Túrkmenistan – Gasauðlindir

Grein/Linkur: Vítislogar

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Október 2010

Vítislogar

Ein af mörgum óskaborgum er Ashgabad. Það er nefnilega sagt að leiðir allra liggi þessa dagana einmitt til Ashgabad. Þ.e.a.s. leiðir orkuboltanna; fyrirtækja eins og breska BP, bandaríska Chevron og franska Total.

niyazov-golden-statue.jpg

niyazov-golden-statue

Kemur varla á óvart. Nafn borgarinnar mun reyndar þýða hvorki meira né minna en Borg ástarinnar. En ástin sem þessi fyrirtæki eru að leita eftir í Ashgabad, er ást full af orku. Aðdráttaraflið liggur í æpandi gasauðlindum Túrkmenistans.

Ashgabad er höfuðborg þessa merkilega lands, þarna austan við Kaspíahafið. Túrkmenistan er sem kunnugt er eitt af fyrrum lýðveldunum Sovétríkjanna. Við fall Sovétsins öðlaðist Túrkmenistan sjálfstæði, en breytingin var þó ekki meiri en svo að það var sjálfur leiðtogi kommúnistaflokksins í Túrkmenistan („aðalritari“ eins og það var kallað) sem varð forseti landsins, sem í reynd er einræðisríki. Þetta var hinn alræmdi Saparmurat Niyazov, sem eftir það lét nefna sig Turkmenbashihinn mikli leiðtogi Túrkmena.

asia-central-map.jpg

asia-central-map

Túrkmenistan er gasrisi (einungis Rússland, Íran og Katar búa yfir meira af vinnanlegu gasi í jörðu heldur en Túrkmenistan). Fyrir vikið er Túrkmenistan nú í kastljósi hins orkuþyrsta heims. Fram fer mikið kapphlaup um aðganginn að bæði gaslindum landsins og olíunni í Kaspíahafshéruðunum. Þarna eru á ferð Kínverjar, Rússar, Persar og Indverjar og ekki síður útsendarar frá Evrópu. Allir vilja komast í gas Túrkmena og ekki útséð með það hvernig sú barátta fer.

Túrkmenistan er um margt afar sérkennilegt land. Íbúarnir eru einungis um 5 milljónir og að flatarmáli er landið um fimm sinnum stærra en Ísland. En þetta eru ekki eintómar grænar gresjur. Stærstur hluti Túrkmenistan er nefnilega eyðimörk; Karakum-eyðimörkin alræmda sem nær yfir 70-80% alls landsins.

turkmenistan-darvaz-gas-fires.jpg

turkmenistan-darvaz-gas-fires

Og það er einmitt þar í miðju þessarar riseyðimerkur sem okkur birtast svo ljóslifandi hinar gífurlegu gaslindir í Túrkmenistan. Þarna brenna nefnilega furðulegir eilífðareldar, þar sem gas streymir upp á yfirborðið og brennur líkt og þarna sé sjálft anddyri þess alræmda Svarta með klaufirnar.

Það vari upphafi áttunda áratugar liðinnar aldar – á þeim tíma sem gula Tonka-grafan var helsta gull Orkubloggarans – að sovéskir jarðfræðingar voru að bora eftir gasi þarna í auðninni austur í Túrkmenistan. Og þá komu bormenn niður á mikla hella sem voru fullir af gasi. En svo fór að yfirborið (hellaþakið) gaf sig, borinn hrundi niður og gas tók að streyma upp á yfirborðið.

turkmenistan-darvaz-gas-fires-up-close.jpg

turkmenistan-darvaz-gas-fires-up-close

Til að geta athafnið sig á svæðinu án þess að hætta væri á gaseitrun var ákveðið að kveikja í gasinu og láta það brenna, eins og algengt er á gasvinnslusvæðum. En gasið fuðraði ekki bara upp sísona, heldur reyndist þarna vera mikið og stöðugt gasútstreymi úr jörðu. Og núna hafa eldarnir logað sleitulaust í nærri fjóra áratugi!

Svona eilífðarloga er reyndar að finna mun víðar í heiminum. Ekki alveg jafn svakalega, en engu að síður elda sem brenna stanslaust ýmist vegna gasuppstreymis eða vegna kola í jörðu. Þetta þekkist t.a.m. á all mörgum stöðum í Mið-Asíu og litlir kolaeldar finnast líka nokkuð víða á gömlum kolanámusvæðum í bæði Bandaríkjunum og Kína. Og þegar Orkubloggarinn var í Azerbaijan s.l vor, skaust hann einmitt út fyrir Bakú til að kíkja á svona eilífðareld, þar sem gas streymir úr jörðu skammt fyrir utan Bakú. En það var auðvitað ekkert í líkingu við þessa ógnvekjandi gaselda í Karakum-eyðimörkinni í Túrkmenistan, sem sumir nefna innganginn að Víti.

turkmenistan_to_china_pipeline.gif

turkmenistan_to_china_pipeline.

Já – þetta er í senn furðulegt og heillandi. En eftir að áðurnefndur furðufugl Saparmurat Niyazov náði völdum í hinu nýsjálfstæða Túrkmenistan einangraðist landið og náði ekki að hagnast á gaslindunum eins og búast hefði mátt við. Á þeim tímum hafði Túrkmenistan engar gasleiðslutengingar við umheiminn, að frátöldum gömlu sovésku gasleiðslunum og næstu árin gerðist fátt markvert í orkumálum Túrkmena.

Efnahagsþrengingarnar sem herjuðu á Rússland og fleiri ríki í Rússneska sambandinu sem þá var og hét, smituðu út frá sér. Tíundi áratugurinn í Túrkmenistan fór aðallega í að reisa risastórar gullstyttur af leiðtoganum, svo landsmenn gleymdu nú örugglega ekki hans guðdómlegu ásjónu. Verð á olíu og gasi var fremur lágt og enginn virtist áhugasamur um að stinga nýjum rörum í gaslindirnar ógurlegu þarna djúpt inni í Mið-Asíu.

iran-turkmenistan-gas-pipeline.jpg

iran-turkmenistan-gas-pipeline

En tímarnir breytast – og það stundum með undrahraða. Það voru reyndar blessaðir Persarnir sem fyrstir sáu hag í því að tengja sig þarna við. Árið 1997 opnaði lítil og nett 200 km löng gasleiðsla frá vestanverðu Túrkmenistan og til borgarinnar Kordkuy sem liggur nyrst í Írak, rétt hjá landamærunum að Túrkmenistan. Þetta var kannski ekkert stórmál, en var reyndar fyrsta millilanda-gastenging Túrkmena sem ekki lá um rússneskt landsvæði.

Það var þó fyrst eftir að nýr forseti tók við völdum í Túrkmenistan í ársbyrjun 2007 – ljúflingurinn með lipra nafnið Gurbanguly Berdimuhamedov – að hlutirnir komust á almennilega hreyfingu. Lögð var önnur gasleiðsla til Íran, sem þeir Berdimuhamedov og Mahmoud Ahmadinejad  Íransforseti opnuðu með pompi og pragt í janúar s.l. (2010). Myndinni hér að ofan var einmitt smellt af við það ánægjulega tækifæri.

turkmenistan-china-gas-deal.jpg

turkmenistan-china-gas-deal

Og varla hafði Berdimuhamedov svarið embættiseiðinn árið 2007 þegar Kínverjar birtust í höfuðborginni Ashgabad. Kínverjum virðist einkar lagið að koma hlutunum í framkvæmd. Párað var undir samninga med det samme og aðeins tveimur árum síðar var komin 3.500 km gasleiðsla frá Túrkmenistan og all leið til Kína! Algerlega magnað.

Þessi fyrsti áfangi leiðslunnar mun hafa kostað skitna 7 milljarða dollara og á næstu árum stendur til að stækka hana og margfalda flutningsgetuna. Það var sjálfur Kínaforseti Hu Jintao sem vígði leiðsluna í desember 2009 ásamt  Berdimuhamedov, svo og forsetum Uzbekistan and Kazakhstan. Sannkallað Mið-Asíu gaspartý.

russia-turkmenistan-putin.jpg

russia-turkmenistan-putin

Nú fóru hlutirnir að gerast hratt. Bæði Rússar og ESB höfðu fölnað upp við að sjá  hvenrig gasið frá Túrkmenistan (ásamt gasi frá Uzbekistan og Kazakhstan) fór allt í einu að streyma austur á bóginn til Kína. Og menn brugðust skjótt við. Pútin kom askvaðandi til Ashgabad og faðmaði Berdimuhamedov í blómahafi. Samið var um endurnýjun á gasleiðslum til Rússlands og gasið frá Túrkmenistan var svo sannarlega komið á beinu brautina til bæði suðurs, austurs og norðurs.

Í Brussel lá mönnum við yfirliði. Voru Evrópumenn endanlega að missa af aðgangi að Túrkmenagasinu? Enn er allsendis óvíst hvort ESB fái nokkru sinni Nabucco-leiðsluna sína austur eftir Tyrklandi og til Kaspíahafsins. En þrátt fyrir að þá tengingu vanti, var nú óðar ráðist í samningaviðræður um að Túrkmenar myndu líka selja gas til vesturs. Það leit reyndar alls ekki vel út með að þar næðist árangur. Túrkmenar bættu fyrst við einum nettum samningi við  Afgani, Pakistana og Indverja um gassölu þangað, sem er leiðsla upp á rúma 1.800 km og næstum geggjaða 8 milljarða USD. Í Evrópu óttuðust menn að Túrkmenum þætti þetta orðið gott í bili.

turkmenistan_gas_west.jpg

turkmenistan_gas_west

En svo allt í einu nú í sumarbyrjun (2010) lýsti Berdimuhamedov því yfir að hátt í 1000 km gasleiðsla verði senn lögð vestur að Kaspíahafi. Hjá skrifstofum framkvæmdastjóra orkumála í Brussel fóru menn loks að geta brosað. Kannski kemst gasleiðsla frá Túrkmenistan í átt til Evrópu bráðum á kortið.

En það er langt í land! Þó svo talað sé um að senn verði komin gasleiðsla frá nokkrum stærstu gaslindum Túrkmena og að austurströnd Kaspíahafsins, þá er eftir að tengja hana við Bakú. Eftir botni Kaspíahafsins! Og frá Bakú í Azerbaijan er næstum óendanlega langt vestur eftir Kákasus-löndunum og endilöngu Tyrklandi þar til gasið yrði loks komið til Evrópu.

turkmen_pipeline_dovletabat-sarakhs-khangiran_gas_pipeline.jpg

turkmen_pipeline_dovletabat-sarakhs-khangiran_gas_pipeline

Og svo gæti allt eins farið, að Túrkmenagasið sem streyma mun í vesturátt, taki skyndilega beygju norður til Rússlands eða suður til Íran. Enn er alltof snemmt fyrir Evrópu að skála fyrir því að gas frá Túrkmenistan muni í framtíðinni halda heimkynnum Evrópubúa þokkalega hlýjum. Risaspurningunni um hvort Evrópa losni nokkru sinni undan gashrammi Rússa, hefur ennþá ekki verið svarað.

Fleira áhugavert: