Varmadælur og gólfhitakerfi

Grein/Linkur:  Gólfhiti og varmadæla, því ekki það?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

September 1994

Gólfhiti og varmadæla, því ekki það?

Okkur sem sitjum hér á suðvesturhorni landsins hættir til að hafa nokkuð þröngan sjóndeildarhring. Þetta á við um lagnamál og upphitun húsa sem annað. Heita vatnið streymir um leiðslur og engum bregður þegar hann fær hitaveitureikninginn. Það er að segja ef hitakerfið er í lagi, en því miður er víða misbrestur á því.

En það eru ekki allir landar okkar svo heppnir að búa við þessi ódýru þægindi. Mörgum höfuðborgarbúanum yrði bylt við ef hann sæi hitareikningana hjá þeim sem enn búa við olíukyndingu, já jafnvel þó um rafhitun sé að ræða.

Ekki fyrrir löngu var reynt að skýra það hér í pistli. Á einföldu máli má segja að varmadælan sé öfugur kæliskápur; í stað þess að flytja varmann úr kjötinu, fiskinum, mjólkinni og öllum þeim matvælum sem þar eru út fyrir skápinn, fangar varmadælan varma í vatni, jörð eða lofti og flytur hann ínn í hýbýli.

Snillin er sú að fyrir hvert kílówatt orku, sem vélbúnaðurinn eyðir, skilar hann þremur í staðinn. Svo það er eftir einhverju að slægjast.

Sjór getur verið ágætur varmagjafi og af honum eigum við slatta. Við getum meira að segja fangað 0°C heitt loft og skilað því -10°C Þar höfum við fangað varma. Já, möguleikarnir eru ótrúlega miklir.

.

.

Hvers vegna gólfhiti og varmadæla?

Vegna þess að gólfhitakerfi eru lághitakerfi. Með venjulegum ofnastærðum í húsum viljum við helst fá vatnið 70­-80°C heitt inn og skila því sem köldustu. Þessu er öfugt farið með gólfhitakerfi. Þar má hitinn inn á kerfið ekki vera svo mikill, þá verða gólfin of heit.

Það er jafn slæmt að standa, ganga og vinna á of köldum gólfum sem of heitum. Það besta er að yfirborðshiti gólfsins sé 20-­28°C gr. Þá líður okkur vel. Það er því hagkvæmt að hitastig vatnsins, sem rennur inn á gólfhitakerfi, sé 25­-45°C heitt. Og þar nýtist varmadælan best.

Nýting varmadælunnar á þeirri orku sem hún fær, er best því minni munur sem er á hitastigi varmagjafans, hvort sem það er sjór, jörð eða loft, og endanlegu hitastigi sem hún skilar frá sér.

Þess vegna eiga gólfhiti og varmadæla svo vel saman.

Gamlir fordómar

Hefurðu einhverntímann heyrt sagt „heit gólf, ég ætla ekki að láta sjóða á mér lappirnar“.

Skiljanlega ekki, enda stendur það ekki til. Það er einfaldlega verið að benda á þá staðreynd að með því að láta 25­-30°C heitt vatn renna um slöngur í gólfi ertu með æskilegasta og þægilegasta gólfhita sem hægt er að hugsa sér.

Gólfhita er hægt að nota hvernig sem gólfið er. Hagstæðast er að það sé steinsteypt, en það er einnig hægt að nota gólfhita með mjög góðum árangri þó að um trégólf sé að ræða, þó það sé parkett eða teppi á gólfum.

Þetta er sannreynt þar sem eru ekki jarðvarmaveitur.

Það er einmitt á þeim svæðum sem þetta kærustupar, gólfhiti og varmadæla, geta komið að svo miklu gagni og veitt svo mikil þægindi að ógleymdu hreinlæti miðað vi olíukyndingu.

Þess vegna ættu íbúar höfuðborgarsvæðisins ekkert að vera lesa þennan pistil. Hann er ekki þeim ætlaður. Hann er ætlaður landsbyggðinni, sem ekki býr við þægindi og hreinlæti hveravatnsins.

Varmadælur má setja upp í einstök hús. En það er einnig hægt að setja upp stærri varmadælur, sem sjá heilum hverfum fyrir hita og baðvatni. Þetta er aðeins möguleiki, sem máttur vanans hefur haldið frá okkur.

Leyfum okkur að lokum að nefna nokkra staði, þar sem húsbyggjandi, já og húseigendur almennt, ættu að skoða möguleikann.

Hvað um Grundarfjörð, Raufarhöfn, Breiðdalsvík og Hólmavík svo aðeins fáir staðir séu nefndir?

Fleira áhugavert: