku, er samheiti yfir geysilega mörg efni.

Efnið sem Hyatt notaði var sellúlóíð og í framhaldi var byrjað að framleiða ýmsa smáhluti, einkum dúkkur. Það er svolítið broslegt að efnið fór að draga nafn sitt af framleiðslunni. Þeir sem komnir eru á efri ár muna líklega margir eftir að hafa heyrt talað um að hlutir væru úr „beibí“. Var þessi orðnotkun kannske séríslenskt fyrirbrigði?

Árið 1909 starfaði í Bandaríkjunum maður að nafni Leo. H. Baekeland (var þó Belgi eins og Poirot). Honum tókst að þróa sprautusteypu plasts og framleiðslu sína nefndi hann bakelite í höfuðið á sjálfum sér.

Það gerði Mason líka, þegar hann fór að framleiða veggjaplötur með plasthúð, en margir þekkja masónítplöturnar.

Harðplastplötur þykja nú sjálfsagðar í innréttingar, sérstaklega í eldhúsum. Þær eru þó ekki nýjar af nálinni. Eftir fyrra stríð, um 1918, byrjuðu Svíar að framleiða Perstorp plöturnar sem mikið hafa verið notaðar hérlendis.

Eftir 1920 tók þróun plastsins stökk fyrir tilverknað Hermanns Staudinger, efnafræðings við háskólann í Freiburg í Þýskalandi. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í efnafræði 1953.

Í og uppúr heimskreppunni, um 1930, verða framfarir í framleiðslu og notkun plastefna stórstígar. Þá kom fram plastið PVC. Það þekkjum við flest sem appelsínugulu rörin sem notuð eru í grunnlagnir. Svíar byrja á árum seinni heimsstyrjaldar að nota akryl í málningu og lakk.

Eitt frægasta plastefnið, nælon, kom fram á sjónarsviðið 1938 í Bandaríkjunum. Það er notað í fjölmarga hluti, allt frá digrum köðlum til kvensokka. nælonsokkar kvenna fóru sem eldur í sinu um hinn vestræna heim eftir stríð og urðu ábatasamasti smyglvarningur hingað til lands á haftaárunum.

Faðir nælonsins var William H. Carrothers hjá stórfyrirtækinu DuPont.

England er móðurland polyetens, þess plastefnis sem við hérlendis þekkjum best og höfum áralanga góða reynslu af sem lagnaefni í flestum vatnsveitum landsins og á síðari árum í fjölmörgum snjóbræðslukerum.

Ekki er hægt að ljúka þessu spjalli án þess að nefna tvö stórmenni plastsins, ítalann Gulio Natta og Þjóðverjann Karl Ziegler. Þeirra framlag var ekki að uppgötva nein ný efni heldur þróuðu þeir nýjar aðferðir í framleiðslu. Þeir skutu nýjum grunni undir nútíma framleiðslu úr plasti og ekki síður opnuðu þeir nýjar víddir í notkunarmöguleikum plastefna.

Þeir fengu báðir Nóbelsverðlaunin í efnafræði 1963.

1.

Flibba úr sellúlóið þurfti ekki að strauja enda eins gott; þeir voru eldfimir.

2.

Það kann að hafa bjargað skjaldbökunni frá útrýmingu að hárkambar og greiður úr plasti komust í tísku.

3.

Kannan er enn úr pjátri en handfangið úr plasti (bakelite).

4.

Brúðuhöfuð úr sellúlóíði sem stundum var kallað „beibí“.

Fleira áhugavert: