Hver fann upp postulínið og úr hverju er það?

Grein/Linkur:  Af hverju eru salerni oftast úr postulíni?

Höfundur: Unnar Árnason

Heimild: 

.

.

Júlí 2003

Af hverju eru salerni oftast úr postulíni?

Hér er einnig svarað spurningunni:Hver fann upp postulínið og úr hverju er það?

Postulín er ekki ýkja gömul uppfinning en talið er að það hafi fyrst verið framleitt í Kína á valdatíma Tangættarinnar (618-907). Líklegt þykir að það hafi fengið á sig það form sem þekktast er á Vesturlöndum meðan hin mongólska Yuanætt (1279-1368) réð ríkjum.Postulín skiptist í þrjár megingerðir: harðpostulín, mjúkt postulín og beinpostulín. Harðpostulín er hin upprunalega, kínverska gerð og nefnist ‘hard-paste’ eða ‘true porcelain’ á ensku. Það er gert úr blöndu af feldspati, nánar tiltekið einni tegund þess sem kallast petuntse, og kaólíni sem einnig gengur undir því viðeigandi nafni postulínsleir. Blandan er fyrst mulin og mótuð en síðan brennd við 1400-1500°C. Við brunann glerjast feldspatið en kaólínið sér til þess að lögun hlutarins haldi sér.

Evrópubúar gerðu ítrekaðar tilraunir til að komast að leyndarmálinu að baki harðpostulíni til að þurfa ekki að reiða sig alfarið á innflutning þess frá Kína. Það tókst þeim ekki fyrr en um 1707, þegar Þjóðverjarnir Johann Friedrich Böttger og Ehrenfried Walter von Tschirnhaus komust að sannleikanum. Ein tilraunin, framkvæmd í Flórens árið 1575, hafði áður leitt af sér mjúkt postulín (e. soft-paste eða artificial porcelain). Það er blanda úr kaólíni (postulínsleir) og tilbúnum mulningi, til dæmis úr gleri, sandi eða kalki, sem er brennd við lægra hitastig en harðpostulín, 1200-1300°C.Beinpostulín (e. bone china) kom til sögunnar um 1800 á Englandi þegar Josiah Spode bætti beinaösku við uppskriftina að harðpostulíni. Beinaaskan kemur í veg fyrir að flísist úr postulíninu, sem vill gerast með harðpostulín.

Beinpostulín er vinsælasta gerðin á Bretlandi og í Bandaríkjunum, en harðpostulín er algengara á meginlandi Evrópu.Postulín er til margra hluta nytsamlegt. Það hefur mikið verið notað í borðbúnað og vasa (samanber Mingvasana sem alltaf er verið að brjóta í kvikmyndum), auk listmunagerðar ýmiskonar.Ýmsir frægir postulínsframleiðendur hafa gert styttur, ýmist úr hörðu eða mjúku postulíni. Postulín er einnig mikið notað til einangrunar í raftækjum, í þéttum, öryggjum og við smíði gervitanna, svo nokkuð sé nefnt.

Daglega verður fólk þó líklega oftast vart við postulín inni á baðherbergjum og salernum en steypt postulín er vinsælasta efnið við framleiðslu vaska og klósettskála.
Eins og fram kemur í svari Elísar Svavarssonar og undirritaðs við spurningunni Hver fann upp vatnsklósettið? Hvenær og hvar var það? voru fyrstu nútímaklósettin úr málmi. Þau reyndust erfið í þrifum, óhreinindin sem óhjákvæmilega fylgja klósettferðum, áttu til að safnast upp með óviðurkvæmilegum afleiðingum.Postulín, og þá sérstaklega harðpostulín, er hinsvegar auðvelt að þrífa og óhreinindi setjast mun síður á það. Talið er að fyrsta postulínsklósettið hafi verið smíðað á áttunda áratug 19. aldar af fyrirtæki Englendingsins Thomas Twyfords. Leiknin við að steypa úr leir og postulíni jókst síðan sífellt á 19. og 20. öld og framleiðslugetan einnig.

Þannig er líklegast að efnahagslegar og tæknilegar forsendur hafi ráðið mestu um það að postulín varð svo vinsælt efni til klósett- og vaskagerðar sem raun ber vitni: Það hentar einfaldlega betur til þessa brúks en önnur þekkt efni sem eru álíka dýr.

Heimildir og myndir:

  • Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
  • Íslensk orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002
  • Grein um postulín (porcelain) á vefsetri Encyclopædia Britannica
  • Mynd af borðbúnaði á vefsíðunni Traditions Fine Porcelain China
  • Mynd af Mingvasa af www.chungton.com.tw, verð 300.000 bandaríkjadalir…
  • Mynd af Thos. Maddock’s Sons klósettinu af síðunni Historic Houseparts, verð 160 bandaríkjadalir…

Fleira áhugavert: