Vegghiti – Geislahitun í vegg

Grein/Linkur:  Hiti í gólfi eða lofti en því ekki í vegg

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

vegghitakerfi

.

Mars 2008

Hiti í gólfi eða lofti en því ekki í vegg?

Nú er hnípin þjóð í vanda, krónan hríðfallin og vart hægt að velta sér upp úr sömu lystisemdum og þeim sem nýríkir kaupaukamenn hafa legið í síðustu ár. Jafnvel sauðsvartur almúginn hefur tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn. Tæplega eru til svo margir ríkir fjármálamógúlar að þeir gætu nær fyllt Smáratorg á opnunardegi dótabúðarinnar í hæsta húsi landsins og gárungarnir kalla Tossarass og keypt þar hverskonar glingur fyrir 70 milljónir króna á opnunardegi.

En hvað í ósköpunum kemur þetta lagnamálum við? Ekki nema þá að það væri vissulega fróðlegt að fara um hæsta hús landsins og sjá hvernig hönnuðir hafa leyst það að koma hreinu köldu drykkjarvatni um allt húsið, hita í hvern krók og kima og síðast en ekki síst; hreinu lofti til allra þeirra er þar starfa eða koma sem gestir og reka sín erindi.

En það er víst ekki nokkur vafi á því að eitthvað hefur framkvæmdagleði landans dregist saman og kaupgleðin minnkað, sérstaklega á fasteignamarkaði.

vegghiti2

En hvernig standa málin hjá þeim sem eru komnir með lóð og ætla að fara að byggja?
Tæplega hætta þeir við þó að krónugreyið sígi aðeins og verðbólga þenjist lítillega. Að vísu finnst þeim eldri þetta ekki mikið sem er að gerast í dag, þeir muna tímana tvenna. Verðbólgan nær ekki nema einni tölu, en það eru ekki nema rúm þrjátíu ár síðan verðbóga hérlendis var tímabundið skrifuð með þremur tölum og var yfir 60% á einu minnisstæðu ári. Ef farið er enn lengra aftur voru gengisfellingar kækur sem áttu öllu að bjarga en voru reyndar ekkert annað en hluti af bandvitlausri rúllettu hækkunar verðlags annarsvegar og kaupgjald hinsvegar.

Og allir töpuðu

En það er ekki nokkur vafi á því að þeir sem á annað borð eru komnir með lóð og leyfi munu halda áfram og ekki láta bugast, þeir munu byggja sitt hús. Í íbúðarhúsnæði er gólfhitinn að verða hið útvalda hitakerfi og ekkert nema allt gott um það að segja ef unnið er af skynsemi og þekkingu allt frá því að húseigandinn sest andspænis lagnahönnuði þar til gólfhitakerfið er gangsett og stillt.
Nokkuð er um það að hönnuðir hafa sannfært húseigendur um að það gangi ekki upp að setja gólfhita í húsið. Oftast er ástæðan sú að reikningsdæmið sýnir að með gólfhita náist ekki nægur varmi til að mæta hitatapi hússins, en í hinni einu sönnu reglugerð stendur að hitakerfið skuli geta haldið 20°C hita innan dyra þó að úti sé vegghiti4-15°C frost. Afleiðingin verður stundum sú að horfið er frá gólfhita og ofnkerfi lagt í staðin. Það er svo sem ekkert neyðarbrauð, það eru ofnakerfi í meirihluta húsa hérlendis og þau hafa í flestum tilfellum reynst vel.
En stundum reyna hönnuðir að koma með lausnir svo sem eins og þær að nota ofnakerfi og leggja hita gólfið með afrennslisvatni ofnanna. Þá verða ofnar að sjálfsögðu að vera mun minni en ef enginn er gólfhitinn, en þá næst ekki það markmið að losna við ofna. Í einstaka tilfelli hafa hönnuðir gripið í það hálmstrá að nota gólfhita en bæta svo inn ofnum þar sem mest reynir á eins og í stofum. Líklegt er að slík lausn verði byggjandanum þyrnir í augum.

En ein lausn er eftir sem líklega hefur aldrei verið notuð hérlendis með gólfhita. Sú lausn er að setja hitaspíral í vegg þar sem hitinn frá honum fær að njóta sín og komast leiðar sinnar, lendi ekki í gildru húsgagna. Með þessari lausn fæst næg varmagjöf til að mæta hitatapi hússins og enga ofna þarf að nota.

Fleira áhugavert: