Horfum við á söguna glatast?

Grein/Linkur:  Eins og sofandi sauðir horfum við á söguna glatast 

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Ágúst 1994

Eins og sofandi sauðir horfum við á söguna glatast 

Eins og sofandi sauðir horfum við á söguna glatast. Ekki var haldinn hér ungmennafélagsfundur að ekki væri samþykkt harðorð tillaga, sem beindist að Dönum; handritin heim og engar refjar. Og fyrir ötult starf fjöldans tókst það. Já einmitt fyrir ötult starf fjöldans, manna og kvenna vítt og breitt um landið. Það má búast við að sú barátta hefði orðið endaslepp ef ekki hefði verið svo mikill almennur áhugi á endurheimt þessara þjóðargersema. Án þjóðarátaks hefði barátta einstakra forystumanna ekki haft þann slagkraft sem þurfti.

Þjóðarstoltið

Þjóðarstolt getur farið út í öfgar. En eins víst er að þessi litla þjóð, á eylandi út í reginhafi, hefði ekki lifað af þær erfiðu aldir, sem að baki eru, án þess.

Á mörgum sviðum gerum við okkur grein fyrir því að sagan er dýrmæt; a.m.k. gamla sagan, saga sjálfstæðisbaráttunnar, hvað þá saga landnáms og þjóðveldis.

Já, við höfum löngum gert okkur grein fyrir þýðingu sögunnar sem finnst í bókum.

En löngum hirti enginn um söguna sem fólst í áþreifanlegum hlutum, búsáhöldum, klæðum, amboðum eða farartækjum. Það er ekki svo ýkja langt síðan einstakir eldhugar hófu baráttu fyrir söfnun og varðveislu muna, en í dag er starf þeirra ómetanlegt. Ekki aðeins þeirra sem gerðu Þjóðminjasafn að veruleika, heldur einnig hinna fjölmörgu um land allt, sem hafa gert minjasöfn um búnaðarhætti fyrri ára og alda.

Minjasöfn eru nú til nánast í hverri sýslu. Merk minjasöfn eru einnig til um sjósókn og siglingar.

Hvar er lagnasafnið?

Svari hver sem getur. Staðreyndin er að við erum svo lokuð fyrir sögunni, sem er að líða hjá, sögu augnabliksins. Því, sem efir hundrað ár yrði litið á sem gersemi, er í dag hent á haug; einskisnýtt skran.

Iðnsaga lagnamanna er stutt hérlendis; aldargömul má þó segja. En sá sem hóf starf sem lagnamaður um miðja öldina veit þó hversu gífurlegum breytingum efni og áhöld hafa tekið. Saga frumherjanna er stórmerk. Ekki aðeins þeirra, sem höfðu forystu fyrir landi og lýð, einnig nafnlausra einstaklinga, sem í dag ættu ekki að vera nafnlausir.

Hvað er að glatast?

Sagan er að glatast. Hvernig voru fyrstu miðstöðvarlagnir í húsum. Hvernig voru ofnarnir? Eigum við aðgang að gömlum kolakatli eða gufukatli? Verkfærin gömlu, pottrörin. Hvernig þéttu menn með blýi eða brennisteini? Fyrstu teikningarnar. Gömlu vatnshrútarnir upp til sveita, er slíkur gripur finnanlegur?

Það er nefnilega að renna upp sá tími að eftir miklu sögulegu er að slægjast. Það hlýtur að vera kominn tími á elstu lagnir í elstu húsum, tími endurlagna er að hefjast. Og þá mun margt merkilegt koma í ljós, margt merkilegt sem á að varðveita. Þess vegna er svo mikilvægt að allir séu vakandi fyrir því að margt af því sem við lítum á sem haugamat kann að vera sögulega merkilegur hlutur.

Ef til vill síðasti „geirfuglinn“.

Hverjir eru ábyrgir?

Fyrst og fremst lagnamenn sjálfir, hvaða titil sem þeir bera. Það er þeirra að vakna af drunganum og taka til hendi, vekja þá sem ekki vakna af sjáfsdáðum. Sögulega séð eigum við mikið og dýrmætt efni fólgið í ítarlegum fundargerðum hinna ýmsu fagfélaga.

En munir og minjar glatast dag frá degi. Stóru veitustofnanirnar, hvort sem eru hitaveitur, kaldavatnsveitur eða fráveitur, hafa einhverju safnað af lagnaefni í gegnum árin. En eingöngu úr eigin veitukerfum.

Það eru einmitt þessar stofnanir, stóru veitustofnanirnar, sem eru þess umkomnar að standa undir kostnaði við söfnun sögu, muna og minja. Þær munar ekkert um það; það er skylda þeirra.

Til þess þarf ekki nema perlubrot.

Fleira áhugavert: