Etanól – Hrávörubóla, silfur

Grein/Linkur:  Silfur!

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Október 2010

Silfur!

Október 2010 færði okkur margar athyglisverðar fréttir.

corn-ethanol-pump.jpg

corn-ethanol-pump

Þar má nefna að bandarísk stjórnvöld ákváðu að leyfa E15 blöndu – sem þýðir 50% meiri styrk etanóls heldur en er í E10. Þó þetta muni sennilega ekki hafa mikil áhrif strax (af því þessi ákvörðun nær einungis til nýlegra bifreiða) hækkaði verð á maís samstundis. Það eru þó ekki endilega bein tengsl þarna á milli. Verðhækkunina á maís má líklega fyrst og fremst rekja til óhagstæðs veðurs. Hækkunin var að auki í takt við hækkun á olíu og gulli – sem sennilega kom einkum til vegna fallandi dollars og vaxandi ótta við verðbólgu.

Þetta eru óróatímar. Þó svo þeir séu margir sem reyna að telja okkur trú um að kreppan sé að baki og bjart sé framundan, er óvissan mikil og þokan á gatnamótum framtíðarinnar óvenju þykk. Sumir búast við verðhjöðnun á Vesturlöndum. Aðrir eru haldnir verðbólguótta.

Í Bandaríkjunum og víðar um heiminn eru peningar prentaðir villt og galið og dælt út í formi lána á afar lágum vöxtum, til að reyna að örva efnahagslífið (nema á Íslandi þar sem menn virðast halda að háir vextir og niðurskurður sé rétta svarið við atvinnuleysi). Þessi peningaprentun gæti haft jákvæð áhrif. En hún gæti valdið verðbólgu. Og ef hjörðin fer að trúa því að verðbólga sé í spilunum gæti senn myndast mikil bóla á hrávörumörkuðunum – þegar peningarnir leita skjóls í gulli og annarri hrávöru, fremur en að brenna upp í verðbólgubáli.

hunt-brothers_famous_rouge_traders.jpg

hunt-brothers_famous_rouge_traders

Þetta er Orkubloggaranum tilefni til að rifja upp einhverja geggjuðustu hrávörubólu allra tíma. Þegar tveir menn – bræðurnir Nelson Bunker Hunt og Herbert Hunt – urðu þess valdandi að silfurverð þrjátíufaldaðist si sona. Sú spákaupmennska með silfur endaði ekki gæfulega fyrir þessa tvo af auðugustu mönnum Bandaríkjanna, enda fer alltaf svo að lokum að markaðir leita jafnvægis.

Það mætti reyndar pára margar bloggfærslur og jafnvel heilu bækurnar um ævintýralegt lífshlaup Hunt fjölskyldunnar. Fjölskyldunnar sem stóran hluta 20. aldarinnar var einhver sú allra efnaðasta í Bandaríkjunum og þó víðar væri leitað. Hunt er nafn sem klingir sömu bjöllum eins og Rockefeller, Howard Hughes eða Getty.

Grunnurinn að ofsalegum auði Hunt-fjölskyldunnar var olíufélagið Hunt Petroleum, sem ættfaðirinn stofnaði snemma á 20. öldinni og gerði að stórveldi. Sá hét Haroldson Lafayette Hunt – jafnan kallaður HL Hunt eða bara HL. Hann var bandaríski draumurinn í sinni tærustu mynd; var kominn af fátækum bændum í Illinois en hélt í ævintýraleit til Arkansas snemma á 20.öldinni og fann þar gríðarlegar olíulindir. Og varð brátt efnaðasti einstaklingurinn í gjörvöllum Bandaríkjunum.

ewings.jpg

ewings.

Sumir vilja meina að Ewing-fjölskyldan eigi sér fyrirmynd í Hunt-fjölskyldunni, enda minnir Jock Ewing um margt á ættföðurinn HL Hunt. Og þeir bræður JR og Bobby voru kannski stundum með svipaðan þankagang eins og Hunt-bræðurinir. En slíka samlíkingu álítur Orkubloggarinn vanvirðingu við Ewing'ana geðþekku. Jafnvel helstu skítaplott JR Ewing jafnast ekki á við vænisýkina, öfgarnar og takmarkalausa græðgina sem einkennt hefur svo marga úr Hunt-fjölskyldunni.

Fátt er geðugt í fari Hunt-fjölskyldunnar. Það síðasta sem fréttist af afkomendum gamla HL Hunt var þegar eitt barnabarnabarn hans reyndi nýverið að komast yfir Hunt Petroleum (rétt áður en félagið var selt til XTO Energy) og stefndi í því skyni fötluðum föður sínum. Það er allt önnur saga og í dag ætlar Orkubloggið hvorki að fjalla um sögu Hunt Petroleum, slaginn um félagið né um stóðlífið hjá gamla HL Hunt, sem átti 15 börn með þremur konum. Þess í stað ætlar bloggið að staldra við það þegar áðurnefndir synir hans – Bunker og Herbert – ætluðu sér að auðgast ógurlega með því að ná kverkataki á silfurmarkaði veraldarinnar í lok áttunda áratugarins.

Áður en þetta silfurævintýri þeirra bræðra hófst, var Bunker Hunt reyndar löngu búinn að græða einhvern mesta pening sem sögur fara af. Og það á einhverjum stysta tíma sem sögur fara af! Það ævintýri gerðist þegar hann ákvað að leggjast í olíuleit í Mið-Austurlöndum og í N-Afríku.

sahara-libya-acacus.jpg

sahara-libya-acacus.

Fyrst hélt hann til Pakistan og tapaði milljónum dollara á misheppnaðri olíuleit þar. Þaðan skellti hann sér svo til Líbýu 1957 og fékk leitarleyfi á svæði nr. 65. Þar gekk heldur ekki of vel. En viti menn – rétt um það leyti sem hlutaféð var að verða endanlega brunnið upp hitti borinn í mark. Og það var sko ekkert smá skot; Nelson Bunker Hunt hafði fundið eina af stærri olíulindum heimsins. Þarna hreinlega gubbaðist upp olía úr sannkallaðri risalind og þegar líða tók á sjöunda áratuginn var gamli H.L. Hunt ekki lengur ríkasti maður heims – Bunker sonur hans hafði tekið framúr föður sínum.

Á þessum tímum var olía vel að merkja ekki sjálfkrafa ávísun á auðæfi. Olíuverð var lágt og vonin að hagnast vel á henni var að finna æpandi miklar lindir þar sem gumsið var nánast sjálfrennandi gosbrunnur. Og þannig var þarna í Líbýu; það eina sem þurfti var slanga fra Sarir-lindinni og útí skip. Fyrir vikið var Bunker Hunt skyndilega orðinn auðugasti maður veraldar og var metinn á bilinu 8-16 milljarða dollara.

En lífið er aldrei auðvelt. Nú stóð Bunker frammi fyrir þeirri erfiðu spurningu hvað gera skyldi við aurana, sem spýttust þarna upp úr líbýsku sandeyðimörkinni. Hunt-fjölskyldan er þekkt fyrir að vera svolítið af gamla skólanum og Bunker vildi koma peningunum í eitthvað öruggt. Þar að auki voru þetta verðbólgutímar og því áleit Bunker að líklega væri helst að finna skjól í hrávöru.

roosevelt_gold.gif

roosevelt_gold

Best leist Bunky á að kaupa gull. En vegna bandarískra laga frá því á dögum Kreppunnar miklu var einstaklingum og fyrirtækjum í Bandaríkjunum bannað að safna að sér gulli. Það var sjálfur Roosevelt forseti sem hafði komið því banni á á fjórða áratugnum. Kannski var það ein af ástæðum þess að Bunker Hunt hugsaði demókrötum jafnan þegjandi þörfina og leit þá sömu augum eins og væru þeir kakkalakkar. En gullkaup komu sem sagt ekki til greina, því þá yrði olíubollunni Bunky stungið beint í steininn.

Þetta gullkaupabann demókratanna var loks afnumið um miðjan 8. áratuginn. Nixon hafði hætt að binda dollarann við gullfót og samþykkt voru lög þess efnis að einkaaðilar mættu á ný eiga gullpeninga og gullstangir (lögin tóku gildi í ársbyrjun 1974). En þarna um 1970 gat Bunker Hunt ekki komið ágóðanum í gull, nema eiga á hættu réttarhöld og fangelsi heima í Bandaríkjunum. Enda bölvaði hann oft hressilega yfir demókrötum, sem hann og fleiri fjölskyldumeðlimir töldu jafnan vera hreinræktuð skítseiði og gott ef ekki á launaskrá hjá sjálfu Sovétinu. Í huga Hunt'anna ríkir sem sagt sönn Suðurríkjastemning – og Austurstrandarelítan álitin meðal þess versta í mannheimum. Enda hafa sumar samsæriskenningarnar meira að segja bendlað Bunker Hunt og nokkra aðra ofurhægrimenn í bandaríska olíuiðnaðinum við morðið á JFK. En það er allt önnur saga.

Úr því að gullið var úr leik ákvað Bunker að taka það sem næst kemur eðalmálminum dýrðlega. Silfur! Þar spilaði inní að silfurúnsan var á einungis á um 1,5 dollara og hverjum manni augljóst að það verð var langt undir kostnaðarvirði þess að vinna silfur úr jörðu. Silfurverð var sem sagt nánast óeðlilega lágt og því kannski ekki galið að kaupa svolítið af silfri.

Bunker fékk bróður sinn Herbert með í púkkið og saman byrjuðu þeir að kaupa silfur í stórum stíl. Þetta var 1972 og brátt höfðu þeir bræður keypt yfir 200 þúsund únsur af silfri. Verðið á silfri tók nú að hækka umtalsvert – allt virtist leika í lyndi og eflaust hefðu sumir einfaldlega innleist hagnaðinn. En þeir Bunker og Herbert vildu meira… miklu meira. Sagt er að þarna hafi þeir séð tækifæri til að ná heljartökum á silfurmarkaðnum sem myndi skila þeim ofsagróða.

gaddafi-1970.jpg

gaddafi-1970

En nú kom smá babb í bátinn. Mið-Austurlönd voru að verða æ viðsjárverðari púðurtunna og árið 1973 rændi harðjaxlinn Gaddafi hershöfðingi völdum í Líbýu. Hann heimtaði strax að 51% olíuteknanna rynnu í ríkissjóð. Bunker Hunt  hringdi í snarhasti til Washington og vildi fá bandaríska flugherinn á svæðið eins og skot. En jafnvel þó svo repúblíkanar væru þá við stjórnvölinn í Hvíta húsinu gat Bunker ekki sannfært forsetann og hans menn um að velta Gaddafi úr sessi. Í Washington voru menn ennþá að sleikja sárin eftir Víetnam og lítt spenntir fyrir nýjum hernaðarátökum í framandi landi.

Bunker varð æfur og taldi víst að fjárans kommúnistarnir á Austurströndinni væru að vinna gegn honum. Þar átti hann við Rockefeller-fjölskylduna, sem ennþá var sú áhrifamesta í bandaríska olíuiðnaðinum. Gaddafi færði sig nú upp á skaftið og þjóðnýtti olíulindirnar og þar með lokaðist algerlega fyrir peningastreymið inn á reikninga Bunker's Hunt. Útlitið var alls ekki nógu gott fyrir Silfurdraum þeirra bræðra. Nú var úr vöndu að ráða.

Það breytti því ekki að þeir Bunker og Herbert voru þegar þarna var komið við sögu (ársbyrjun 1974) búnir að tryggja sér um 55 milljón únsur af silfri, sem höfðu tvöfaldast í verði (únsan var komin í um 3 dollara). Komið var að afhendingu mikils hluta af þessu silfri og leystu þeir það allt til sín.

silver-1_1034773.jpg

silver

En nú voru sumir orðnir vænisjúkir. Bunker var sannfærður um að Bandaríkjastjórn ætlaði sér að bæta silfri á bannlistann – að einstaklingum yrði senn bannað að eiga silfur og að þeir bræður myndu þurfa að losa allar silfurbirgðir sínar í snarhasti með tilheyrandi tapi.

Hann og Herbert gripu skjótt til aðgerða – leigðu í snarhasti nokkrar Boeing 707 flutningaþotur sem voru fylltar af silfri og flogið beinustu leið yfir Atlantshafið og til Sviss. Mágur þeirra sem átti stóran búgarð í Texas hafði lánað þeim tólf haglabyssuvopnaða kúreka og þessir ágætu lærissveinar Suðurríkjanna gættu góssins uns það var komið á áfangastað. Þar var herlegheitunum komið fyrir í traustum bankahvelfingum fjarri krumlu bandarískra stjórnvalda. Þannig hefur Sviss oft verið hreiður fyrir áhyggufulla bandaríska ofurkapítalista, sem ekki treysta á eigið kerfi heima fyrir.

Hvort fréttir af þessum flutningum höfðu áhrif á silfurmarkaðinn er ekki gott að segja. En alla veganna hækkaði verðið og var nú komið í um 4 dollara únsan. En þeir Bunker og Herbert voru ekki aldeilis á því að byrja að leysa út gróðann (þeir réðu nú yfir hátt í 10% af öllu silfri veraldarinnar). Í reynd voru þeir bara rétt að byrja.

Sökum þess að olíupeningarnir frá Líbýu voru hættir að streyma inn á bankareikninga Bunker's, vantaði þá bræður sárlega almennilegt fjármagn til að halda silfurleiknum áfram. Þeir flugu því beinustu leið til Persíu og óskuðu liðsinnis keisarans þar.

faisal_saudi-king-gun.jpg

faisal_saudi-king-gun.

Sennilega hefur hinum gullslegna keisara Mohammad Reza Pahlavi ekki þótt silfur vera nógu spennandi stöff. Hafandi fengið afsvar í Tehran brunuðu Hunt-bræður nú á fund Faisal Sádakonungs. Hann nennti að hlusta og virtist ætla að stökkva á vagninn. En því miður fyrir þá Bunker og Herbert var Faisal myrtur skömmu síðar (í mars 1975). Fyrir vikið varð ekkert af því að Hunt-bræðurnir kæmu áformum sinum um frekari stórfelld silfurkaup í framkvæmd – í bili. Silfurmarkaðurinn róaðist, verðið lækkaði og næstu árin var silfurúnsan að dansa þetta í kringum 3-4 dollara.

Það gekk sem sagt brösuglega fyrir þá bræður að finna partner til að króa silfurmarkaðinn af. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Árið 1978 dúkkuðu skyndilega upp nokkrir forríkir Sádar, sem vildu taka þátt í spilinu og hjálpa Hunt-bræðrunum að koma áætlunum sínum í framkvæmd.

time-cover-john-connally_1979.jpg

time-cover-john-connally_1979

Það mun hafa verið ævintýramaðurinn John Connally – fyrrum ríkisstjóri í Texas og sá sem sat í bílnum með JFK þegar hann var myrtur í Dallas – sem kom Sádunum og Hunt-bræðrunum saman á fund. Connally var mikill töffari og var á þessum tíma kominn í Repúblíkanaflokkinn og á kaf í olíuiðnaðinn. Sjálfsagt hefur hann fengið sinn snúð fyrir samkomulag Arabanna við Bunker og Herbert Hunt. En skömmu síðar sóaði hann því fé í baráttu um forsetaútnefningu Repúblíkana, þar sem hann tapaði illa fyrir Reagan. Hverfur Connally þar með úr sögu þessari.

Plan Sádanna og Hunt-bræðra gekk eftir. Þeir tvöfölduðu nú silfurkaup sín frá því 1974 og verðið hækkaði hratt. Um mitt ár 1979 var silfurúnsan komin í 8 dollara og í september stóð únsan í 11 dollurum. Nú fóru margir að verða órólegir og líka spenntir; ekki síst þeir sem töldu að senn myndi verða silfurskortur í heiminum. Fyrir vikið var fjöldi manna og fyrirtækja sem byrjuðu að hamstra silfur. Verðið tók auðvitað geggjaðan kipp enn á ný og hækkaði á fáeinum vikum upp í 16 dollara únsan og svo í 32 dollara! Munum að þetta voru viðsjárverðir tímar; ofsatrúar-klerkarnir voru nýbúnir að ræna völdum í Íran, verðbólga var mikil í Bandaríkjunum og óvissan skapaði æ meiri eftirspurn eftir hrávörum. Skyndilega voru komnar kjöraðstæður fyrir hækkun á silfri og ýmsum öðrum hrávörum.

hunt_herbert-lamar-bunker-federal-court.jpg

hunt_herbert-lamar-bunker-federal-court

Hunt-bræðurnir héldu silfurkaupunum áfram á fullri ferð og nú var þriðji bróðirinn – Lamar Hunt – líka kominn í hópinn. Lamar var reyndar þekktari sem íþróttafrömuður og var m.a. stofnandi amerísku ruðningsfótboltadeildarinnar (AFL sem var undanfari NFL). Og silfur rauk nú upp í verði sem aldrei fyrr. Snemma árs 1980 virtist allt orðið vitlaust á silfurmörkuðunum og verðið á únsunni fór yfir 50 dollara! Allir virtust vilja vera með í peningamaskínu Hunt-bræðranna og kaupa silfur.

Nú fóru allskonar sögur á kreik. Skyndilega varð altalað að Hunt-bræður væru um það bil að kaupa sjálft Texaco, sem þá var eitt af stærstu olíufélögum heimsins. Sumir hrukku við, því þetta þýddi að bræðurnir myndu líklegast ætla að selja megnið af silfrinu. Þetta varð til að stöðva verðhækkanir á silfri – í bili.

hunt-brothers_bunker-herbert.jpg

hunt-brothers_bunker-herbert

Silfursamningar Hunt-bræðranna höfðu hæst farið langt yfir 5 milljarða USD að verðmæti. Nú þegar smá slaki kom á verðið, lá verðmætið í ca. 4,5 milljörðum dollara. Talið er að þá hafi þeir bræður samtals verið búnir að borga innan um 1 milljarð dollara fyrir alla þessa samninga. Þ.a. á þessum tíma – jafnvel þegar silfurverðið var talsvert frá því sem það fór hæst – voru þeir með 3-4 milljarða USD í hagnað. Það þykir talsverður peningur í dag og þótti hreinlega stjarnfræðilega há fjárhæð fyrir 30 árum. Hunt-bræðurnir voru tvímælalaust í fámennum hópi allra ríkustu manna veraldar.

Það makalausa er að flestir virðast sammála um það, að EF þeir bræður hefðu á þessum tíma byrjað að selja silfurbirgðirnar hefði þeim tekist að fara út með gríðarlegan hagnað – jafnvel milljarða dollara. Þetta eru meiri peningar en gamli HL Hunt hafði önglað saman á allri sinni löngu olíuæfi. En Bunker og Herbert Hunt voru ekki á þeim buxunum að selja.

Hvað þeim bræðrum gekk til er og verður ráðgáta. Sumir segja að strákurinn Nelson Bunker hafi einfaldlega löngu verið búinn að missa trúna á peningaseðla og viljað eiga „raunveruleg verðmæti“ – eins og gull eða silfur. Hann var líka sannfærður um að Bandaríkin væru á rangri braut og senn færi þar allt fjandans til.

hunt_nelson-bunker.jpg

hunt_nelson-bunker

Aðrir segja að þeir hafi ætlað að eignast svo mikið af kaupsamningum um silfur, að þegar kæmi að afhendingu yrði ekki nokkur séns fyrir seljendurna að útvega silfrið – nema kaupa það af þeim bræðrum á því verði sem þeir sjálfir ákvæðu. Það að króa markaðinn þannig af með kaupum á bæði hrávörunni og futures, hefur löngum verið draumur svakalegustu spekúlantanna. En ennþá hefur slík aðferð ekki gengið eftir með neina hrávöru… ekki enn.

Bunker hélt því alla tíð fram að ekki hafi hvarflað að honum að reyna að ná tangarhaldi á silfurmarkaðnum eða misbeita stöðu sinni þar. Hann hafi bara einfaldlega viljað eiga silfur því það væri góð fjárfesting og alvöru verðmæti.

En hvað sem því líður, þá var þeim sem stjórnuðu kauphallarviðskiptum westra nóg boðið. Hrávörukauphallirnar í Bandaríkjunum töldu Hunt-bræðurna vera að misnota markaðinn og til að þrengja að möguleikum manna til að versla með silfur var reglum þar breytt í snarhasti. Fyrir vikið hægðist á silfurviðskiptum, líkt og hjá bíl sem keyrir útí straumvatn, og verðið tók að síga.

paul_volcker.gif

paul_volcker

Þar að auki var demókratinn Paul Volcker orðinn Seðlabankastjóri í Bandaríkjunum og hann var harðákveðinn í því að vinna á verðbólgunni heima fyrir, sem var komin vel yfir 13%! Bankinn snarhækkaði vexti og dró úr heimildum fólks og fyrirtækja til hrávöruviðskipta. Þetta leiddi til þess að peningar streymdu í skuldabréf og verðfall varð á hrávörum.

Verð á silfri tók nú að falla hratt og únsan var brátt komin undir 40 dollara. Vikurnar í febrúar og mars 1980 einkenndust af mikilli dramatík. Eftir miðjan mars fréttist af Bunker í París þar sem hann var sagður sitja á fundum með evrópskum bankamönnum. Og að svitinn rynni niður svírann í stríðum straumi. Þetta leit ekki vel út; verð á silfri hélt áfram að falla og únsan fór niður í 20 dollara.

silver_prices_1975-2010.png

silver_prices_1975-2010

Í reynd var spilið búið. Frá og með 26. mars 1980 hættu þeir Hunt-bræður að kaupa silfur, enda var þeim nú orðið ljóst að þeir gætu ekki staðið við gerða samninga. Lukkan var að snúast í höndum þeirra með ógnarhraða. Og nú sprakk blaðran í tætlur. Daginn eftir – 27. mars 1980 – var upphafsverðið á silfurúnsunni í rétt rúmum 15 dollurum. Og féll á ógnarhraða. Í lok dagsins hafði verðið lækkað um þriðjung og var komið undir 11 dollara únsan. Þessi ægilegi fimmtudagur hefur síðan kallast Silver Thursday í sögubókunum.

Við getum ímyndað okkur hvernig þeir Bunker og Hunt lágu þvalir undir sængum sínum aðfararnótt 28. mars á því Herrans ári 1980. Fyrir örfáum dögum höfðu þeir bræður verið meðal ríkustu manna veraldarinnar. En nú var eiginfjárstaða þeirra allt í einu komin í bullandi mínus. Skuldir þeirra umfram eignir námu vel yfir milljarði USD sem var heimsmet. Líklega hafði aldrei áður í sögu fjármálaviðskipta heimsins nokkur einkaaðili verið í ámóta stöðu. Þótti mörgum erfitt að skilja hvernig annað eins gat gerst.

hunt_herbert_lamar_ruth_nelson-bunker.jpg

hunt_herbert_lamar_ruth_nelson-bunker

Það er til marks um gríðarlegt umfang þessa gjaldþrots að það olli verulegu (en þó aðeins tímabundnu) verðfalli á hlutabréfamörkuðum og sjálfur Seðlabanki Bandaríkjanna þurfti að koma að uppgjörinu til að forða bönkum frá því að sogast með ofan í silfurhringiðu bræðranna. Fræg er sagan af Volcker Seðlabankastjóra á næturfundi aðfaranótt 28. mars á jakkanum yfir náttbuxurnar. Þetta var nánast neyðarástand og má kannski að einhverju leyti líkja við það sem gerðist þegar Lehman Brothers rúlluðu haustið 2008.

Ákveðið var að bjarga þeim bræðrum ekki – ekkert frekar en Lehman Brothers. Og Hunt-fjölskyldan mátti leggja fram háar tryggingar til að liðka fyrir lausn. Margrét Hunt, sem var aðalerfingi Hunt Petroleum og stóra systir þeirra bræðra (elst af samtals 6 alsystkinum og 15 börnum gamla HL Hunt) spurði þá forviða hvað þeir hefðu eiginlega verið að pæla! Sagt er að Bunker hafi svarað heldur kindarlegur á svip, að hann hefði bara ætlað að græða smá pening. Þannig fór nú það.

hunt-brothers-testifying_1034692.jpg

hunt-brothers-testifying

Sjálfur hefur Bunker Hunt alltaf haldið því fram að silfurblöðruna 1979-80 hafi einungis að litlu leyti mátt rekja til þeirra bræðra. Þúsundir og tugþúsundir spákaupmanna hafi séð hvernig þeir bræðurnir græddu á silfurkaupum sínum og skyndilega vildu allir vera með. Markaðurinn hafi snögglega yfirfyllst af gráðugum spekúlöntum og þegar blaðran blés upp og sprakk hafi verið auðvelt að benda á þá bræður sem sökudólga. Staðreyndin hafi aftur á móti verið sú að þeir hafi orðið fórnarlömb græðgi annarra og þess að bandarísku hrávörukauphallirnar og Seðlabankinn breyttu leikreglunum þegar spilið stóð sem hæst.

Næstu árin fóru í að gera upp þetta risagjaldþrot bræðranna. Olíulindir í Jemen og búgarðar í Ástralíu; allt fór þetta í skuldahítina. En eins og gerist með flest snyrtileg ævintýri auðmanna, fór þetta auðvitað allt vel að lokum. Dálaglegir samningar við banka, sem áttu himinháar kröfur á bræðurna, og fjármunir sem til þeirra áttu eftir að falla í framtíðinni úr sjóðum sem pabbi þeirra hafði stofnað fyrir börn sín, áttu eftir að losa bæði Bunker og Herbert úr gjaldþrotasnörunni.

bunker-hunt-old.jpg

bunker-hunt-old

Bunker hlaut að vísu dóm fyrir að beita ólögmætum viðskiptaklækjum og markaðsmisnotkun. En hann reis upp á ný sem vellauðugur maður og einbeitti sér að ræktun veðhlaupagæðinga westur í Texas. Bunker á líka olíufélagið Titan Resources, sem er með starfsemi í Eþíópíu og víðar í Afríku. Það er sem sagt hvergi nærri svo að Hunt-bræðurinir séu hættir í olíunni, þó svo séu komnir á níræðisaldur. Enda er olían kröftugri en flest annað í heimi hér.

Og þó svo gamli maðurinn komi ekki lengur nálægt silfri er hann ennþá sannfærður um að þar séu peningarnir hvað best geymdir. S.l. sumar þegar únsan var í um 16-18 USD var haft eftir honum að það væri gott verð til að kaupa. Og viti menni. Á föstudaginn síðasta var silfurúnsan… komin yfir 24 dollara. Öldungarnir vita hvað þeir syngja. Eða er kannski bara að myndast ný silfurbóla?

Fleira áhugavert: