Hvað er jarðhiti?
Grein/Linkur: Hvað er jarðhiti?
Höfundur: Guðmundur Pálmason
.
September 2002
Jarðhiti er eftir bókstaflegri merkingu orðsins sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita er ríkir við yfirborð jarðar.
Jarðhiti verður til þar sem jarðskorpan er nægilega heit og í henni eru nægar sprungur og vatnsgeng jarðlög til að vatn geti runnið þar um og flutt með sér hitaorku eða varma neðan úr dýpri og heitari jarðlögum til yfirborðs. Þessar aðstæður eru fyrir hendi í eldfjallalöndum eins og á Íslandi þar sem jarðskorpuflekar snertast og myndast, en síður annars staðar.
Jarðskjálftar eru óræk merki þess að jarðskorpan sé að brotna og hreyfast. Í jarðskjálftunum í júní 2000 ýmist víkkuðu eða þrengdust vatnsæðar í jarðskorpunni á Suðurlandi og komu þau áhrif skýrt fram í fjölmörgum borholum á því svæði. Það er því ekki tilviljun að jarðhiti er mikill á helstu jarðskjálftasvæðum landsins.
Jarðskorpan á Íslandi er tiltölulega heit vegna þess að neðri hluti hennar er að talsverðu leyti myndaður úr kvikuinnskotum sem ekki hafa náð til yfirborðs heldur storknað á leiðinni upp. Heitust er hún undir gos- og gliðnunarbeltunum en kólnar þegar fjær dregur og jarðskorpan verður eldri.
Talið er að undir flestum háhitasvæðum landsins, sem öll eru í gosbeltinu, séu kvikuinnskot í tengslum við eldvirkni og að þau séu aðalvarmagjafi þessara jarðhitasvæða. Lághitasvæðin eru þar sem jarðskorpan er kaldari en þó nægilega heit til að hita vatn upp í 50-150°C. Nú er stundum talað um köld svæði þar sem jarðhiti hefur ekki fundist en réttara væri að tala um þurr svæði því að alltaf er nokkur hiti í jarðskorpunni þótt lítið sem ekkert vatn sé til staðar til að flytja varmann til yfirborðs.
Menn hafa lengi vitað að hiti fer vaxandi eftir því sem dýpra kemur undir yfirborðið. Fyrirbæri eins og eldgos og heitar lindir hafa alla tíð verið óræk sönnun þess. Með aukinni nýtingu jarðhitans á tuttugustu öldinni hefur merking orðsins þrengst nokkuð og er það nú fyrst og fremst notað um það fyrirbæri þar sem heitt vatn og gufa kemur upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum.