Noregur, orkuverð – Svimandi verðhækkun

Grein/Linkur:  Orkuverð í Noregi himinhátt

Höfundur: RÚV

Heimild:

.

Smella á skjal til að opna umfjöllun á RÚV – Mynd: Ljósmyndari: Karen Marie Straum / NVE.no

.

Október 2021

Orkuverð í Noregi himinhátt

Rafmagn hefur verið dýrara í Noregi í haust en nokkru sinni áður í sögunni. Talað er um allt að tíföldun á verði frá í fyrra. Og verðið sveiflast svo mikið að venjulegt fólk sundlar að sögn við að horfa á rafmagnsmælana.
.

Rafmagn ekki bara rafmagn

Norðmenn eru að vakna upp við þann vonda draum að rafmagn er ekki lengur bara rafmagn sem rafveitan skilar inn í innstungur í herbergisveggjunum. Gísli Kristjánsson fréttaritari í Noregi segir það ekki lengur sjálfsögð lífsgæði eins og loftið sem menn anda að sér og hrökkbrauðið sem  þeir bryðja kvölds og morgna. Rafmagn er afar flókin, dýr, og jafnvel sjaldgæf verslunarvara. Engum tilgangi þjónar lengur að spyrja eðlisfræðinga um eðli rafmagnsins, þar er bara á færi færustu hagfræðinga að skilja það sem áður var ekki einu sinni vert að spyrja um.

Svimandi verðhækun á svipstundu

Hvernig á að skýra það að á einni nóttu er reikningurinn fyrir að hafa velgju á einum rafmagnsþilofni í herberginu orðinn 1000 krónur – það er reiknað sem íslenskar krónur. Og þetta gerist bara núna í haust. Til skamms tíma þótti ekkert mál að borga 2 eða 4 krónur norskar fyrir kílóvattstundina. Enginn fann upp á að gerast rafveitustjóri á sínu heimili til að spara féeinar kílóvattstundir, sem hvort eð er kostuðu nær ekkert.

Ráðlagt að baða sig utan álagstíma

En nú er öldin önnur. Verð hefur tífaldast á skömmum tíma. Og verðið sveiflast ótt og títt, ekki bara frá degi til dags heldur líka frá morgni til kvölds. Fyrir fáum dögum var upplýst að heitt sturtubað að morgni gæti kostað allt að 200 íslenskar krónur á mann á heimilinu. Engin Hitaveita Reykjavíkur á staðnum og allt vatn því hitað upp með rafmagni. Fólki því ráðlagt að baða sig seint að kveldi því þá væri rafmagnið ódýrara og jafnvel að nóttu því þá væri verð í lágmarki.  Það er morgunbaðið, morgunkaffið, morgungrauturinn og morgunútvarpið sem spennir rafmagnsverðið upp úr öllu valdi og tífaldar útgjöldin – nema menn sofi bara til hádegis og bíði af sér stóru kúrfuna í orkueyðslunni.

Fylgjast með orkunotkun og útgjöldum í rauntíma

Og í krafti nútímatækni er hægt að fylgjast með, frá mínútu til mínútu, hve mikið heimilið verður að gjalda fyrir orkuna. Samviskusamir heimilisfeður geta gerst rafveitustjórar á sínu heimili og fylgst með orkunotkun og útgjöldum í rauntíma. Að vísu kostar sá búnaður nokkur útgjöld í rafmagni.

Dýrara sunnan Dofrafjalla

Hér til lands er líka mikill munur á orkuverði eftir landshlutum. Fólk norðan Dofrafjalla borgar ekki meira en áður. Verst er ástandið sunnanlands og vestan og þó eru allar stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins á því svæði.

Veðurfar og vatnsbúskapur hefur áhrif á verð

Flestir vilja því fá svar við spurningunni: Hvað gengur eiginlega á? Og þá ýta hagfræðingarnir eðlisfræðingunum til hliðar við rafmagnsmælana. Hátt raforkuverð núna er afleiðing af flóknu samspili margra þátta. Fyrsta: sumarið var mjög þurrt og því eru uppistöðulónin hálftóm eða hálffull eftir atvikum. Minna er framleitt af rafmagni en í meðalári. Annað er að raforkuverð í Evrópu er af sömu sökum hátt. Og við bætist að losunarkvótar fyrir koltvísýring eru dýrir og það hækkar raforkuverð. Mikið af rafmagni Evrópu er framleitt með kolum og gasi.

Norðmenn kaupa dýrt rafmagn sunnan úr álfu

Við þetta bætast sæstrengir til Evrópu; til Danmerkur, Þýskalands og nú Bretlands frá í haust. Norðmenn hafa undanfarin misseri grætt vel á að selja rafmagn til Evrópu – en svo er ekki nú. Þeir eru ekki aflögufærir um orku í kaplana. Þess vegna hefur dýrt rafmagn frá Evrópu verið flutt norður á bóginn og núna verða Norðmenn að kaupa meginlandsrafmagn dýru verði. Sæstrengirnir til Evrópu hafa bjargað landsmönnum frá orkuskorti og skömmtun í haust. Það kostar að kaupa rafmagn framleitt með gasi frá Evrópu. Þó hafa Norðmenn sjálfir framleitt slatta af þessu gasi sem þeir kaupa svo aftur sem rafmagn. Heimsviðskiptin láta ekki að sér hæða.

Norður frá sitja menn að sínu rafmagni og sænsku

En svo er spurning af hverju fólk norðan Dofrafjalla býr enn við lága verðið á rafmagninu meðan sunnanmenn horfa á budduna tæmast. Jú, þá kemur aftur að þessu sama, það vantar raflínur milli landshluta. Það hefur aldrei komist í verk að leggja afkastamiklar háspennulínur yfir fjöllin. Og svo njóta norðanmenn þess að þeir geta keypt ódýra vindorku af Svíum og bætt upp lítið vatn í uppistöðulónum hjá sér.

Fleira áhugavert: