Lettland – Orkan, ekki óþrjótandi

Grein/Linkur:  Komdu með til Lettlands

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – Wikipedia 30.09.2021

.

Febrúar 1994

Komdu með til Lettlands

Við fengum aðvörun. Orð í tíma töluð. Heita vatnið, sem rennur um ofan og úr krönum, er ekki óþrjótandi. Við höfum heyrt að heita vatnið endurnýi sig, um hringrás sé að ræða. En jarðlögin, sem stöðugt hita vatnið, hljóta að kólna. Voru ekki hitasvæðin í Mosfellsdal áður háhitasvæði? Ekki lengur. Spurningin er; hve langt er þar til þau verða ekki einu sinni lághitasvæði.

Við vöðum áfram í hugsunarleysi og sóun. Heita vatnið er svo ódýrt að það skiptir litlu máli hve miklu er eytt. Utan af landi heyrist stundum hljóð úr horni; heita vatnið sé of dýrt. En við hvað er þá miðað? Orku á heimsmarkaðsverði? Og hvað um þægindi og hreinlæti. Kannski við ættum að fara að hugsa meira um það jákvæða, sem við eigum, og fara betur með það.

Við Eystrasalt

Norrænir lagnamenn heimsóttu Lettland á síðasta ári og áttu fund með starfsbræðrum sínum í Riga, höfuðborg landsins. Enginn Íslendingur var með í för en fréttir, sem norrænir starfsbræður fluttu, eru allrar athygli verðar og lærdómsríkar fyrir okkur, sem sitjum í ofhituðum húsum og sóum heita vatningu daglega.

Lettar, eins og Litháar og Eystar, eru algjörlega háðir Rússum um olíu og gas. Þeir nota nær eingöngu gas til upphitunar og eldunar. Fyrir fall Sovétríkjanna var orkan mjög ódýr en nú hefur orðið breyting á. Þó vantar nokkuð á það þeir þurfi að greiða heimsmarkaðsverð. Þó eru þeir að sligast undan auknum orkukostnaði.

Hitt er þó sínu verra að dag og nótt lifa þeir í þeim ótta að Rússarnir loki fyrir kranana. Að kaupa olíu á Vesturlöndum yrði þeim algjörlega ofviða.

Til að gefa hugmynd um kostnað Lettanna má benda á að venjulegur launamaður greiðir u.þ.b. 30% af launum sínum fyrir gas. Verðið fyrir 1 kwh af raforku er þar 1% af mánaðarlaunum. Hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur kostar 1 kwh 5,63 kr. Hve mörg % er það af þínum mánaðarlaunum?

Hérlendis finnst okkur „drullukalt“ ef hitinn er 18­-19 stig í íbúðinni. Lettarnir láta sig hafa það að búa við 10­12 stig.

Eigin orkulindir

Það er kaldhæðni að Lettar eiga talsverðar jarðgaslindir. En spurningin er; hvar eiga þeir að fá fjármagn til að virkja þær?

Í landinu eru miklir birkiskógar, svo miklir að það er óhætt að nýta þá miklu meira en gert er. Norrænu gestirnir spurðu hvort þar væri ekki nokkur lausn; að brenna viði.

Heimamenn spurðu; hvar eigum við að fá ofna til þess? Samkvæmt fyrri ákvörðunum í Moskvu voru slíkir ofnar framleiddir einhversstaðar annarsstaðar í hinu mikla veldi. Sömu sögu var að segja með loftræstikerfi; Lettar framleiða blásara en stokkar og hitaelement eru ekki til í landinu.

En lítum í eigin barm. Við eigum okkar eigin orkulindir, ekki sístur er jarðvarminn. En berum við næga virðingu fyrir þessari gjöf náttúrunnar? Það vill oft fara svo að þar skorti nokkuð á ef gæðin þykja sjálfsögð og eru ótvírætt ódýr.

Þurfa gæði að vera dýru verði keypt til að við kunnum að meta þau?

Fleira áhugavert: