Ný lagnaefni – Íhaldssemi, sagan

Grein/Linkur:  Því ekki ný lagnaefni innanhúss?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – thespruce.com 19.05.2021

.

Júlí 1994

Því ekki ný lagnaefni innanhúss?

Hvergi í iðnvæddum löndum hafa menn verið jafn íhaldssamir á lagnaefni innanhúss og hérlendis. Að sjálfsögðu hefur þar ráðið ferðinni, að nokkru, varkárni og er það að vissu leyti góðra gjalda vert. En því verður ekki á móti mælt að þessi varkárni er oft ekkert annað en íhaldssemi og stjórnlyndi þeirra embætta byggingamála sem eitthvað eiga undir sér að eigin áliti og hafa komist upp með það.

Stjórnleysi

Ekki hefur þessi íhaldssemi samt komið í veg fyrir slys í lagnamálum. Lengst af höfum við notað þykk, þung snittuð járnrör til innanhússlagna, óhúðuð til hitalagna en zinkhúðuð til neysluvatnslagna. Ekki er hægt að segja annað en að þetta, að mörgu leyti ágæta lagnaefni, sé búið að skila sínu hlutverki þokkalega og muni gera enn um langan aldur.

En fyrir þremur áratugum gekk hér í garð mikil eiröld. Enginn var maður með mönnum nema lagnir í húsi hans væru úr eir. En ýmislegt fór úrskeiðis, bæði í hönnun og lögn. Þeir sem fluttu inn og seldu þetta ágæta lagnaefni, þeir sem hönnuðu lagnakerfin og þeir sem lögðu í húsin gleymdu allir því mikilvægasta; að afla sér þekkingar á eiginleikum efnisins bæði jákvæðum og neikvæðum.

Af því stöfuðu mistökin og þeir gallar áttu eftir að koma í ljós. Í fæstum tilfellum voru þeir raknir til efnisins, lagnaefnið þurfti aðeins að meðhöndla á réttan hátt.

Eirinn hvarf um stund sem lagnaefni en sækir nú á aftur og vonandi hafa allir sem hann meðhöndla lært af reynslunni.

Engar viðurkendar reglur

En það furðulega ástand hefur ríkt hérlendis, allt fram til þessa, að engin stofnun eða embætti hefur haft vald til að segja sf eða á hvaða lagnaefni skal leyfa. Með setningu íslenskra staðla var ákveðið hvað var leyft og hita- og vatnsveitur hafa sett fram frumskóg reglugerða, stimplaðar í bak og fyrir af ráðuneytum og valdsmönnum. En síðan er allt í sjálfheldu.

Engu má breyta, t.d. kemur í ljós að í nær öllum reglugerðum hitaveitna eru plastlagnir alfarið bannaðar.

Það virðist því liggja ljóst fyrir að öll snjóbræðslukerfi eru brot á viðkomandi reglugerðum.

Þarna kemur fram eitt af okkar uppáhalds þjóðareinkennum. Setja sem flest lög og reglugerðir, en fara ekkert eftir þeim. Það gerist víðar en í umferðinni þar sem við þjótum á 90 km hraða framhjá skiltum sem á stemdur 60 og enginn gerir eða segir neitt.

Endurlagnir í hús

Loksins virðist aðeins vera farið að örla á skilningi á því að við verðum að fara að snúa okkur að viðhaldi eldri bygginga, ekki síst endurnýjun lagna. En þá komum við að ýmsum hindrunum.

Reglugerðarfrumskógurinn er ein hindrunin, þekkingarskortur lagnamanna önnur og fleiri mætti telja. Það er allt annar handleggur að hafa setið við ár eftir ár og hannað sama lagnakerfið í nýbyggingar, að hafa farið blokk úr blokk og lagt sama lagnakerfið á uppmælingahraða.

Það skyldi þó ekki vera að nú þurfi ný vinnubrögð, að nú þurfi aðrar lausnir, að nú þurfi að huga að nýjum lagnaefnum?

Sumar þjóðir hafa sett sér stefnu í þessum málum. Það hafa Norðmenn gert.

Þeir hafa viðurkennt og raunar sett traust sitt á plaströr í útfærslu sem kallast „rör í rör“ kerfið.

Hugsaðu hvernig raflögn er. Þar er fyrst lagt rör, síðan er rafkapall dreginn í. Á sama hátt eru vatns- og hitalagnir lagðar. Í bylgjað kápurör er dregið grennra plaströr, hin eiginlega lögn.

Þessi aðferð hefur nokkra kosti umfram fyrri lagnaaðferðir og lagnaefni.

Plaströrin tærast ekki, skipta má um innri lögnina með því að draga eldra rör út og annað inn í staðinn og ekki síst; ytra rörið á að vera þannig lagt að það taki við vatni ef innra rör bilar og veiti vatninu á skaðlausan stað. En auðvitað hefur þessi lausn sínar veiku hliðar sem taka verður tillit til.

En gleymum því ekki að ekkert efni er ein allsherjar kraftaverkalausn. Það var og er eirinn ekki og það er plastið ekki heldur.

En allt hefur nokkuð til síns ágætis.

Fleira áhugavert: