Fiskeldi Stað Grindarvík – Borað þrjár sjóholur
Grein/Linkur: Samherji borar þrjár sjóholur í Grindavík
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Apríl 2020
Samherji borar þrjár sjóholur í Grindavík
Framkvæmdir við stækkun fiskeldisstöðvar Samherja á Stað í Grindavík voru í april 2020 og voru boraðar þrjár nýjar sjóholur í hrauninu við stöðina, að því er segir á vef Samherja.
Þar segir að um sé að ræða töluverða fjárfestingu til að auka afkastagetu stöðvarinnar og er það í takt við rekstrarleyfið sem Matvælastofnun veitti stöðinni í desember, en það fól í sér heimild til 3.000 tonna seiða- og matfiskeldi á laxi og bleikju. Var þetta stækkun úr 1.600 tonnum í fyrra leyfi. Auk þess er Samherji fiskeldi ehf. með 1600 tonna leyfi að Vatnsleysu.
4.000 tonn þegar framkvæmdum lýkur
Á Stað við Grindavík starfrækir Samherji bæði seiðastöð og áframeldi fyrir bleikju og eru sjóholurnar gerðar í þeim tilgangi að tryggja betur vatnsbúskapinn eftir stækkanir síðustu ára og undirbúa næsta áfanga stækkunar, að því er segir á vef fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að fiskeldið á Suðurnesjum muni geta framleitt tæplega 4.000 tonn af bleikju þegar framkvæmdum lýkur, að sögn Hjalta Bogasonar, rekstrarstjóra Samherja fiskeldis.
„Þetta mun auka afkastagetu fiskeldisstöðvarinnar umtalsvert en þetta er mikið vatnsmagn sem við erum að dæla. Þegar framkvæmdum lýkur mun stöðin geta dælt tveimur og hálfum rúmmetra af vatni á sekúndu,“ segir Hjalti.
Stærsti framleiðandinn á heimsvísu
Fram kemur að kviðpokaseiði eru flutt í seiðastöðina frá klakstöð fyrirtækisins að Núpum í Ölfusi. Seiðin eru síðan alin í seiðastöðinni í 10 til 12 mánuði eða þangað til þau hafa náð 100 grömmum að stærð. Þá eru þau flutt úr seiðastöðinni yfir í áframeldið sem er utandyra í kerum á landi. Þegar fiskur nær tilskilinni stærð er hann svo fluttur lifandi í sérútbúnum tankbílum til slátrunar og vinnslu í Sandgerði.
Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um 3.800 tonn árlega en það er tæplega helmingur allrar eldisbleikju sem er framleidd á heimsvísu.