Eru smávirkjanir framtíðin?
Grein/Linkur: Ný sýn á orkumál
Höfundur: Þorsteinn Þorsteinsson
.
.
Desember 2016
Ný sýn á orkumál
Konur í orkumálum (KÍO) stóðu nýlega fyrir opnum fundi hjá Arion banka. Yfirskrift fundarins var: „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi: Eru smávirkjanir framtíðin?“ Hrósa ber KÍÓ fyrir þetta framtak. Hugmyndin um aukna nýtingu smærri virkjanakosta hérlendis er í takti við þróunina erlendis og þá hugsun að margt smátt geri eitt stórt. Umræðan kallast að sama skapi á við þau hagfræðilegu vatnaskil sem felast í innreið deilihagkerfis víða um heim. Viðskiptaeiningar á borð við Über, Lyft, og Airbnb hafa skapað nýja tegund markaðstorgs þar sem hver reiðir sig á framtak og fjárfestingar annarra.
Áhugaverður samanburður
Margt fróðlegt kom fram á fundinum. Smærri virkjanir í héraði, bæði rennslisvirkjanir, vindrafstöðvar og aðrir orkuöflunarmöguleikar, hafa sína kosti. Hér má nefna aukið afhendingaröryggi og minni flutningskostnað vegna nálægðar við notendur. Staðsetning slíkra smávirkjana víðs vegar um land getur reynst hagkvæm í bland við stærri orku- og flutningsmannvirki. Því fleiri sem smáu orkueiningarnar eru, þeim mun betri grundvöllur skapast fyrir staðbundið deili- og samstarfsnet. Og þeim mun meiri getur ávinningurinn jafnframt orðið, bæði fyrir viðkomandi framleiðslueiningar og samfélagið í heild.
Ef lítil rennslisvirkjun eða vindmylla framleiðir mun meiri orku en eigandinn hefur þörf fyrir, getur verið hagkvæmt að senda afgangsorkuna í gegnum tenginet þangað sem hennar er þörf. Þar með léttir líka á orkuþörf í gegnum stóru flutningskerfin og sveigjanleiki eykst í raforkukerfinu í heild.
Áhugavert er að skoða þessar staðreyndir í samhengi við áherslur Landsnets í flutningsmálum en fyrirtækið kynnti nýlega kerfisáætlun fyrir tímabilið 2016 til 2025. Aðallega er þar til skoðunar að leggja nýja byggðalínu umhverfis landið eða leggja línu yfir hálendið. Hvort tveggja kallar á dýrar framkvæmdir með tilheyrandi umhverfisraski. Slíkar framkvæmdir eru vafa undirorpnar, ekki bara vegna þess að forðast verði þenslu í ríkisfjármálum, heldur vegna þess að ekki eru dæmi um neitt slíkt hámarksálag að ræða á byggðalínuna að það kalli á stækkun hennar. Einu tilvikin þar sem þörf er fyrir meiri flutningsgetu er staðbundin þörf frá virkjun yfir í stóriðjuver. Slíkan vanda er best að leysa staðbundið.
Áhugaverður möguleiki væri að ríkið/Landsnet veiti jafnvel styrki til uppbyggingar á röð smávirkjana þar sem þörf væri á til að þurfa ekki að ráðast í miklu dýrari uppbyggingu á stóra flutningakerfinu. Ef miðað er við framleiðslu á 100 MW samanlagt gæti slíkur styrkur t.d. numið 5-10 milljörðum ef miðað er við 10-20% af kostnaði. Á móti má hugsa sér sparnað í kringum 100 milljarða við byggingu nýrrar byggðalínu.
Ný hugsun að taka við?
Sjálfbærar leiðir til öflunar raforku eiga upp á pallborðið hjá neytendum og hneigð í þá veru er greinileg á heimsvísu, eins og fram kom á fundi Kvenna í orkumálum. Áherslan er á dreifðari raforkuvinnslu og að hún sé nær notandanum. Sólarsellur á húsþökum eru dæmi um eigin heimilisrafstöðvar. Einnig er verið að þróa vinnslu orku úr jarðhita fyrir heimilisafnot.
Óumdeilt er að Ísland er vel til þess fallið að beisla vindorku. Íslenskt fyrirtæki, sem hefur verið að þróa leiðir á þessu sviði, er Icewind, sem hefur þróað litlar vindrafstöðvar til heimilisnota. Einnig má nefna XRG Power sem hefur þróað einkarafstöðvar þar sem rafmagn er unnið úr jarðhita.
Athyglisverðast er þó kannski að smærri virkjanir hér á landi, sem eru nær notandanum, virðast vera samkeppnishæfar við stærri virkjanir ef rétt er á spöðunum haldið. Hér er fyrst og fremst um að ræða smærri vatnaflsvirkjanir en aðrir kostir virðast einnig vera að ryðja sér til rúms. Búnaður í smærri vatnsaflsvirkjanir er orðinn mjög tæknilega þróaður og eftir því sem meira er keypt af honum, þeim mun lægra verður verðið eins og raunin hefur orðið með sólarsellur undanfarin ár.
Ýmislegt bendir því til nýs blómaskeiðs „smávirkjana“ eins og forðum daga í sveitum landsins þegar bændur virkjuðu bæjarlækinn. Smávirkjanir og litlar rafstöðvar til heimilisnota eru a.m.k. kostir sem vert að skoða nánar. Óhætt er að fullyrða að það séu virkilega spennandi tímar framundan en eigi verulegur árangur að nást, er nauðsynlegt að innviðir og kerfi lagi sig að breytingunum, þ.e. mörgum litlum orkuuppsprettum.