Geislun fartölvur – Skaðleg áhrif á líkamann?
Höfundur: Jónína Guðjónsdóttir
.
.
Mars 2013
Hefur geislun frá fartölvum sem menn sitja oft með í kjöltunni einhver skaðleg áhrif á líkamann, til dæmis á framleiðslu sæðis?
Rafsegulgeislun fartölvu, til dæmis þegar hún er tengd þráðlausu neti, hefur fremur lága tíðni og flytur litla orku, minni en geislun frá farsímum og margfalt minni en til dæmis röntgengeislun.
Í rannsóknum á áhrifum rafsegulsviðs á frumur, meðal annars sæðisfrumur, hafa menn greint breytingar á starfsemi þeirra í tilraunaglösum, en það er hins vegar ekki hlaupið að því að sýna fram á áhrif rafsegulsviðs á menn. Það skýrist meðal annars af því hve margt annað í umhverfinu getur valdið sömu eða álíka einkennum. Einnig er rétt að hafa í huga að rafsegulgeislun af ýmsum uppruna er mjög algeng í umhverfi okkar.
Nokkur dæmi eru um að hiti frá fartölvu sem hvílir á lærum hafi skaðað húðina og valdið varanlegum húðroða. Slíkur roði kemur fram við langvarandi hita sem þó er ekki svo mikill að húð brenni. Að lokum má geta þess að aukinn hiti getur haft óhagstæð áhrif á sæðisframleiðslu.
Heimildir:
- Gye MC, Park CJ. Effect of electromagnetic field exposure on the reproductive system. Clin Exp Reprod Med 2012;39(1):1-9.
- Riahi RR, Cohen PR. Laptop-induced erythema ab igne: Report and review of literature. Dermatol Online J. 2012;18(6):5.
- Garolla A et al. Seminal and molecular evidence that sauna exposure affects human spermatogenesis. Hum Reprod. 2013 Feb 14. [Epub ahead of print].
Mynd: