Snjallvæðing mælakerfa – 2 milljarðar

Grein/Linkur:  Veitur snjallvæða mælakerfi raf- hita- og vatnsveitu

Höfundur: Veitur

Heimild:

.

.

Desember 2020

Veitur snjallvæða mælakerfi raf- hita- og vatnsveitu

Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland.

Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur:

  • Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn.
  • Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt.
  • Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði.
  • Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti.

„Við erum ánægð með þennan samning og teljum Iskraemeco ákjósanlegan félaga í átt að stafrænni og snjallri framtíð Veitna, fyrirtækið er rótgróið og þjónustar orkufyrirtæki í um 80 löndum. Lausnin sem það býður skoraði hátt í útboðsferli okkar og fyrirtækið hefur sýnt fram á vilja og getu til að þróa hana áfram með okkur.  Við hlökkum til samstarfsins.“

 Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna

„Það er okkur heiður að fá að vinna með Veitum í þessu spennandi verkefni, ekki síst vegna þess að Energy IoT lausnin fellur vel að framtíðarsýn beggja fyrirtækjanna um sjálfbærni. Markmið okkar er að færa Veitum örugga, áreiðanlega og sjálfbæra lausn sem styður við vegferð fyrirtækisins í átt að  snjallari, stafrænni framtíð. Við viljum byggja upp öflugt samstarf og erum spennt að hefjast handa við innleiðingu kerfisins.“

 Luis Goncalves, framkvæmdastjóri Iskraemeco 

.

Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.

Mynd: Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.
Ljósmyndari: Atli Már Hafsteinsson.
Mynd Luis Goncalves, framkvæmdastjóri Iskraemeco.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.

Fleira áhugavert: