Saga fortíðar – Undir skemmdum, Misturkerfi

Grein/Linkur:  Liggur saga fortíðar undir skemmdum vítt og breitt um landið?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Maí 2008

Liggur saga fortíðar undir skemmdum vítt og breitt um landið?

Það má teljast merkilegt að þónokkuð hefur varðveist af skjölum frá hinum myrku miðöldum hérlendis en það hefur einnig mikið glatast. Frá síðari öldum hefur ýmsu verið haldið til haga og líklega eru kirkjubækurnar þar ekki hvað síst verðmætar, einnig verslunarbækur og ýmis opinber skjöl frá landstjórninni og svo skjöl og bréf einstaklinga. Þetta er merkilegt því ekki var húsakostur slíkur að heppilegur væri til að varðveita pappír. Saggi í torfbæjum hefur eflaust unnið á ýmsum verðmætum skjölum ásamt hagamúsinni og fleiri eyðingaröflum.
Varðlokinn Hann skammtar vatn inn á vatnsmisturkerfið.

Varðloki (Misturkerfi)

En nú hefur tækninni fleygt fram, húsakostur stórbatnað og ekki síður öll tækni til varðveislu skjala. Það hlýtur því að vera keppikefli allra sveitarfélaga og ríkisvaldsins að búa svo vel að þessari merku sögu sem liggur á gömlum og gulnuðum blöðum eða hvað? Eftir því sem árin færast yfir einstaklinginn vill hann vita meira um forfeður sína og einnig ýmislegt í sögu sinna átthaga og jafnvel skoða ýmislegt sem skráð er um eigið lífshlaup í máli og myndum.

Það var því með verulegri eftirvæntingu sem litið var inn í skjalsafn eins af stærri sveitarfélögum landsins. En því miður varð sú heimsókn áfall, áfall þegar naktar staðreyndir blöstu við, hvernig búið er að sögunni og verðmætunum sem þar liggja. Síðan er sú spurning áleitin hvort þannig sé þetta hvarvetna; eru forráðamenn sveitarfélaga meira og minna blindir á þann mikla fjársjóð sem er falinn í gömlum skjölum, gömlum fundargerðabókum, gömlum málskjölum og gömlum myndum.

Ef tekið er mið af þessu skjalasafni hjá moldríku stóru sveitarfélagi þarf víst ekki að búast við miklu hjá hinum minni. Þarna var skjalasafninu hlaðið inn á efri hæð í húsi sem engan veginn var byggt sem skjalasafn og spurning hve lengi gólfplatan héldi þeim mikla þunga sem á hana var lagður. Og hverjar voru brunavarnir? Venjuleg slökkvitæki eins og sjá má á venjulegum heimilum en vonandi eru þau fyllt og endurnýjuð reglulega. En auðvitað kemur vatnsúðakerfi ekki til greina í skjalasafni, versti óvinur skjala er eldur, sá næstversti vatn.

En viti menn, skjalavörðurinn upplýsti gamlan lagnamann um að nú væri þróunin sú hjá þjóðum, sem gerðu sér grein fyrir óbætanlegum verðmætum skjalasafna, að vatnsúðakerfi gætu vel komið til greina sem brunavörn. Nú urðu sumir hissa. Þetta byggist á því að skjöl, bækur og myndir liggi hvergi óvarin, séu undantekningalaust í sérhönnuðum öskjum. Ef eldur verður laus fer vatnsúðakerfið í gang, slekkur eldinn á mjög stuttum tíma, öskjurnar þola þá bleytu en skjölin er algjörlega heil. Þetta leiddi hugann að nýrri gerð   vatnsúðakerfa sem fyrirtækið Misturkerfi ehf er að markaðsfæra á Íslandi. Þetta er svokallað    vatnsmisturkerfi frá danska fyrirtækinu Novenco sem margir þekkja hérlendis.

Kerfið byggist á því að sundra vatnsdropunum enn betur en áður hefur verið gert í vatnsúðakerfum. Þetta hefur í för með sér að hver lítri af vatni dreifist yfir stærra svæði, vatnsúðakerfið þarf minna vatn og mettar loftið betur. Og þegar eldurinn er dauður er minna vatn á gólfum, húsgögnum og ekki síst á öskjunum sem geyma skjölin en ef hefðbundið vatnsúðakerfi hefði verið í húsinu. Er ekki samsvörun milli þarfa skjalasafna og fínúðakerfa til að slökkva eld fljótt og vel? Er þarna lausn sem forráðamenn sveitarfélaga og skjalasafna ættu að skoða og opna um leið augu sín fyrir því hve skelfilegt það væri ef öll dýrmætu skjölin í einu safni fuðruðu upp á einni nóttu? Vill nokkur bera ábyrgð á því?

Fleira áhugavert: