Olía á norðurslóðum – Sagan 2009

Grein/Linkur:  Norðurskautsolían

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Október 2009

Norðurskautsolían

Nú í ágúst s.l. urðu talsverð tímamót í olíuvinnslu á Norðurslóðum.

Russia_oil_production_1993-2009

Russia_oil_production_1993-2009 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Þá settu Rússar  nýtt met í olíuframleiðslu sinni. Framleiddu í fyrsta sinn að meðaltali  meira en 10 milljón tunnur pr. dag í heilan mánuð. Eða nákvæmlega 10,01 milljónir tunna pr. dag. Og það sem meira er; þetta met má beinlínis rekja til þess sem lengi vel hefur verið litið á sem hreina framtíðarmúsík. Heimskautaolíunnar!

Aldrei áður hefur olíuframleiðsla Rússlands verið svona mikil (aftur á móti náðu Sovétríkin öll að framleiða yfir 12 milljónir tunna þegar mest var). Þetta virðist nokkuð á skjön við útbreiddar spár um að olíulindir Rússanna fari hratt hnignandi og lítið nýtt sé að finnast.

Vankor_Oil_Rig

Vankor_Oil_Rig

Þó svo vel hafi gengið í olíuframleiðslu Rússa síðustu árin, gerðist það nefnilega 2008 að þá minnkaði framleiðslan umtalsvert. Hátt olíuverð 2006-08 hefði átt að verða hvati til að kreista hvern dropa upp. Samt sem áður dró úr framleiðslu Rússa 2008. Þetta var fyrsta samdráttarárið í Rússaolíunni í heil tíu ár eða allt frá efnahagskreppunni þar í kringum 1998.

Þessi samdráttur árið 2008 var af mörgum túlkaður svo, að Rússar hefðu augljóslega náð hinum endanlega framleiðslutoppi. Og héðan í frá myndi leiðin liggja niður á við, eins og hjá svo mörgum öðrum vestrænum olíuríkjum.

Russia_Arctic_Oil_Rig

Russia_Arctic_Oil_Rig

En nú hafa Rússar snúið blaðinu við. Og eru orðnir mestu olíuframleiðendur í heimi. Stærri en sjálf Saudi Arabía. Reyndar miklu stærri, því Sádarnir eru þessa dagana að dæla upp skitnum 8 milljónum tunna á dag.

Í dag eru Pútín og félagar sem sagt langstærsti olíuframleiðandi í heimi! Og að auki líka mesti olíuútflytjandinn. Í ágúst mun meðalútflutningur Rússa hafa verið um 7,3 milljón tunnur á dag meðan Sádarnir voru komnir niður í um 7 milljón tunnur.

Þessi uppsveifla í olíuframleiðslu Rússa núna er ekki síst til komin vegna olíunnar sem byrjuð er að streyma frá Vankor-risalindunum langt norðan heimsskautsbaugs. Ekki er ofsagt að þessar heimsskautalindir tákni nýtt og mikilvægt skref í olíuvinnslu. Að það sé búið að klippa á borðann og héðan í frá muni ríkin við Norðurskaut hefja æðisgengna olíuleit innan lögsögu sinnar kringum Norðurheimsskautið.

Arctic_Oil_Potentials

Arctic_Oil_Potentials

Já – rússneska heimsskautaolían er byrjuð að streyma á markaðinn. Og Rússar hafa sannað að kenningin um stórfellda olíuframleiðslu í framtíðinni á heimsskautasvæðunum, mun nær örugglega ganga eftir.

Í þessu sambandi má minna á glænýja niðurstöðu Bandarísku landfræðistofnunarinnar (USGS) þess efnis að vinna megi allt að 160 milljarða tunna af olíu norðan heimskautsbaugs. Stóran hluta af þeirri olíu má nálgast frá landi (t.d. í Síberíu) og mestur hluti afgangsins liggur undir fremur grunnum hlutum heimsskautahafanna (þar sem dýpið er minna en 500 m).

Með þetta í huga og þá staðreynd að olíuverð er nú þegar komið vel yfir þá upphæð sem stæði undir olíuvinnslu á ennþá erfiðari heimsskautasvæðum en Vankor, verður æ líklegra að olíufélögin snúi sér innan ekki of margra ára að Norðurskautinu. Um leið og menn trúa því að olíuverð upp á a.m.k. 70-90 dollara sé komið til með að vera, mun olíuleit færast nær Pólnum. Í framhaldinu gæti olíuframleiðsla Rússa hugsanlega aukist enn frekar og mörg ný olíu- og gassvæði norðan heimsskautsbaugs farið á fullt.

Arctic_Area

Arctic_Area

Þó svo Sádarnir eigi allra manna auðveldast með að auka framboð af olíu, er hugsanlegt að helstu olíuveldi framtíðarinnar verði löndin sem liggja að Norðurskauti. Rússland, Bandaríkin, Kanada og Noregur eru öll farin að horfa í þá átt. Grænlendingar eru líka vongóðir, enda talsverðar líkur á að verulegar olíulindir séu við NA-strönd Grænlands og jafnvel einnig við vesturströndina. Þetta er raunveruleikinn sem blasir við Norðurslóðum.

Ef spár um snögga og mikla olíuverðhækkun eftir ca. 3-5 ár rætist, mun þessi norðurbylgja fara almennilega í gang. Það er sem sagt mögulegt að eftir einungis örfá ár muni hreint olíuæði brjótast út á norðurslóðum. Mögulegt – en gæti auðvitað tafist eitthvað ef olíuverðhækkanir láta á sér standa.

Arctic_oil_rig_towed

Arctic_oil_rig_towed

Sennilegra væri skynsamlegra af Íslendingum að veðja á þjónustu við Norðurskautsolíuna, heldur en að vera að gæla við mikla skipaumferð í tengslum við NA- eða NV-norðurskautsleiðirnar. Það er ennþá í órafjarlægð að kaupskipasiglingar beinist að svo háskalegum hafíssvæðum. Aftur á móti gæti Ísland orðið mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir olíuiðnaðinn á Norðurslóðum. EF slíkt yrði undirbúið í tíma.

Fleira áhugavert: