Hvaðan kemur neysluvatnið þitt?

Grein/Linkur:  Offshore Geothermal Energy development

Höfundur: North Tech Energy ehf

Heimild: 

.

Mars 2021

Fáir vita hvaðan neysluvatnið kemur

Rétt rúmlega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu þekkir uppruna neysluvatnsins á heimilinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Veitur létu gera um þekkingu og viðhorf til vatnsverndarsvæða í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins, 22. mars. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um hvar vatnsverndarsvæðin eru því mörg þeirra eru einnig vinsæl útivistarsvæði.

Þegar spurt var hvort fólk þekkti af hvaða vatnsverndarsvæði neysluvatnið fyrir heimili þess kæmi svöruðu 47% íbúa á höfuðborgarsvæðinu því neitandi. Íbúar á landsbyggðinni eru meðvitaðri en 25% þeirra var ókunnugt um staðsetningu þeirra vatnsbóla sem sáu heimilum þeirra fyrir köldu vatni

Vinsæl útivistarsvæði

Vatnsból höfuðborgarinnar eru í Heiðmörk og kringum þau er vatnsverndarsvæði, um 250 ferkílómetrar að stærð, sem nær m.a. yfir Heiðmörkina og Bláfjöllin og Suðurlandsvegur, með sinni miklu umferð, liggur í útjaðri þess. Mikilvægt er að þessi svæði mengist ekki, t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum sem geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.

Heiðmörk og Bláfjöllin eru afar vinsæl útivistarsvæði og sækja þau fjöldi fólks á degi hverjum. Því er þekking og vitund almennings á sérstöðu svæðisins undirstaða þess að okkur takist að vernda þá grunnvatnsstrauma sem undir liggja og færa okkur hreint og heilnæmt vatn.

Flestir fylgjandi lokunum

Veitur hafa gripið til ýmissa aðgerða í þeim tilgangi, m.a. farið fram á við sveitarfélög sem fara með skipulagsvald í Heiðmörk að þau loki vegum þegar færð er slæm. Með því vilja Veitur koma í veg fyrir að slys sem geta valdið olíumengun verði á svæðinu. Samkvæmt könnun eru 71% íbúa fylgjandi slíkum ráðstöfunum en 15% lýsa sig andvíga þeim. Lokun veganna þegar veður er slæmt á veturna kemur þó ekki í veg fyrir að hægt sé að njóta útivistar í Heiðmörk allan ársins hring. Næg bílastæði er að finna þaðan sem hægt er að ganga, hjóla eða skíða inn á svæðið. Í því samhengi má nefna að búið er að leggja sérstaka braut fyrir skíðagöngufólk frá bílastæði til þess að bæta aðgengi að gönguskíðabrautum Heiðmerkur án þess að þurfa aka að þeim.

Fleira áhugavert: