Matvælastofnun hefur birt samantekt á niðurstöðum á neysluvatni frá 49 veitum sem þjóna 500 íbúum eða fleiri hér á landi. Um er að ræða þriggja ára tímabil, frá árinu 2017 til ársins 2019, þar sem skimað var fyrir örverum sem geta gefið vísbendingu um saurmengun eða mengun af yfirborðsvatni.
Að því er kemur fram í tilkynningu um málið uppfylltu 14 veitur ekki kröfur sem koma fram í reglugerð um neysluvatn en þar kemur fram að neysluvatn megi ekki innihalda sjúkdómsvaldandi örverur, vírusa eða efni sem valdið geta heilsutjóni.
Alvarlegt frávik í einu tilfelli
Þá kemur enn fremur fram að hjá sjö veitum, sem þjóna um eitt prósent landsmanna, var um að ræða saurmengun, en í skýrslu MAST kemur fram að vatnið sem haft var eftirlit með uppfyllti ekki kröfur 22 sinnum á tímabilinu og reyndist saurgerlamengað níu sinnum.
„Á tímabilinu greindist E.coli í vatnssýnum frá 7 veitum. Í einu tilfelli var um alvarlegt frávik að ræða, þar sem mannleg mistök urðu til þess að menguðu vatni var hleypt inn á dreifikerfið. Hjá öðrum veitum var mengunin ekki mikil og úrbætur voru gerðar,“ segir í skýrslunni.