Frakkland, orka – 70% Kjarnorka
Grein/Linkur: Frakkland: Yfir 70% af rafmagni frá kjarnorku
Höfundur: Arnar Páll Hauksson
.
.
.
Ágúst 2017
Frakkland: Yfir 70% af rafmagni frá kjarnorku
449 kjarnorkuver eru í rekstri í 30 löndum í heiminum. Verið er að reisa 60 ný kjarnorkuver í 15 löndum. Þau framleiddu 2014 um 11% af rafmagni í heiminum. Í 13 löndum stendur kjarnorka undir yfir fjórðungi af raforkuframleiðslunni. Frakkar eru efstir á lista með yfir 70 prósent og næstir koma Slóvenar með 54%. Úkraína er með yfir 50%. Nefna má að hlutfallið er 40 af hundraði í Svíþjóð og tæp 34% í Finnlandi.
Belgar dreifa joðtöflum
Við sögðum frá því að yfirvöld í Noregi teldu að hættan á kjarnorkuslysi hafi aukist vegna aukinnar umferðar kjarnorkuknúinna rússneskra kafbáta úti fyrir ströndum landsins. Norðmenn hafa ákveðið að dreifa joðtöflum út um allt land en þær geta verið mikilvægar til að koma í veg fyrir krabbamein í skjaldkirtli af völdum geislunar.
En í nágrannalöndum Noregs eru rekin kjarnorkuver, í Svíþjóð, Finnlandi og í Rússlandi. 186 kjarnorkuver eða kjarnorkueiningar eru í rekstri í Evrópu sem í heild framleiða yfir 163 þúsund megavött. Belgar ákváðu fyrir nokkrum árum að dreifa joðtöflum vegna þess að komnar eru sprungur í tvö kjarnorkuver.
Strangar reglur
Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, segir að mjög strangar reglur gildi um rekstur kjarnorkuvera, alþjóðareglur sem lönd hafi skuldbundið sig til að fylgja. Innan Evrópusambandsins séu enn strangari reglur.
„Þannig að það er í sjálfu sér ekki ástæða til að ætla að það sé eitthvað að öryggisbúnaði þeirra kjarnorkuvera sem eru starfandi í Evrópu. Hins vegar geta alltaf orðið slys eins og dæmin sanna,“ segir Sigurður.
Saga segir okkur að það hafa orðið slys. Tsjernobyl 1986 og Fukushima 2011.
„Ef það verður kjarnorkuslys á meginlandi Evrópu má gera ráð fyrir því að, eins og var eftir Tsjernobylslysið, að ákveðin svæði gætu orðið óbyggileg í langan tíma og að það væri ekki hægt að stunda landbúnað á öðrum stöðum vegna þess að það væri of mikið af geislavirkum efnum í matvælum sem þar væru framleidd,“ segir Sigurður.
Eldri ver þurfa meira viðhald
Sigurður segir að þó að Belgar hafi ákveðið að dreifa joðtöflum til íbúa sé ekkert sem bendir til þess að hætta sé á ferðum.
„Í kjölfar þessa hafa verið gerðar viðamiklar úttektir á kjarnorkuverunum sem um ræðir. Niðurstaðan er sú að það sé ekkert í þeirra rekstri sem gefi til kynna að öryggi sé ábótavant. Það liggur í hlutarins eðli að eftir því sem kjarnorku ver verða eldri þarf meira og öflugra viðhald og fyrirbyggjandi aðgerðir,“ segir Sigurður.