Íslenska vatnið – Ólíkt efnainnihald

Grein/Linkur:   Að lokinni ráðstefnu

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Október 1998

Að lokinni ráðstefnu

Efnainnihald vatnsins hér á landi er ólíkt frá einum stað til annars. Þetta veldur því, að ekki er hægt að nota sama lagnaefnið alls staðar.

Ráðstefnan sem Samorka, samtök raf- og vatnsveitna, efndi til í byrjun október tókst vel og flestir fyrirlestrar voru bæði fræðandi og áhugaverðir.

Ráðstefnan var mjög vel sótt, um 130 þátttakendur voru skráðir til leiks og sátu í einn og hálfan dag og hlustuðu með athygli. Það tekur alltaf tíma að melta þann boðskap sem fram kemur í erindum fyrirlesara, flestir leggja fyrirlestrana fram skriflega, en þó voru á því undantekningar, því miður. Það ætti að vera regla án undantekninga á slíkum ráðstefnum að þátttakendur fari heim með þá fyrirlestra sem þeir hlýða á, alveg á sama hátt og á hvers konar námskeiðum í endurmenntun, ráðstefna sem þessi er svo sannarlega endurmenntun.

Það verður ekki hægt að drepa nema á lítið eitt sem þarna kom fram í stuttum pistli, en nokkrar þýðingarmiklar staðreyndir er rétt að benda á.

Íslenska vatnið

Þegar þjóðremban stígur okkur til höfuðs, sem er æði oft, stærum við okkur meðal annars af fegurstu náttúrunni, tærasta loftinu og hreinasta og heilnæmasta vatninu. Sleppum náttúrunni og loftinu að sinni, en hugum aðeins nánar að vatninu.

Efnainnihald vatnsins hér á landi er ólíkt

Það er vissulega til mikið vatn á Íslandi, annars væri deilan um uppistöðulón og virkjanir ekki svo fyrirferðamikil sem hún er í dag.

En það er hæpið að tala um „íslenska vatnið“ því að af því eru til svo margar gerðir, efnainnihald þess er svo ólíkt frá einum stað til annars og þarf ekki um langan veg að fara til að munurinn sé oft mikill.

Þetta veldur því að það er ekki hægt að nota sama lagnaefnið hvarvetna, en þarna kom líka fram að þó talsverð þekking sé nú þegar á efnainnihaldi vatns víðsvegar á landinu, t.d. hjá Orkustofnun og ýmsum vatns- og hitaveitum, vantar mikið á að búið sé að kortleggja allt landið.

Slík könnun þarf einnig að vera stöðugt í gangi, því við hverja nýja borholu, hvort sem er fyrir heitt eða kalt vatn, þarf að rannsaka vatnið bæði til að kanna gæði kalda vatnsins sem neysluvöru og til að kanna hvaða lagnaefni henta. Það kann að koma í ljós sú þversögn að því betra sem vatnið er til drykkjar og til nota í matvælaiðnaði, því takmarkaðra getur valið orðið þegar kemur að því að velja lagnaefni.

Má biðja um lítinn skatt?

Það er að bera í bakkafullan lækinn að byrja að tuða um þennan milljarð króna sem er fórnarkostnaður vatnskaða árlega hér á landi enda ekkert útlit fyrir annað en að þær fórnir haldi áfram næstu árin. En það er fjári hart að hjakka alltaf í sama farinu og vera að gera sömu mistökin ár eftir ár og viðhalda stöðugt þessari hringrás með því að nota rangt lagnaefni, sem verður síðar að hluta af þessum fórnarkostnaði.

En það vantar „banka“ og er það víst þversögn miðað við stefnu stjórnvalda að fækka slíkum stofnunum eins og kostur er. En þessi „banki“ ætti ekki að höndla með peninga heldur þekkingu.

Í honum ættu að vera staðgóðar upplýsingar um allt íslenskt vatn, bæði kalt og heitt, sem til greina kæmi að nýta. Þannig gæti hönnuður, sem stendur frammi fyrir því verkefni að hanna lagnakerfi, hvort sem það er í Kópavogi eða á Kópaskeri, Bíldudal eða Breiðdalsvík, eða hvar sem er á landinu, farið í „bankann“ fengið útskrift af „innistæðu“ vatnsins á staðnum og valið lagnaefni í kerfið út frá þeim forsendum og með því sparað fjármuni framtíðarinnar.

En það vantar peninga til að þessi „banki“ geti starfað af þeim krafti sem er brýn nauðsyn.

En þessir peningar eru til, það þarf aðeins að skipuleggja örlitla skattheimtu í formi nokkurra prómilla af seldu vatni hérlendis, það væri kaupendum vatnsins til mikils sparnaðar í framtíðinni að þessi skattheimta yrði að veruleika. Það er svo spurning hvort nokkra skattheimtu þarf til, eru veitukerfin flest ekki með þá burði að geta lagt fram þessa fjármuni án þess að hækka sína vöru?

Nú magnast umræðan um byggðastefnu þar sem kosningar til Alþingis eru framundan og landsbyggðarmenn segja, oft með réttu, að þeirra hlutur sé fyrir borð borinn. Væri það ekki vænleg byggðastefna að leggja til að þessi litli skattur verði aðeins lagður á veitur sunnan Hvalfjarðar og vestan Hellisheiðar?

Það hlýtur að vera raunhæfari jöfnun en að ríghalda í óréttlátt misvægi atkvæða, ekki verða þingmenn, sem landsbyggðin fær þannig, í askana látnir.

Fleira áhugavert: